Öflug þekkingarstofnun með sameiningu verkefna Ríkiskaupa við Fjársýsluna
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra mælti í gær á Alþingi fyrir frumvarpi sem felur í sér sameiningu verkefna Ríkiskaupa við Fjársýsluna í öfluga þekkingarstofnun með það að meginhlutverki að ná fram bættum ríkisrekstri og hagræðingu.
Með sameiningunni aukast burðir til að ná fram árangri í opinberum innkaupum með gagnadrifnum greiningum og samþættingu innkaupaverkefna við aðra fjármálaþjónustu sem nú þegar er veitt miðlægt. Því er lagt til að verkefni Ríkiskaupa, sem er lítil stofnun með um 20 starfsmenn, verði færð til Fjársýslu ríkisins.
Markmið sameiningarinnar er enn fremur að stuðla að bættri framkvæmd útboðsþjónustu, áætlunargerðar, framkvæmdar og skráningar samninga og birtingar opinna reikninga. Einnig er verið að draga ríkið úr framkvæmd á ákveðinni tegund innkaupaþjónustu sem þegar er veitt á einkamarkaði.
„Þær breytingar sem stefnt er að eru í eðlilegu framhaldi af þeim áherslubreytingum sem þegar hafa verið greindar og bent á varðandi einfaldara stofnanakerfi með burðugri stofnunum sem er í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um opinber innkaup. Með þessu eru þannig stigin veigamikil skref í þá átt að styrkja hlutverk miðlægrar innkaupaeiningar með heildarstæðari nálgun til að ná fram bættum árangri í starfsemi hennar, á sambærilegan hátt og gert hefur verið með álíka stofnanir á hinum Norðurlöndunum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra.