Hoppa yfir valmynd
14. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Samkomulag framlengt við Strandabyggð um endurskipulagningu fjármála

Hólmavík á Ströndum - myndiStock

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur undirritað nýtt samkomulag við sveitarstjórn Strandabyggðar um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins til að unnt verði að ná jafnvægi í rekstri og standast fjárhagsleg viðmið sveitarstjórnarlaga. Samkomulagið er framhald á fyrra samkomulagi aðila frá 30. mars 2021 sem Strandabyggð hefur unnið eftir á árinu 2021. Jón Gísli Jónsson, oddviti Strandabyggðar, undirritaði samkomulagið fyrir hönd sveitarfélagsins. 

Í nóvember sl. óskaði sveitarstjórn Strandabyggðar eftir því að samkomulagið við ráðuneytið yrði framlengt um tvö ár. Fram kom í erindi Strandabyggðar að ágætis árangur hafi náðst á seinni hluta ársins 2021 við að stöðva hallarekstur en ljóst væri að sveitarfélagið þyrfti á frekari stuðningi að halda. Í lögbundinni umsögn eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga var mælt með því að samkomulagið yrði gert á grunni 83. gr. sveitarstjórnarlaga.

Strandabyggð hefur á síðastliðnu ári unnið með óháðum ráðgjafa að fjárhagslegri greiningu og markmiðasetningu. Í skýrslu sem unnin var með Strandabyggð um fjárhagslega úttekt fyrir árið 2021 kemur fram gripið hafi verið til hagræðingaraðgerða, lán endurfjármögnuð og álögur hækkaðar á íbúa. Því geti sveitarfélagið ráðist í löngu nauðsynlegar og tímabærar framkvæmdir. Í framhaldinu þurfi að fylgja eftir fjárhagsáætlun og greina tækifæri til tekjuaukningar, svo sem með nýrri atvinnuuppbyggingu.

Markmið samkomulagsins eru að:

  • Stuðla að áframhaldandi markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri Strandabyggðar í samræmi við fjárhagsáætlun 2022-2025.
  • Stuðla að því að fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga á árunum 2022-2024, verði náð í samræmi við 1. mgr. 64. gr. sveitarstjórnarlaga.
  • Stuðla að því að sveitarfélagið hafi fjárhagslega getu til að sinna eðlilegu viðhaldi eigna og nauðsynlegum fjárfestingum.

Samkomulagið kveður einnig á um 65 m.kr. framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sbr. heimild 84. gr. sveitarstjórnarlaga þar að lútandi. Framlagið skiptist á árin 2022 og 2023 og verður nýtt til verkefnastjórnunar, kostnaðar við ráðgjafa, að bæta lausafjárstöðu og greiða fyrir nauðsynlegar framkvæmdir á gildistíma samkomulagsins. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hefur samþykkt framlagið fyrir sitt leyti.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta