Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Rakarastofuviðburður á malavíska þinginu með stuðningi Íslands

Þátttakendur á viðburðinum.  - mynd

Í vikunni fór fram vel heppnaður Rakarastofuviðburður í malavíska þinginu fyrir þingnefnd um mannfjöldaþróun í landinu. „Það er afar ánægjulegt að hugmyndafræði Rakarastofuviðburða sé orðin þekkt í Malaví og þyki árangursríkt verkfæri til þess að ná til fólks. Það er brýnt að það hægist á fólksfjölgun í Malaví því ljóst er að það er ekki nóg af náttúruauðlindum fyrir hratt vaxandi þjóð og innviðir eins og mennta- og heilbrigðiskerfi geta ekki einu sinni annað eftirspurn eins og er. Skilaboðum um að draga úr barnafjölda hefur verið beint til kvenna í fjölda ára en það er afar mikilvægt að slíkum skilaboðum sé líka beint til karlmanna og hvetja þá einnig til að taka ábyrgð,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðukona sendiráðs Íslands í Lilongwe.

Zindaba Chisiza fræðimaður við háskóla Malaví stýrði umræðum. Hópurinn ræddi kyn- og frjósemismál, jafnrétti kynjanna og hvernig hægt er að auka aðkomu og ábyrgð karlmanna í landinu til þess að draga úr hraðri fólksfjölgun. Yfir daginn þróaði nefndin einnig áhrifarík skilaboð til þess að ná til karlmanna auk þess að kortleggja leiðir til þess að koma skilaboðunum áfram á sem áhrifaríkastan hátt. Í lok dags setti hver og einn þingmaður sér persónulegt markmið um hvernig þeir gætu haft áhrif í kjördæmum sínum. 

Þingnefndin er ný en hún tók til starfa undir stjórn þingforseta á alþjóðlegum degi ungmenna, 12. ágúst. Tímabært þótti að endurvekja nefndina sem hafði legið í dvala í átta ár en fólksfjölgun er afar mikil í Malaví. Samkvæmt könnun frá 2018 var 51 prósent þjóðarinnar undir 18 ára aldri og búist er við að íbúafjöldinn tvöfaldist fyrir árið 2038. Svo hröð fólksfjölgun hefur í för með sér ýmsar alvarlegar áskoranir.

Ephraim Abel Kayembe formaður nefndarinnar leitaði til sendiráðs Íslands í Lilongwe til að styðja við Rakarastofuviðburð fyrir 22 þingmenn nefndarinnar. „Við vissum að Ísland hefur haldið árangursríka Rakarastofuviðburði bæði hér í Malaví og um allan heim og við vorum viss að þessi aðferðafræði myndi henta einstaklega vel fyrir hagnýta þjálfun fyrir þingnefndina,“ segir Ebhraim Abel. Gætt var að því að þátttakendur væru einnig í öðrum þingnefndum til þess að þekkingin færi sem víðast.

„Augu mín opnuðust fyrir þessum málaflokki þegar ég heimsótti heilsugæslu í Mangochi héraði þar sem fæddust 40 börn að meðaltali daglega. Í sömu heimsókn fór ég í grunnskóla í grenndinni en þá áttaði ég mig á því að til þess að geta staðið undir markmiðum stjórnvalda um að hafa 40 börn í skólastofu þyrfti að byggja eina skólastofu á hverjum einasta degi í þessu þorpi til að koma börnunum fyrir“ segir Ben Phiri, varaformaður þingnefndarinnar og fyrrverandi sveitarstjórnarráðherra. „Öllum er ljóst að ekki verður hægt að ná því markmiði sem Malaví hefur sett sér, að komast úr því að vera lágtekjuríki fyrir árið 2063, án þess að hægja á þessari hröðu fólksfjölgun“ segir Ben.

Verkfærakista Rakarastofu (Barbershop Toolbox) var þróuð af Íslandi árið 2015 til að auka þátttöku karla í að stuðla að jafnrétti kynjanana. Tvær Rakarastofur (e. Barbershops) voru haldnar í Malaví í nóvember 2018 og voru þær fyrstu rakarastofurnar sem haldnar voru í Afríku. Verkfærakista fyrir Rakarastofur voru staðfærðar og þýddar á þjóðtungu Malava árið 2021 og hefur fjöldi viðburða verið haldinn í Malaví frá þeim tíma.

  • Þingkonan Susan Dossi. - mynd
  • Þingmaðurinn Ned Poya. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta