Hoppa yfir valmynd
10. október 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 211/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 211/2024

Fimmtudaginn 10. október 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 14. maí 2024, kærði A-2899, til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. febrúar 2024.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 14. febrúar 2024, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem fæddist X 2024. Kæranda var kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 28. febrúar 2024, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hans yrði 402.295 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 14. maí 2024. Með bréfi, dags. 16. maí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Með erindi, dags. 25. júní 2024, upplýsti Fæðingarorlofssjóður úrskurðarnefndina að kærandi hefði fengið nýjar leiðréttar greiðsluáætlanir. Með erindi, dags. 2. júlí 2024, var óskað eftir afstöðu kæranda til þeirrar ákvörðunar Fæðingarorlofssjóðs. Sú beiðni var ítrekuð 10. júlí 2024 og reynt var að ná í kæranda í síma 24. júlí 2024. Svar barst frá kæranda 27. ágúst 2024 þar sem fram kom að hann vildi halda áfram með málið, þrátt fyrir nýja afgreiðslu Fæðingarorlofssjóðs. Með erindi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 17. september 2024, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. september 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann vonist til að kæra til úrskurðarnefndar verði til þess að útreikningar sjóðsins verði teknir til endurskoðunar. Hann hafi frá maí 2021 verið í samfelldu starfi hjá B, fyrir utan sex mánaða fæðingarorlof með eldri dóttur sinni, fæddri í X 2021. Kærandi hafi verið í fæðingarorlofi fyrstu tvo mánuðina eftir fæðingu, einn mánuð haustið 2021 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2022. Frá 2018 til 2020/2021 hafi kærandi verið nemandi í framhaldsnámi við Háskóla Íslands og lokið 90 af 120 einingum. Kærandi hafi ekki náð að skila ritgerðinni á tilsettum tíma og því haldið áfram að reyna að skrifa önnina á eftir. Því miður fyrir kæranda hafi skrifin verið á því tímabili sem Fæðingarorlofssjóður hafi reiknað tekjur hans fyrir fæðingarorlof með fyrsta barni. Þar sem kærandi hafi verið í hlutastarfi og ekki skilað inn ritgerðinni hafi hann ekki uppfyllt skilyrði sem námsmaður né hafi hann verið á atvinnuleysisbótum. Tekjur kærandi í fæðingarorlofinu með barni fæddu 2021 hafi því verið mikið skertar. Kærandi hafi þurft að bíta í það súra epli og á þeim tíma hafi ekkert verið hægt að gera. Ástæðan fyrir því að kærandi óski eftir endurútreikningum sé sú að sömu mánuðir og hafi skert verulega tekjur hans í fyrsta fæðingarorlofi séu nú að fara að skerða tekjur hans aftur í næsta fæðingarorlofi í gegnum nóvember 2021, janúar, febrúar og mars 2022. Kærandi telji því að það sé verið að skerða hann í annað sinn fyrir þessa mánuði árið 2020 og 2021. Það muni þýða að þegar kærandi klári sitt fæðingarorlof í júní 2025 með yngri dóttur sinni hafi greiðslur til hans verið skertar út af námi/hlutastarfi árið 2020 og 2021 þrátt fyrir að hann hafi verið samviskulega í fullu starfi síðustu árin. Helstu mistök kæranda, fyrir utan að skila ekki þessari ritgerð, séu að tímasetja ekki barn númer tvö með tilliti til reglna Fæðingarorlofssjóðs. Ef yngra barn kæranda hefði fæðst síðar á árinu 2024 hefði hann fengið óskertar greiðslur úr sjóðnum. Þau hjónin stefni á að eignast þeirra þriðja barn árið 2026. Ef greiðslur kæranda frá Fæðingarorlofssjóði verði ekki endurreiknaðar núna liggi fyrir að greiðslur úr sjóðnum vegna fæðingarorlofs 2026/2027 verði aftur skertar af sömu ástæðu. Þá muni þessi ritgerðarskrif árið 2020/2021 verða til þess að hann fari í gegnum þrjú fæðingarorlof með skertar greiðslur. Það sé því ósk kæranda að nóvember 2021, janúar, febrúar og mars 2022 verði ekki hluti af útreikningum fyrir þetta fæðingarorlof.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi með umsókn, dags. 14. febrúar 2024, sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem hafi fæðst X 2024. Fyrir hafi legið upplýsingar um fæðingarorlofstöku með eldra barni, sbr. greiðsluáætlun, dags. 22. ágúst 2022, upplýsingar úr skrám skattyfirvalda og Þjóðskrá Íslands.

