Stór skref í átt til gagnsæis og aðhalds í ríkisrekstri með birtingu reikninga
Fjármála- og efnahagsráðherra hyggst á þessu ári stíga stór skref í átt til þess að bæta aðgengi að fjárhagsupplýsingum ríkisins í samræmi við stefnu stjórnvalda þar um. Unnið er að því að reikningar úr bókhaldi ríkisins, sem ekki hafa hingað til komið fyrir sjónir almennings, verði birtir. Helstu markmið með birtingunni eru aukið gagnsæi og aðhald í ríkisrekstri og bætt stjórnsýsla.
Á undanförnum vikum hefur verið unnið að undirbúningi málsins í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Nú hefur Fjársýslu ríkisins, sem sér um fjármál ríkisins, verið falið að skoða hentugar lausnir svo upplýsingarnar sem birta á uppfylli markmiðin. Á vegum Fjársýslunnar er unnið að því að tryggja að hægt verði með rafrænum hætti að nálgast upplýsingar í fjárhagsbókhaldi ríkisins og skoða bókhaldsfærslur út frá númeri stofnana, tegundarnúmeri og/eða kennitölu birgja, en einnig verði mögulegt að skoða skönnuð fylgiskjöl. Að ýmsu er að huga í þessari vinnu, svo sem öryggismálum, sjónarmiðum um persónuvernd og því hvort hafa eigi fjárhæðartakmörk vegna birtingar reikninga.
Gert er ráð fyrir að á fyrri hluta árs verði byrjað að opna fyrir aðgang að upplýsingum á þessum forsendum og að verkefnið verði að fullu komið til framkvæmda fyrir lok ársins.