Vegna gagna sem varða samninga stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna árið 2009
Þann 10. júní á síðasta ári svaraði fjármála- og efnahagsráðuneytið erindi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem óskað var eftir því að nefndin fengi afrit af tilgreindum gögnum er varða samninga stjórnvalda við kröfuhafa föllnu bankanna á árinu 2009. Svarinu var fylgt eftir með bréfi, dags. 18. september sl., þar sem einstök atriði voru nánar skýrð. Engar athugasemdir hafa borist ráðuneytinu frá þingnefndinni í framhaldi af því.
Með svari ráðuneytisins frá því í júní fylgdu öll umbeðin gögn, ásamt fleiri minnisblöðum og vinnugögnum sem málið varða en ekki var beðið um sérstaklega. Um er að ræða tugi skjala. Hluti þeirra eru gögn sem ekki eru háð trúnaði, en önnur gögn sem fylgdu fyrrnefndu bréfi ráðuneytisins voru skilgreind sem trúnaðargögn, m.a. í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem fjallað hafði um þessi mál.
Ástæða þess að hluti gagnanna er skilgreindur sem trúnaðargögn er tvíþætt: Annars vegar hafa þau að geyma viðkvæmar fjárhagsupplýsingar um tilgreinda einstaklinga og lögaðila sem ráðuneytið hefur ekki heimildir að lögum til að gera opinber. Hins vegar fjallar hluti gagnanna um lögskipti sem ráðuneytið er ekki aðili að, þótt afrit þeirra sé að finna í ráðuneytinu. Í þeim tilvikum hefur verið litið svo á að það sé ekki á ákvörðunarvaldi ráðuneytisins að gera viðkomandi gögn opinber, heldur sé það þeirra sem aðild eiga að þeim.
Um meðferð og varðveislu trúnaðargagna sem send eru Alþingi gilda ákvæði þingskapalaga. Það er ekki á forræði framkvæmdavaldsins að hlutast til um hvernig Alþingi eða einstakar þingnefndir ákveða að haga aðgangi þingmanna að slíkum gögnum. Í samræmi við það er það á ábyrgð Alþingis hvernig farið er með trúnaðargögn sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann 10. júní 2015.
Bent hefur verið á að tvær fundargerðir af fundum stýrinefndar um samninga við erlenda kröfuhafa föllnu bankanna liggi ekki fyrir. Það er rétt, en eins og áður hefur komið fram hafa þessar fundargerðir ekki fundist. Eftir ítrekaða leit er það niðurstaða ráðuneytisins að skýringin sé sú að láðst hafi að halda fundargerðirnar í fjarveru ritara og þær því ekki til, sem er vissulega miður.
Vísað skal til þess að ítarleg skýrsla var lögð fram á Alþingi á 139. löggjafarþingi um endurreisn viðskiptabankanna, auk þess sem Alþingi lögfesti í árslok 2009 heimild til staðfestingar á samningum þeim sem hér um ræðir (lög nr. 138/2009 ). Þá var heimild til veðsetningar í tengslum við samningagerðina samþykkt sérstaklega á Alþingi árið 2010 ( lög nr. 67/2010 ).
Þess hefur ávallt og í hvívetna verið gætt í starfi ráðuneytisins að virða lög og reglur sem gilda um meðferð opinberra gagna. Þar eru stjórnvöld bundin af lögum sem takmarka mjög heimildir til að veita aðgang að upplýsingum um einkamálefni einstaklinga og fyrirtækja.