Kæranda hafi verið send greiðsluáætlun, dags. 28. febrúar 2024, þar sem fram komi að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla til hans miðað við 100% fæðingarorlof yrði 402.295 kr.

Í 1. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof sé kveðið á um gildissvið laganna. Þar segi að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn og/eða sjálfstætt starfandi. Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laganna öðlist foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.  

Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 4. tölul. 4. gr. laganna. Ágreiningur málsins snúi að útreikningi á greiðslum.

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 sé meðal annars kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex almanaksmánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann almanaksmánuð sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá almanaksmánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr. Aldrei skuli þó miða við færri almanaksmánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 144/2020 komi fram að átt sé við almanaksmánuði og að miðað sé við samfellt tímabil sem standi í tólf almanaksmánuði á undan fæðingarmánuði barns.

Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að til launa á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 1. til 3. mgr. teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a. til f. lið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/202. Auk þess skuli telja til launa greiðslur samkvæmt a. og b. lið 5. gr. laga um Ábyrgðarsjóð launa. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili, í tengslum við tilvik sem falli undir a. til f. lið 2. mgr. 22. gr., sem foreldri hafi átt rétt á skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við.

Í 2. mgr. 22. gr. komi fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist samkvæmt a. lið, orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli. Greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 3. gr. laga nr. 144/2020 teljast því til launa samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laganna.

Í 5. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 sé kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.  Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 1. til 3. mgr.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið þann X 2024 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hennar þá mánuði sem kærandi hafi verið á innlendum vinnumarkaði tímabilið  2022 til X 2023.

Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá skattyfirvalda um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og Fæðingarorlofssjóður telji að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Kærandi hafi auk þess verið í 63% fæðingarorlofi í september 2022 og á tímabilinu janúar til febrúar 2023 en hann hafi dreift greiðslum með eldra barni fæddu þann X 2021. Í öðrum mánuðum viðmiðunartímabilsins nema febrúar og mars 2023 hafi kærandi þegið greiðslur frá vinnuveitanda sínum, B, sem séu höfð með við útreikning á meðaltali heildarlauna hans.

Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 komi skýrt fram að ef foreldri hafi kosið að dreifa greiðslum sem falli undir a. til f. lið 2. mgr. 22. gr. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Það hafi verið gert í tilfelli kæranda og í samræmi við úrskurði í málum nr. 2/2013, 29/2013 og 42/2013 sem hafi fallið í gildistíð eldri laga. Greiðslur til kæranda frá Fæðingarorlofssjóði fyrir það tímabil sem hann hafi verið í fæðingarorlofi með eldra barni hafi þannig verið uppreiknaðar.

Í kæru hafi kærandi vísað til þess að þá mánuði sem hann hafi þegið greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með barni fæddu X 2024 hefði hann fengið lágar greiðslur þar sem hann hafi verið í námi á viðmiðunartímabili vegna greiðslna með eldra barni. Í kærunni hafi kærandi óskað eftir endurútreikningi á greiðslum og að þeir mánuðir sem hann hafi verið í fæðingarorlofi með eldra barni á viðmiðunartímabilinu yrðu undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna hans.

Við meðferð málsins hafi kærandi verið upplýstur um að hann hefði ekki sent umbeðin gögn til að hægt væri að skoða hvort heimilt væri að undanskilja þá mánuði sem hann hafi verið í námi á viðmiðunartímabili vegna greiðslna með eldra barni. Kæranda hafi verið boðið að senda umrædd gögn til að hægt væri að skoða málið með tölvupósti, dags. 17. maí 2024.

Þann 21. júní 2024 hafi borist námsgögn og launaseðlar frá kæranda. Í kjölfarið hafi þeir mánuðir sem hann hafi verið í námi, og ekki talist á innlendum vinnumarkaði, verið undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna vegna greiðslna með barni fæddu þann X 2021. Um hafi verið að ræða mánuðina september og nóvember 2020 og febrúar til apríl 2021. Mánaðarlegar greiðslur til kæranda miðað við 100% fæðingarorlof með barni fæddu þann X 2021 hafi við þetta hækkað úr 232.841 kr. í 393.294 kr. Í kjölfarið hafi greiðslur til kæranda með barni fæddu þann X 2023 verið endurreiknaðar og þær hafi hækkað úr 402.295 kr. í 435.796 kr. Kærandi hafi fengið sendar nýjar greiðsluáætlanir, dags. 25. júní 2024, sem sýni hækkunina.

Eftir standi þá sú beiðni kæranda að þeir mánuðir sem hann hafi verið í fæðingarorlofi með eldra barni verði ekki hluti af útreikningi á meðaltali heildarlauna með yngra barni. Líkt og að framan hafi verið rakið skuli telja greiðslur í fæðingarorlofi til launa samkvæmt 4. mgr. 23. gr., sbr. a.lið 2. mgr. 22. gr. laga nr. 144/2020 og taka skuli mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Það hafi verið gert í tilviki kæranda, sbr. leiðreitt greiðsluáætlun til hans, dags. 25. júní 2024. Í lögum nr. 144/2020 sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 4. mgr. 23. gr. laganna við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að þau bréf sem hafi verið send kæranda þann 25. júní 2024 beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

IV. Niðurstaða

Kærð var greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 28. febrúar 2024, vegna umsóknar kæranda um greiðslur úr sjóðnum vegna barns hans sem fæddist X 2024. Fyrir liggur að sú greiðsluáætlun var tekin til nýrrar meðferðar hjá Fæðingarorlofssjóði í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. bréf sjóðsins, dags. 25. júní 2024. Verður sú greiðsluáætlun því lögð til grundvallar við úrlausn kærumáls þessa.

Samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í samfelldu starfi á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir fæðingardag barns. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir það skilyrði laganna og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður samkvæmt 4. tölul. 4. gr.

Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna. Miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 22. gr., án tillits til þess hvort laun samkvæmt því ákvæði eða reiknað endurgjald samkvæmt 2. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda fæddist X 2024 og skal því samkvæmt framangreindu mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans þá mánuði sem hann var á innlendum vinnumarkaði tímabilið X 2022 til og með X 2023. Kærandi fór fram á að þeir mánuðir sem hann hafi verið í fæðingarorlofi með eldra barni yrðu undanskildir við útreikning á fæðingarorlofsgreiðslum til hans.

Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 segir að til launa á innlendum vinnumarkaði teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt skuli telja til launa þau tilvik sem teljast til þátttöku á innlendum vinnumarkaði samkvæmt a. til f. liðum 2. mgr. 22. gr. og greiðslur samkvæmt a. og b. liðum 5. gr. laga nr. 88/2003 um Ábyrgðasjóð launa. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. telst til þátttöku á innlendum vinnumarkaði orlof eða leyfi starfsmanns, sbr. 4. tölul. 4. gr., samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og starfsmaðurinn hafi á því tímabili sem um ræðir verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli. Greiðslur vegna fæðingarorlofs, sbr. 3. gr. laga nr. 144/2020 teljast því til launa samkvæmt 4. mgr. 23. gr. laganna.

Í 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 kemur einnig fram að þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili, í tengslum við tilvik sem falli undir a. til f. liði 2. mgr. 22. gr., sem foreldri hafi átt rétt á skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falli undir a. f. liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræði. Sama eigi við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum, í tengslum við tilvik sem falli undir a. til f. liði 2. mgr. 22. gr., hlutfallslega á lengri tíma, enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem nemi viðmiðunartekjum sem miða skuli við samkvæmt framangreindu, enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna, í tengslum við tilvik sem falla undir a. til f. liði 2. mgr. 22. gr., og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum.

Samkvæmt gögnum málsins dreifði kærandi greiðslum í fæðingarorlofi með eldra barni sínu fæddu X 2021 og var í 63% fæðingarorlofi í september 2022, 64% fæðingarorlofi í janúar 2023 og 63% í febrúar og mars 2023. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 23. gr. laga nr. 144/2020 var tekið mið af þeim viðmiðunartekjum sem greiðslur til kæranda í fæðingarorlofi voru miðaðar við, í sama hlutfalli og greiðslurnar voru inntar af hendi. Líkt og Fæðingarorlofssjóður tekur fram í greinargerð sinni er enga heimild að finna í lögum nr. 144/2020 til að víkja frá framangreindu ákvæði 4. mgr. 23. gr. við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Að því virtu og með vísan til framangreinds er greiðsluáætlun, dags. 25. júní 2024, vegna fæðingar barns X 2024, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 25. júní 2024, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta