Rætt um núllsýn á árlegu umferðarþingi
Umferðarþing verður haldið fimmtudaginn 25. nóvember á Grand hóteli í Reykjavík og stendur daglangt. Þingið hefst með ávarpi Karls Matthíassonar, formanns umferðarráðs, og síðan flytur Ögmundur Jónasson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ávarp og afhendir viðurkenninguna Umferðarljósið.
Svonefnd núllsýn verður aðalefni umferðarþingsins. Claes Tingvall, yfirmaður umferðaröryggismála hjá Trafikvärket í Svíþjóð, segir frá núllsýninni sem hann er frumkvöðull að. Í grundvallaratriðum gengur hún út á að banaslys í umferðinni séu óviðunandi og að allt skuli gert sem hægt er til að koma í veg fyrir þau. Claes Tingvall og aðrir þeir sem fylgja núllsýninni telja að banaslys þurfi ekki að vera óumflýjanlegur fylgifiskur umferðarslysa.
Claes Tingvall hefur skrifað yfir 100 tæknigreinar í bækur og tímarit og haldið fyrirlestra um umferðaröryggismál víða um heim. Hann er yfirmaður umferðaröryggisdeildar hjá Trafikvärket í Svíþjóð og var um sex ára skeið stjórnarformaður í EuroNCAP, sem annast mat á öryggi bíla. Hann er einnig prófessor við Monarch háskólann í Ástralíu.
Af öðrum umfjöllunarefnum umferðarþings má nefna erindi um nýjungar í ökukennslu, hjólaborgina Reykjavík, veðurfar og umferðaröryggi og nýja tækni í öryggi ökutækja. Einnig verður fjallað um hjólbarða og umhverfi vega.
Skráning á þingið fer fram rafrænt á vefsíðu Umferðarstofu. Þátttökugjald er 10.000 krónur.
Dagskrá umferðarþings:
9:00 Ávarp formanns Umferðarráðs: Karl V. Matthíasson
9:10 Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra: Ögmundur Jónasson
9:20 Afhending Umferðarljóssins
9:40 Kaffihlé
10:00 Núllsýn í umferðarmálum. Claes Tingvall, yfirmaður umferðaröryggismála hjá Trafikvärket í Svíþjóð.
10:50 Hvað þarf að breytast til að framfylgja núllsýn? Jón Ásgeir Kalmansson siðfræðingur.
11:10 Panelumræður um núllsýn í umferðarmálum. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í samgöngunefnd Alþingis og Claes Tingvall.
12:00 Hádegismatur
13:00 Nýjungar í ökukennslu á Íslandi. Jón Haukur Edwald, formaður Ökukennarafélags Íslands, og Einar Guðmundsson, sérfræðingur Sjóvá.
13:20 Hjólaborgin Reykjavík. Pálmi Freyr Randversson, sérfræðingur á umhverfis og samöngusviði Reykjavíkur.
13:40 Bættur aðbúnaður fyrir hjólreiðamenn. Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir, verkfræðingur, Eflu.
14:00 Veðurfar og umferðaröryggi. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
14:20 Fræðsluefni um umferðaröryggi fyrir framhaldsskóla. Þóra Magnea Magnúsdóttir, fræðslufulltrúi Umferðarstofu.
14:40 Það sem mér þótti í lagi, varð barni mínu að bana! Sig. Óskar Sólmundarson.
15:00 Kaffihlé
15:30 Ný tækni í öryggi ökutækja. Skúli Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri þjónustusviðs Ingvars Helgasonar.
15:50 Hjólbarðar og umferðaröryggi. Stefán Ásgrímsson, ritstjóri FÍB blaðsins.
16:10 Umhverfi vega og umferðaröryggi. Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar.
16:40 Þingslit. Karl Ragnars, forstjóri Umferðarstofu.