Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 274/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 274/2023

Þriðjudaginn 22. ágúst 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. maí 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi þáði lengingu á fæðingarorlofi í tvo mánuði frá 8. maí 2022 og fram að áætluðum fæðingardegi barns, 8. júlí s. á. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. nóvember 2022, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu úr sjóðnum í maí og júní 2022 og óskað frekari gagna og skýringa frá henni. Skýringar bárust frá kæranda, dags. 10. nóvember 2022, auk skýringa frá vinnuveitanda hennar. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 14. nóvember, var kæranda tilkynnt, með vísan til 2. mgr. 41. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), að hún hefði fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en heimilt væri samkvæmt framangreindum lögum og bæri henni því að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 720.000 kr., auk 15% álags, samtals 828.000 kr. Frekari skýringar bárust frá kæranda og vinnuveitanda hennar og því tók Fæðingarorlofssjóður málið til endurskoðunar. Með ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. maí 2023, var fyrri ákvörðun staðfest en krafa um endurgreiðslu lækkuð og bæri henni nú að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði 457.003 kr., auk 15% álags, samtals 525.553 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júní 2023. Með bréfi, dags. 13. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 20. júní 2023, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. júní 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi starfað í B fyrir fæðingarorlof, þar sem […]. Í Covid hafi samkomutakmarkanir valdið því að B hafi ekki getað haldið uppi eðlilegri starfsemi og jafnframt hafi verið takmarkað aðgengi ferðamanna til Íslands.

Kærandi hafi starfað fyrir B í fullu starfi, ásamt því að vera með vaktsíma ef ferðamenn lendi í vandræðum, en þá sé um að ræða yfirvinnu. Kærandi hafi ekki fengið greidda yfirvinnu í launum heldur í formi frís. Í Covid hafi verið ákveðið að kærandi myndi safna upp yfirvinnunni og hún fengi hana greidda þegar starfsemin gæti hafist að nýju og tekjur kæmu aftur inn í fyrirtækið. Kærandi hafi fengið þá vinnu greidda í byrjun júní, rétt áður en hún hafi eignast barn sitt. Þá hafði hún dvalið á spítala vegna meðgöngukvilla.

Kærandi hafi veitt Fæðingarorlofssjóði allar þær upplýsingar sem bentu til að um væri að ræða uppsöfnuð laun vegna vinnu sem unnin hafi verið á öðru tímabili, launaseðla, vaktaplan, bréf frá yfirmanni og sannanir fyrir því að hún hafi verið með vaktsíma á þessu tímabili. Sjóðurinn telji samt sem áður að það geti ekki staðist því kærandi hafi ekki fengið greidda yfirvinnu áður. Það skýrist þó af því að áður hafi hún tekið út yfirvinnu í formi frís. Margt hafi breyst í Covid, kærandi hafi átt von á barni og því hafi kærandi ásamt vinnuveitanda ákveðið að útfæra aðstæður með þessum hætti.

Kærandi hafi nú þegar fengið reikning frá ríkissjóðsinnheimtu sem telji hana ekki skulda. Fæðingarorlofssjóður standi á sínu og geti ekki aðstoðað kæranda frekar.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu frá Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022. Greiðslur til kæranda frá vinnuveitanda hafi fallið niður minna en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag 8. júlí 2022.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 8. nóvember 2022, hafi athygli hennar verið vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022. Með bréfinu hafi verið óskað eftir launaseðlum, tímaskýrslum, útskýringum vinnuveitanda og útskýringum og andmælum kæranda, ásamt öðru því sem skýrt gæti málið.

Við rannsókn málsins hafi skýringar borist frá kæranda, sem og launaseðlar, ráðningarsamningur, yfirlit vinnu og skýringar vinnuveitanda. Kæranda hafi upphaflega verið send greiðsluáskorun, dags. 14. nóvember 2022. Þar sem frekari skýringar hafi borist sjóðnum, hafi þótt rétt að endurskoða mál kæranda. Í ljós hafi komið að krafa á kæranda hafi upphaflega verið of há þar sem láðst hafi að taka tillit til staðgreiðslu og annarra launatengdra gjalda við töku ákvörðunar. Ný greiðsluáskorun hafi verið send kæranda, dags. 25. maí 2023, þar sem hún hafi verið krafin um endurgreiðslu útborgaðar fjárhæðar ásamt 15% álagi. Sú ákvörðun hafi verið kærð. Litið hafi verið svo á samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins, innsendum skýringum og gögnum, að kærandi hafi fengið ofgreitt úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt 17. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl.

Í málinu sé óumdeilt að kærandi uppfylli skilyrði um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og eigi þar með tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi hafi þar að auki sótt um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu samkvæmt 17. gr. ffl. Með umsókninni hafi borist staðfesting frá vinnuveitanda, sem jafnframt sé maki kæranda, dags. 18. maí 2022, þar sem fram komi að kærandi hafi látið af störfum 1. mars 2022 vegna veikinda og veikindaréttur hafi verið fullnýttur 30. apríl 2022. Þá hafi borist staðfesting frá VR, dags. 18. maí 2022, um bótatímabil kæranda frá 1. til 8. maí 2022. Umsókn kæranda um lengingu fæðingarorlofs hafi verið samþykkt fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022, sbr. bréf til kæranda, dags. 8. júní 2022 og greiðsluáætlun, dags. 16. júní 2022. Barn kæranda fæddist X.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi fallið af launum frá vinnuveitanda sínum meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Samkvæmt upplýsingum frá Heilsuveru sem hafi borist rafrænt með umsókn kæranda frá Ísland.is hafi áætlaður fæðingardagur verið X, sbr. bréf, dags. 19. maí 2022.

Í 17. gr. ffl. sé fjallað um veikindi barnshafandi foreldris á meðgöngu. Í 1. mgr. ákvæðisins komi fram að sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b-lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skuli foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræði, en þó aldrei lengur en í tvo mánuði. Þá komi fram í 3. mgr. að umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við eigi. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur hafi fallið niður.

Í athugasemdum við 3. mgr. 17. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum nr. 144/2020 komi fram að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar eftir því sem við eigi. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur hafi fallið niður. Ástæðan sé sú að ekki geti komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema að greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar eða greiðslur Vinnumálastofnunar hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Samkvæmt 17. gr. ffl. hefðu greiðslur frá vinnuveitanda til kæranda þurft að falla niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag svo kærandi ætti rétt á lengingu fæðingarorlofs eða í síðasta lagi X.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Skattsins hafi kærandi þegið 676.257 kr. í laun í maí og 318.254 kr. í júní 2022. Á launaseðli fyrir maí 2022 komi fram að kærandi haldi fullum launum þann mánuð og í júní haldi kærandi hálfum launum sem jafngildi launum til og með 15. júní 2022. Að auki hafi kærandi fengið greidda dagpeninga og ökutækjastyrk þessa mánuði sem séu undanþegnir staðgreiðslu og komi því ekki fram í staðgreiðsluskrá heldur einungis á launaseðli.

Í málinu hafi kærandi og vinnuveitandi hennar haldið því fram að greiðslur til kæranda í maí og júní 2022 tilheyri vinnu sem unnin hafi verið á öðru tímabili.

Þannig segi kærandi til að mynda upphaflega í tölvupósti, dags. 8. nóvember 2022, að um sé að ræða laun greidd fyrir vinnu sem hafi verið unnin í byrjun árs, janúar, febrúar og mars, sem fyrirtækið hafi átt eftir að greiða. Í tölvupósti 14. nóvember 2022 segi kærandi að hún hafi átt þessi laun inni því tekjur fyrirtækisins í Covid hafi verið engar og þau ekki getað tekið á móti neinum viðskiptavinum. Í tölvupósti 15. nóvember 2022 hafi kærandi sagt að hún hafi unnið marga yfirvinnutíma á tímabilinu desember 2021 til apríl 2022, bæði til að koma fyrirtækinu yfir Covid tíma sem og í nýjum verkefnum til að koma fyrirtækinu aftur á skrið. Í tölvupósti 22. nóvember 2022 hafi kærandi sagt að fyrirtækið sé með gistingu. Gestir komi á öllum tíma sólahringsins, þau noti „self check-in“ og því sé fyrirtækið með starfsmann á vaktsíma þegar skrifstofan sé lokuð. Á tímabilinu desember 2021 og út mars 2022 hafi kærandi verið með símann að mestu leyti með tilheyrandi símtölum og útköllum á öllum tímum sólahringsins.

Þannig breytist frásögn kæranda frá því að hún hafi átt inni laun vegna vinnu sem hafi verið unnin í janúar til mars 2022, þegar fyrirtækið hafi ekki getað aflað neinna tekna og ekki verið hægt að taka á móti viðskiptavinum, í það að fyrirtækið bjóði einnig upp á gistingu og á tímabilinu desember 2021 og út mars 2022 hafi kærandi að mestu leyti verið með vaktsíma  með tilheyrandi símtölum og útköllum á öllum tímum sólahringsins. Eins og áður komi fram hafi vinnuveitandi, sem jafnframt sé maki kæranda, þá áður staðfest með bréfi, dags. 18. maí 2022, að kærandi hafi látið af störfum vegna veikinda 1. mars 2022.

Tvö önnur bréf hafi borist frá vinnuveitanda kæranda. Það fyrra með tölvupósti 10. nóvember 2022 en undir það riti maki kæranda, sem jafnframt eigi 20% í fyrirtækinu. Seinna bréfið hafi borist með tölvupósti 1. febrúar 2023 frá hinum eiganda fyrirtækisins sem eigi 80% hlut í því.

Í [fyrirliggjandi ódagsettu bréfi frá vinnuveitanda og maka kæranda]segi meðal annars að vegna síbreytilegra samkomutakmarkana og COVID-19 hafi fyrirtækið og kærandi gert samning um að vinna sem hafi verið unnin í desember 2021 til apríl 2022 yrði greidd þegar samkomutakmarkanir yrðu felldar niður með öllu, fyrirtækinu væri heimilt að taka á móti nýjum viðskiptavinum og eðlileg starfsemi komin á skrið að nýju. Fyrirtækið hafi einnig á staðnum gistiaðstöðu fyrir erlenda ferðamenn. Það hafi enga móttöku fyrir gesti og sé því alltaf með vaktsíma sem gestir geti náð í allan sólahringinn, því þurfi starfsmaður að vera með vaktsíma á sér ef upp komi slík tilvik. Þá segi að ákveðið hafi verið að kærandi fengi tvö full mánaðarlaun fyrir 81 sólarhring með vaktsíma fyrir tímabilið desember 2021 til mars 2022, um 17.100 kr. fyrir sólarhringinn með vaktsíma, en yfir hátíðarnar, 24., 25., 26. og 31. desember, fengi kærandi greitt tvöfalt, þ.e. 34.177 kr. Síðan segi að dagpeningar, orlofsgreiðsla og bifreiðastyrkur sé inni í þessum upphæðum þar sem oftar en ekki hafi þurft að stökkva til og aðstoða gesti.

Í málinu liggi einnig fyrir almennt yfirlit yfir þá daga sem kærandi eigi að hafa borið vaktsíma, mánuðina desember 2021 til mars 2022. Á yfirlitinu komi einnig fram að kærandi hafi á sömu mánuðum tekið einn fund á netinu við birgja í C. Fundirnir hafi virst vera metnir sem yfirvinna í fimm klukkustundir hvert skipti vegna tímamismunar.

Skýringar vinnuveitanda þess efnis að kærandi hafi fengið tvö full mánaðarlaun fyrir 81 sólahring, þar sem 4 dagar hafi verið greiddir á 34.177 kr. og 77 dagar á um 17.100 kr. gangi ekki upp, hvorki gagnvart þeim fjárhæðum sem birtist á staðgreiðsluskrá Skattsins, né á launaseðlum fyrir maí og júní 2022. Þar að auki hafi vinnuveitandi og maki kæranda áður staðfest að kærandi hafi látið af störfum vegna veikinda 1. mars 2022.

Þessu til viðbótar hafi verið lagðir fram launaseðlar frá ágúst 2021 til og með júní 2022. Af þeim megi sjá að kærandi sé á föstum mánaðarlaunum sem tvisvar hafi tekið breytingum í samræmi við breytingar sem hafi orðið á launatöxtum VR og SA í janúar og apríl 2022. Þannig hafi föst mánaðarlaun kæranda frá ágúst til desember 2021 verið 550.000 kr., þau svo hækkað í 567.250 kr. í janúar 2022 og aftur í apríl sama ár í 577.750 kr. Þá hafi kærandi fengið fastan ökutækjastyrk að fjárhæð 25.000 kr. á mánuði og fasta dagpeninga að fjárhæð 25.000 kr. á mánuði sem séu undanskildir staðgreiðslu, auk fastrar orlofsuppbótar og desemberuppbótar. Loks hafi kærandi fengið 10,17% orlof reiknað ofan á laun sín.

Launaseðlar fyrir maí og júní 2022 beri ekki með sér að verið sé að greiða kæranda laun fyrir önnur tímabil en þá mánuði. Þannig komi beinlínis fram á launaseðlum að tímabilið sem um ræði sé maí og júní 2022. Við skoðun á launaseðlum kæranda, tímabilið ágúst 2021 til og með júní 2022, sé heldur ekkert sem styðji að kærandi hafi á nokkrum tíma unnið yfirvinnu eða þá að hún hafi borið vaktsíma á tímabilinu sem hún hafi fengið greitt sérstaklega fyrir í formi yfirvinnulauna, fastra mánaðarlauna eða frítöku. Þá fái kærandi greidd öll sín hefðbundnu laun mánuðina desember 2021 til og með mars 2022 sem séu þeir mánuðir sem kærandi eigi að auki að hafa borið vaktsíma í 81 sólahring og samið hafi verið um að greitt yrði fyrir síðar sem tvö full mánaðarlaun. Þá mánuði séu engir tímar skráðir vegna yfirvinnu, funda eða vaktsíma á launaseðlum, ekkert frekar en aðra mánuði á tímabilinu.

Þá hafi enginn skriflegur samningur verið lagður fram í málinu sem styðji það að kærandi og vinnuveitandi hafi gert með sér samning um að vinna vegna vaktsíma í desember 2021 til og með mars 2022 yrði greidd út síðar og þá í formi tveggja mánaðarlauna í maí og júní 2022.

Eini samningurinn sem hafi verið lagður fram sé ráðningarsamningur sem hafi borist með tölvupósti 13. mars 2022. Á samninginn hafi verið handskrifað „möguleiki á yfirvinnu v/vaktsíma.“ Samningurinn, sem sé dagsettur í júlí 2021, sé undirritaður af maka kæranda sem vinnuveitanda með mánaðarlaunum upp á 577.750 kr. sem sé launafjárhæð kæranda frá apríl 2022. Eins og áður segi hafi kærandi upphaflega verið með 550.000 kr. í mánaðarlaun sem hafi hækkað í 567.250 kr. í janúar 2022 og loks í 577.750 kr. í apríl 2022. Því verði ekki annað séð en að lagður hafi verið fram ráðningarsamningur í málinu með röngum upplýsingum.

Samkvæmt öllu framangreindu verði ekki annað séð en að kærandi hafi haldið fullum launum til 15. júní 2022 og því ekki fallið af launum meira en mánuði fyrir áætlaðan X, eins og áskilið sé í 17. gr. ffl.

Í 41. gr. ffl. sé fjallað um leiðréttingar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Í 2. mgr. komi fram að hafi foreldri fengið hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka sem leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í athugasemdum við 2. mgr. 41. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum nr. 144/2022 segi að í 2. mgr. sé lagt til að skýrt komi fram að þegar fyrir liggi að foreldri hafi fengið hærri greiðslur en því hafi borið samkvæmt ákvæðum frumvarpsins miðað við álagningu skattyfirvalda, vegna þess viðmiðunartímabils sem greiðslur til viðkomandi foreldris hafi miðast við þegar meðaltal heildarlauna foreldris hafi verið reiknað út á grundvelli 23. gr. eða fæðingarstyrkur verið ákvarðaður samkvæmt VI. kafla, eða af öðrum ástæðum, svo sem vegna skerðingarákvæða 25. og 39. gr., ósamrýmanlegra réttinda samkvæmt 53. gr. eða annarra tilvika þar sem af einhverjum ástæðum hafi verið ofgreitt úr sjóðnum eða fæðingarstyrkur verið greiddur, beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem um ræði að viðbættu 15% álagi. Fæðingarorlofssjóður árétti að álagið sem lagt sé á fyrrnefnda endurgreiðslu foreldra sé ekki bundið við að foreldri hafi af ásettu ráði ætlað sér að fá hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eða fæðingarstyrk en því hafi borið samkvæmt ákvæðum laganna, heldur nægi gáleysi foreldris hvað það varði. Í því sambandi megi nefna þau tilvik þegar foreldri upplýsi Fæðingarorlofssjóð ekki um breyttar aðstæður sínar sem gætu hugsanlega leitt til þess að viðkomandi foreldri fái greiddar hærri greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en því beri samkvæmt ákvæðum frumvarpsins.

Samkvæmt öllu framangreindu hafi Fæðingarorlofssjóður því ofgreitt kæranda 457.003 kr., auk 15% álags að fjárhæð 68.550 kr. Alls sé því gerð krafa um að kærandi endurgreiði Fæðingarorlofssjóði 525.553 kr., sbr. greiðsluáskorun til hennar, dags. 25. maí 2023.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. maí 2023, um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022.

Í 17. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er fjallað um veikindi barnshafandi foreldris á meðgöngu. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að sé nauðsynlegt fyrir barnshafandi foreldri af heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b-lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skuli foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræði en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í 3. mgr. 17. gr. ffl. segir að með umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda eftir því sem við eigi og að í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur féllu niður. Í athugasemd með 17. gr. í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að ffl. segir að ástæðan fyrir því sé sú að ekki geti komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar, hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Í 41. gr. ffl. er kveðið á um leiðréttingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 2. mgr. að hafi foreldri fengið hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði eða hærri fæðingarstyrk en því bar samkvæmt ákvæðum laganna miðað við álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri foreldri að endurgreiða Fæðingarorlofssjóði þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi óháð ásetningi eða gáleysi foreldris. Fella skuli niður álagið samkvæmt þessari málsgrein sýni foreldri fram á með skriflegum gögnum að því verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 8. júní 2022, var umsókn kæranda um lengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samþykkt. Réttur kæranda til greiðslna var framlengdur frá 8. maí 2022 og fram að fæðingardegi barns. Barn kæranda fæddist 14. júní 2022. Endurgreiðslukrafa sjóðsins lýtur þannig að tímabilinu frá 8. maí til 13. júní 2022.

Endurgreiðslukrafa Fæðingarorlofssjóðs byggir nánar tiltekið á því að kæranda beri að endurgreiða þær greiðslur sem hún fékk ofgreiddar úr sjóðnum, annars vegar fyrir 8. – 31. maí 2022 að fjárhæð 462.000 kr. og hins vegar fyrir 1.-13. júní s.á. að fjárhæð 258.000 kr. eða samtals 720.000 kr. Að frádregnum sköttum og öðrum gjöldum nemur heildarendurgreiðslukrafa sjóðsins á hendur kæranda samanlagt 457.003 kr., og að viðbættu 15% álagi samtals 525.553 kr., sbr. 2. mgr. 41. gr. ffl.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 462.000 kr. frá 8. til 31. maí 2022. Þá fékk kærandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði að fjárhæð 258.000 kr. á tímabilinu 1. til 13. júní 2022. Kæranda var ekki heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda á sama tímabili án þess að það hefði áhrif á greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 3. mgr. 17. gr. ffl. og skýringar við þá grein, sem og 2. mgr. 41. gr.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er ljóst að kærandi fékk ofgreiddar 457.003 kr. fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022. Að viðbættu 15% álagi, 68.550 kr., nemur fjárhæð endurgreiðslukröfu á hendur kæranda samtals 525.553 kr. Ákvæði 41. gr. ffl. er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að endurgreiðslukrafan verði felld niður.

Með vísan til alls framangreinds og framlagðra gagna málsins er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr fæðingarorlofssjóði fyrir tímabilið 8. maí til 13. júní 2022 að fjárhæð 525.553 kr. því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. maí 2023, um að krefja A, um endurgreiðslu á ofgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði fyrir 8. maí til 13. júní 2022 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta