Hoppa yfir valmynd
25. september 2024 Forsætisráðuneytið

1217/2024. Úrskurður frá 25. september 2024

Hinn 25. september 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1217/2024 í máli ÚNU 24040002.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. apríl 2024, kærði […] ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. að synja beiðni um aðgang að ráðningarsamningum fram­kvæmda­stjóra félagsins og út­gerðarstjóra þess. Beiðnin var lögð fram 4. mars 2024 og henni synjað 16. apríl sama ár, með þeim rökum að gögn­in féllu undir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og fél­aginu væri heimilt að takmarka aðgang kæranda að þeim. Í kæru er rakið að um sé að ræða tvo æðstu emb­ætt­is­menn félags sem sé alfarið í eigu Vestmannaeyjabæjar. Til samanburðar gefi sveit­ar­félagið upp laun og samninga sinna æðstu manna.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi með erindi, dags. 24. apríl 2024, og félaginu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um hana. Jafn­framt var þess óskað að úrskurðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kær­an lýtur að.
 
Umsögn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs barst úrskurðarnefndinni 6. maí 2024. Þau gögn sem deilt er um aðgang að í mál­inu bárust nefndinni 15. maí 2024. Í umsögninni kemur fram að úr­skurð­arnefndin hafi í eldri mál­um stað­fest ákvarðanir félagsins að synja beiðnum um aðgang að ráðn­ingarsamningum starfs­manna þess.
 
Umsögn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs var kynnt kæranda með erindi, dags. 13. maí 2024, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari at­huga­semd­um. Athugasemdir kæranda bárust 23. maí 2024. Í þeim til­tekur kærandi að það eigi að vera hindrunarlaust að fá upplýsingar um laun æðstu stjórnenda félagsins.
 

Niðurstaða

1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningum framkvæmdastjóra og út­gerð­ar­stjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. Ákvörðun félagsins er byggð á því að gögnin falli undir 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, og verði ekki afhent. Ákvæðið hljóð­ar svo:
 

Réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna sem starfa hjá aðilum sem lög þessi taka til skv. 2. gr. tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti.

 
Í athugasemdum við 7. gr. með frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, kemur fram að með gögnum í málum sem varða starfssambandið sé átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna, t.d. mál þar starfsmaður hefur þurft að sæta frá­drætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, og enn frem­ur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur að gögn í málum einstakra starfsmanna sem varða ráðn­ingu þeirra í starf teljist einnig varða starfssambandið í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 7. gr. upp­lýs­ingalaga. Ráðningarsamningur viðkomandi starfsmanns er gagn í slíku máli og verður því að telja að aðila sem heyrir undir gildissvið upplýsingalaga sé almennt heimilt að takmarka aðgang að slík­um samn­ingi.
 

2.

Samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga ber lögaðila sem fellur undir gildissvið lag­anna að veita almenningi upplýsingar um launakjör æðstu stjórnenda og menntun þeirra. Vest­manna­eyja­ferjan Herjólfur fellur undir gildissvið upplýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þá hefur úr­skurðarnefndin áður komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdastjóri félagsins teljist til æðstu stjórn­enda þess, sbr. úrskurð nr. 860/2019. Samkvæmt því er ljóst að almenningur á rétt til aðgangs að upplýs­ing­um um launakjör framkvæmdastjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs.
 
Við mat á því hvort útgerðarstjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs teljist til æðstu stjórnenda félags­ins er til þess að líta að hvorki er í upplýsingalögum, nr. 140/2012, né lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, fjallað um það hverjir teljist til æðstu stjórnenda lögaðila sem falla undir gildissvið upp­lýsingalaga, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Með hliðsjón af orðalagi ákvæða upplýsingalaga og sjón­armiðum sem lýst er í athugasemdum um 7. gr. með frumvarpi því sem varð að upplýsingalög­um, nr. 140/2012, verður að mati úrskurðarnefndarinnar að leggja til grundvallar að með orða­sam­band­inu „æðstu stjórnendur“ sé almennt átt við þá einstaklinga sem eru í fyrirsvari fyrir einstakar ríkis­stofn­anir og sveitarfélög, með þeirri undantekningu að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu og æðstu stjórn­endur sveitarfélaga falli einnig undir ákvæðið.
 
Við túlkun orðasambandsins „æðstu stjórnendur“ að þessu leyti verður enn fremur að hafa í huga þá almennu og skýru stefnumörkun sem byggt var á við setningu upplýsingalaga, nr. 140/2012, um að réttur almennings til aðgangs að gögnum næði ekki til gagna sem tengdust málefnum starfs­manna, sbr. 4. tölul. 6. gr. og 7. gr. laganna.
 
Úrskurðarnefndin leggur til grundvallar að í tilviki opin­berra hlutafélaga falli forstjórar og eftir atvik­um framkvæmdastjórar undir orðasambandið „æðstu stjórn­endur“ í skilningi upplýsingalaga, sbr. IX. kafla laga um hlutafélög. Í því sambandi kann þá einnig að vera rétt að horfa til þess hvernig stjórnskipulagi viðkomandi lögaðila er háttað.
 
Á grundvelli 79. gr. a laga um hlutafélög hefur Vestmannaeyjaferjan Herjólfur sett sér starfskjara­stefnu, sem samþykkt var á hluthafafundi félagsins 27. maí 2020 og birt er á vef félagsins. Í 2. gr. stefn­unnar er fjallað um starfskjör stjórnarmanna og nefndarmanna, og í 3. gr. stefnunnar er fjallað um starfskjör framkvæmdastjóra. Þá er í 4. gr. tilgreint að gera skuli skriflega og ótímabundna ráðn­ingarsamninga við „aðra æðstu stjórnendur“ félagsins. Sam­kvæmt 5. gr. stefnunnar skal útbúa skýrslu um framkvæmd gildandi starfskjarastefnu fyrir liðið fjárhagsár. Í henni skal koma fram yfir­lit yfir allar greiðslur launa og hvers kyns hlunnindi til stjórnarmanna, nefndarmanna og „æðstu stjórnenda“ félagsins.
 
Í skýrslu félagsins um framkvæmd starfskjarastefnu fyrir árið 2023 eru tilgreind starfskjör stjórnar félagsins og framkvæmdastjóra þess. Í skýringum frá Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi hefur komið fram að ekki hafi verið skilgreint hverjir, ef einhverjir, teljist til „annarra æðstu stjórnenda“ í skiln­ingi 4. gr. starfskjarastefnu félagsins. Í ljósi þessa, sem og þeirra atriða sem rakin eru hér að framan, metur úrskurðarnefndin það svo að útgerðarstjóri Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs teljist ekki til æðstu stjórnenda félagsins með þeim hætti að félaginu sé skylt að veita aðgang að launakjörum hans samkvæmt 2. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsinga­laga.
 

3.

Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þau gögn sem kæran lýtur að og telur að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi hafi verið heimilt að hafna beiðni kæranda um aðgang að þeim ráðningarsamningum sem óskað var eftir. Í 7.–9. gr. ráðningarsamnings framkvæmda­stjóra Vestmannaeyjaferjunnar Herj­ólfs, sem gerður var í desember 2020, eru hins vegar ákvæði um laun, önnur kjör og fríðindi. Með vísan til þess að framkvæmdastjórinn telst til æðstu stjórnenda fél­ags­ins verður að telja að kærandi eigi rétt til aðgangs að þessum upplýsingum. Þótt úrskurð­ar­nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðilum sem heyra undir gildissvið upplýsingalaga sé almennt heimilt að takmarka aðgang að ráðn­ing­ar­samningum þarf að horfa til þess að ef ákvæði 6.–10. gr. upplýsingalaga um takmarkanir á upplýs­inga­rétti eiga aðeins við um hluta gagns skal veita aðgang að öðrum hlutum þess, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna. Verður því að ætla að ef ráðningar­samn­ingur inniheldur þær upplýsingar sem getið er um í 2. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé lögaðila skylt að afhenda þann hluta ráðning­arsamningsins sem hefur að geyma upp­lýs­ingarnar. Því telur úrskurðarnefndin að Vestmannaeyjaferjunni Herjólfi sé skylt að afhenda kæranda þann hluta ráðningarsamningsins sem hefur að geyma upplýsingar um launakjör framkvæmda­stjóra félagsins. Að öðru leyti verður ákvörðun félagsins að hafna beiðni kæranda staðfest.
 

Úrskurðarorð

Vestmannaeyjaferjan Herjólfur ohf. skal veita kæranda, […], aðgang að upplýsingum um launakjör framkvæmdastjóra félagsins sem finna má í 7.–9. gr. ráðningarsamnings hans, dags. 18. de­sember 2020. Að öðru leyti er ákvörðun Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf., dags. 16. apríl 2024, staðfest.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta