Markmiðsákvæði laga um Menntasjóð námsmanna í hættu
Í nýrri skýrslu um Menntasjóð námsmanna kemur fram að heildarlög um sjóðinn sem sett voru árið 2020 hafi falið í sér umtalsverðar breytingar á námslánakerfinu. Sumar þeirra hafi verið af hinu góða fyrir námsmenn en nauðsynlegt er að breyta lögunum til að markmiðsákvæði um jöfn tækifæri til náms náist. Ný lög fólu m.a. í sér þá breytingu að nemendur eiga nú möguleika á að hluta námsláns verði breytt í styrk en svo var ekki áður.
Í meðförum Alþingis fyrir lagasetninguna árið 2020 var sett inn bráðabirgðaákvæði þess efnis að lögin skyldu endurskoðuð innan þriggja ára og að ráðherra skyldi kynna niðurstöður endurskoðunarinnar. Skýrsla um Menntasjóð námsmanna liggur nú fyrir. Í skýrslunni eru fyrirliggjandi gögn og tölulegar staðreyndir nýttar til að skýra framkvæmd laganna og meta hvernig til hefur tekist við breytingarna. Skýrslan hefur verið kynnt fyrir hagaðilum og ríkisstjórn og var í dag útbýtt á vef Alþingis.
Helstu niðurstöðu skýrslunnar eru þessar:
- Mun færri námsmenn nýta sér námsstyrki en áætlanir gerðu ráð fyrir.
- Ánægja er með nýtt styrkjakerfi en námsframvindukrafa sem er skilyrði umbreytingar hluta námsláns í styrk veldur óánægju stúdenta.
- Áhætta sem námsmenn bera af vaxtastigi námslána fram að útskrift sætir gagnrýni.
- Þungt og flókið regluverk námslána kostar um 20% af öllum framlögum ríkisins til námsaðstoðar í gegnum Menntasjóð.
- Ekki er gert ráð fyrir framlagi ríkisins vegna kostnaðar sem hlýst af tekjutengdum afborgunum og vaxtaþaki námslána, auk vaxtalauss tímabils námslána á meðan lántaki er í námi.
- Vaxtaáhætta Menntasjóðs sem verður til vegna fjármögnunar útlána á öðrum vaxtakjörum en námsmenn greiða er ófjármögnuð.
- Ábendingum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um aðskilnað nýs styrkjakerfis frá eldra námslánakerfi var ekki fylgt eftir.
Við gerð skýrslunnar var unnið úr athugasemdum sem borist höfðu frá hagaðilum, auk þess sem lögð var könnun fyrir stúdenta um viðhorf þeirra til stuðnings frá Menntasjóði. Leitað var álits fjármála- og efnahagsráðuneytis á nýju fyrirkomulagi námsaðstoðar. Jafnframt var óskað eftir áhættumati á nýju og eldra lánasafni námslána til að meta hvort markmið laganna um sjálfbærni sjóðanna hefði náð fram að ganga.
Fyrir liggur að mun færri námsmenn hafa nýtt sér námsstyrki en áætlanir fyrir Menntasjóð gerðu ráð fyrir, auk þess sem stöðugt hefur dregið úr eftirspurn eftir námslánum. Ánægja er með þann möguleika að hluta námsláns verði breytt í styrk að uppfylltum skilyrðum en stúdentar eru ósáttir við námsframvindukröfu samkvæmt skipulagi viðkomandi námsleiða. Framfærslugrunnur námslána hefur náð að halda í við þróun vísitölu neysluverðs á meðan viðbótarlán vegna húsnæðis hafa ekki haldið í við verðlagsþróun.
Ein helsta gagnrýnin við nýtt kerfi er endurgreiðslufyrirkomulagið sem var ákveðið í lágvaxtaumhverfi en gjörbreyttar aðstæður í efnahagsmálum hafa dregið fram annmarka þess. Mikil óvissa felst í því fyrir nemendur að vaxtastigið komi ekki í ljós fyrr en við útskrift og í því felst umtalsverð fjárhagsleg áhætta fyrir nemendur.
Ljóst er að tækifæri eru til að endurhugsa og einfalda þjónustu og starfsemi Menntasjóðs námsmanna en þungt og flókið regluverk námslána kostar um 20% af öllum framlögum ríkisins til námsaðstoðar í gegnum sjóðinn. Einnig kemur fram í skýrslunni að í lögunum er ekki gert ráð fyrir framlagi ríkisins vegna þess kostnaðar sem hlýst af tekjutengdum afborgunum og vaxtaþaki námslána, auk vaxtalauss tímabils námslána á meðan lántaki er í námi. Þá er vaxtaáhætta Menntasjóðs, sem verður til vegna fjármögnunar útlána á öðrum vaxtakjörum en námsmenn greiða, ófjármögnuð. Loks sýnir skýrslan að ábendingum fjármála- og efnahagsráðuneytisins um aðskilnað nýs styrkjakerfis frá eldra námslánakerfi (Lánasjóð íslenskra námsmanna) var ekki fylgt eftir.
Þrátt fyrir að eingöngu séu þrjú ár frá því að nýtt námslánakerfi var kynnt til sögunnar hafa komið fram augljós tækifæri til að bæta kerfið. Í boðuðu breytingafrumvarpi á vorþingi 2024 verður brugðist við helstu annmörkum laganna sem rakin eru í niðurstöðukafla skýrslunnar, að undangengnu samráði við helstu hagaðila.