Hoppa yfir valmynd
4. október 2023 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra sótti ráðstefnu um öryggismál í Varsjá

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ásamt ráðherrum frá Bretlandi, Hollandi og Litáen á ráðstefnu um öryggismál sem fram fór í Varsjá í Póllandi. - mynd

„Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu er árás á okkar sameiginlegu gildi og alþjóðalög. Þótt norðurslóðir séu fjarri Úkraínu hefur stríðið þó áhrif á heiminn sem við búum í og þar af leiðandi Ísland.“ Þetta var á meðal þess sem fram kom í máli Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra á ráðstefnu um öryggismál, þar sem hún sat í pallborði með ráðherrum frá Bretlandi, Hollandi og Litáen. Ráðstefnan fór fram í Varsjá í Póllandi og lauk í dag.  

„Árás á alþjóðlegt regluverk og sameiginleg gildi á sér engin landamæri. Allur heimurinn er þessi misserin að endurmeta öryggismál sín enda má segja að fólk í okkar heimshluta hafi vaknað upp við vondan draum þegar Rússland hóf landvinningastríð í Evrópu,” segir Þórdís Kolbrún. 

Efling Atlantshafsbandalagsins, nýjar ógnir og áskoranir, mikilvægi mið- og austur- Evrópu og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu voru helstu mál á dagskrá ráðstefnunnar, sem haldin var í tíunda skipti. 

Warsaw Security Forum er árleg ráðstefna þar sem m.a. ráðherrar, þingmenn, fólk úr fræðasamfélaginu, blaðamenn og fleiri, koma saman til þess að ræða öryggishorfur í heiminum og hvernig hægt er að mæta þeim áskorunum sem nú steðja að. Á seinni degi ráðstefnunnar er jafnan haldinn árlegur morgunverðarfundur kvenna í öryggismálum sem utanríkisráðherra sat.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta