Hoppa yfir valmynd
15. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Rætt um tengsl aðgerða gegn landeyðingu og þurrkum við valdeflingu kvenna og stúlkna

Þessa dagana stendur yfir 62. fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (e. Commission of the Status of Women, CSW). Að þessu sinni fjallar fundurinn um áskoranir og tækifæri við vinnu að auknu kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna í dreifbýli. Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra sem leiðir sendinefnd Íslands á fundinum tók á þriðjudag þátt í viðburði um hvernig styðja megi við valdeflingu stúkna og kvenna í dreifðum byggðum með aðgerðum gegn landeyðingu og þurrkum.

Að viðburðinum stóðu, ásamt Íslandi, Namibía, UN Women, Stofnun um samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn eyðimerkurmyndun (UNCCD) og vinahópur um eyðumerkurmyndun, landeyðingu og þurrka (DLDD) sem Ísland og Namibía eru bæði aðilar að, en Namibía er það ríki Afríku sunnan Sahara sem glímir við hvað mesta þurrka. Ásamt Ásmundi tóku þátt á fundinum fulltrúar frá ríkisstjórn Namibíu, UNCCD og Landesa, sem er stofnun um þróun í dreifðum byggðum og réttindi kvenna sem snúa að landaeign.

Á viðburðinum deildu þátttakendur meðal annars reynslu og dæmum frá heimalöndum sínum um tengslin á milli eyðimerkurmyndunar, landeyðingar og þurrka annars vegar og valdeflingu kvenna og stúlkna í dreifðum byggðum hins vegar. Rætt var um hinar ýmsu hindranir sem konur og stúlkur mæta í þessu samhengi. Á það sérstaklega við um þróunarlönd þar sem stór hluti kvenna vinnur við landbúnað og þar sem hann er mjög mikilvægur hluti af fæðuöryggi íbúa. Markmið viðburðarins var meðal annars að reyna að skilja betur áhrif sem landeyðing og þurrkar hafa á konur og stúlkur og eiga skoðanaskipti um mikilvægi þess að styrkja kynjajafnrétti á svæðum sem glíma við þurrka og landeyðingu.

Félags- og jafnréttismálaráðherra rakti reynslu Íslendinga og talaði um mikilvægi ræktarlands, sérstaklega fyrir íbúa í dreifðum byggðum. Hann undirstrikaði að Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 15.3 sem miðar að því að heimsbyggðin stöðvi landeyðingu fyrir árið 2030, hafi bein áhrif á mörg önnur þróunarmarkmið, t.d. fátækt, hungur og heilsu og ekki síst jafnrétti kynjanna. Rannsóknir sýna að landeyðing og þurrkar hafi neikvæðari áhrif á stöðu kvenna heldur en karla. Þá talaði ráðherra einnig um mikilvægi virkrar þátttöku kvenna í öllu starfi sem miðar að því að sporna gegn landeyðingu.    

Á Íslandi hefur frá árinu 2007 verið starfræktur Landgræðsluskóli Sameinuðu þjóðanna. Skólinn er samstarfsverkefni utanríkisráðuneytisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins. Markmið skólans er að þjálfa sérfræðinga frá þróunarlöndum, sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, í landgræðslu og sjálfbærri nýtingu lands. Starfsemi skólans, sem er einn af fjórum skólum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi er dæmi um það hvernig íslensk sérþekking nýtist í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi
Heimsmarkmið Sþ: 5 Jafnrétti kynjanna
Heimsmarkmið Sþ: 17 Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta