Biskup Íslands ræddi umferðarslys í nýársprédikun
Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, gerði umferðarslys að umtalsefni í nýársprédikun sinni í guðsþjónustu í Dómkirkjunni í gærmorgun. Sagði hann að skelfileg umferðarslys sem hafi valdið dauða 30 karla, kvenna og barna skilja eftir sig harm og sorg. Slíkt væri ægileg blóðtaka sem líkja mætti við hamfarir.
Í ræðunni sagði biskup að slysaaldan á vegunum hefði slegið almenning óhug. Hann sagði það algeng viðbrögð að leita sökudólga og bregðast við með ásökunum. ,,Við, hvert og eitt okkar getum lagt mikilvægasta lóðið á þá vog, sem er tillitssemi, aðgæsla og virðing,” sagði biskup meðal annars. Hann sagði ekki aðeins samgönguvanda á ferð heldur siðferðismein, vaxandi yfirgangur og æsingur í þjóðfélaginu. ,, Fregnir af háttsemi vegfarenda sem komu þar að sem stórslys urðu á þjóðvegum, og með frekju og óþolinmæði trufluðu störf lögreglunnar og þeirra sem hlynntu að slösuðum, eru ótrúlegar og skelfilegar.”
Prédikun biskups í heild er að finna á vefsíðunni kirkjan.is.