Hoppa yfir valmynd
17. maí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 294/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 294/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030062

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 520/2022, dags. 15. desember 2022, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. október 2022, um að taka ekki umsókn, [...], fd. [...], ríkisborgara Venesúela (hér eftir kærandi) um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 16. desember 2022. Kærandi lagði fram beiðni um endurupptöku 15. mars 2023, ásamt fylgigögnum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

     

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að eiga nafngreindan móðurbróður hér á landi. Í greinargerð kæranda hafi komið fram að hún ætti ættingja hér á landi án þess að reifað væri hverjir þeir væru né byggt á því sem málsástæðu. Í greinargerð kæranda eru ættingjar kæranda hér á landi nafngreindir. Kærandi byggir á því að hún sé í reglulegum samskiptum við nafngreindan frænda auk móður frænda síns, m.a. í gegnum samskiptaforritið Whatsapp og með myndsímtölum þeirra á milli. Hefur móðir frænda hennar m.a. fylgst með umsóknarferli kæranda. Þá byggir kærandi á því að eiga tvo nafngreinda frændur sem hún sé í reglulegum samskiptum við. Jafnframt eigi kærandi föðursystur hér á landi sem hún sé einnig í samskiptum við. Þá eigi kærandi einnig nafngreindan frænda sem hún sé í samskiptum við. Kærandi telur að hún uppfylli skilyrði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og ákvæði 9. og 10. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin), enda hafi hún margvísleg sterk og rík tengsl við Ísland vegna þess fjölda nákominna fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi og séu með alþjóðlega vernd. Kærandi telur að um sé að ræða mikilvægar nýjar upplýsingar sem hefðu getað haft áhrif á meðferð umsóknar hennar og ákvörðun Útlendingastofnunar. Með vísan til framangreinds óskar kærandi eftir því að mál hennar verðir endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 15. desember 2022. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi byggir á því að hún eigi nafngreinda ættingja hér á landi sem hún sé í reglulegum samskiptum við og því hafi hún sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli túlkað í framkvæmd. Við túlkun ákvæðisins hefur kærunefnd litið til athugasemda sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga og lagt til grundvallar að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Kærunefnd hefur talið rétt að líta að einhverju leyti til 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem segir að til nánustu aðstandanda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára eða eldri. Þó önnur fjölskyldutengsl geti fallið undir 2. mgr. 36. gr. laga um sérstök tengsl, telur kærunefnd að gera þurfi ríkari kröfur til þess að sýnt sé fram á að þau tengsl séu sérstök og rík. Þá geta sérstök tengsl einnig talist vera til staðar þegar tengsl eru ríkari við Ísland en við viðtökuríki, svo sem vegna fyrri dvalar. Þá gera athugasemdir í frumvarpi og ákvæði 32. gr. b reglugerðar um útlendinga ráð fyrir því að fyrri dvöl umsækjenda hér á landi geti leitt til þess að um sérstök tengsl séu að ræða. Samkvæmt framansögðu getur komið til skoðunar hvort kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þegar hann á ættingja hér á landi. Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það mælir fyrir um tengsl við landið en ekki aðeins tengsl við einstaklinga sem hér kunna að dvelja á einhverjum tíma. Kærunefnd telur ljóst að byggist málsástæða um sérstök tengsl við landið á tengslum við tiltekinn eða tiltekna einstaklinga þurfa þeir einstaklingar almennt að hafa heimild til dvalar hér á landi og að sú heimild þurfi að hafa tiltekinn varanleika. Af þessu leiðir að tengsl við einstakling sem byggir rétt sinn til dvalar á Íslandi á vegabréfsáritun eða tímabundnu dvalarleyfi myndu almennt ekki teljast þess eðlis að þau leiði til þess að umsækjandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Af framangreindu leiðir að eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, getur umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Meta þurfi því einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd m.t.t. fyrirliggjandi gagna við mat á því hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.

Líkt og fram hefur komið byggir kærandi á því að hafa sérstök tengsl við Ísland í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þar sem hún eigi ættingja sem séu búsett hér á landi. Kærandi hefur lagt fram afrit af fæðingarvottorði hennar, afrit af fæðingarvottorðum ættingja hennar, ljósmyndir af kæranda og ættingjum hennar auk skjáskot af samskiptum þeirra á milli. Kærunefnd telur, þegar litið er til tilgangs ákvæðisins og lögskýringargagna, að þó kærandi eigi ættingja hér á landi sem hún hafi greint frá að vera í samskiptum við, leiði það ekki sjálfkrafa til þess að hún hafi myndað sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur fram að kærandi hefur ekki sýnt fram á að ættingjar hennar séu háðir daglegri aðstoðar hennar. Því séu að mati nefndarinnar ekki fyrir hendi umönnunarsjónarmið í málinu. Af þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram telur kærunefnd að ekki séu um að ræða ríkari tengsl en almennt gerist á milli fjarskyldra ættingja eða kunningja. Þá tekur kærunefnd fram að þegar kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 12. ágúst 2022 kvaðst hún ekki þekkja neinn á Íslandi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun 19. september 2022 greindi kærandi frá því að eiga móðurbróður hér á landi en að hann talaði ekki við sig. Í greinargerð sinni til kærunefndar kom fram að ekkert samband væri á milli kæranda og móðurbróður hennar. Eins og á stendur í þessu máli varðar það tengsl milli ættingja sem ekki eru nánustu aðstandendur, sbr. 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, og eru fullorðnir einstaklingar sem eru ekki hvor öðrum háðir. Verður jafnframt að horfa til þess að túlka verður ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga varðandi sérstök tengsl þannig að það nái til atvika þar sem það yrði talið ósanngjarnt gagnvart kæranda að endursenda hana til annars ríkis. Eins og á háttar í þessu máli verður ekki séð að það sé ósanngjarnt gagnvart kæranda eða ættingjum hennar að endursenda kæranda til Spánar.

Af heildarmati á aðstæðum kæranda og fyrirliggjandi gögnum málsins er það því niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í greinargerð kæranda er vísað til 9. og 10. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem fram kemur að eigi umsækjandi um alþjóðlega vernd aðstandanda sem aðildarríki hafi veitt leyfi til dvalar eða aðstandanda sem enn bíði þess að fyrsta ákvörðun verði tekin um umsókn hans, skuli það ríki bera ábyrgð á meðferð umsóknar viðkomandi. Kærunefnd tekur fram að samkvæmt g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar falla frændur og frænkur ekki undir hugtakið aðstandandi.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar, dags. 15. desember 2022, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the case is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta