Nr. 416/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 11. október 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 416/2022
í stjórnsýslumáli nr. KNU22090016
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 6. september 2022 kærði maður er kveðst heita [...], vera fæddur [...], ríkisborgari Hvíta-Rússlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. ágúst 2022, um að synja kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi, ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess að aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara gerir kærandi kröfu um að vera veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi kom hingað til lands að eigin sögn 25. febrúar 2022 og sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 2. mars 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 19. maí 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 24. ágúst 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 6. september 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 19. september 2022. Þá bárust frekari gögn frá kæranda 26. september 2022.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og vegna þátttöku í mótmælum gegn yfirvöldum í heimaríki sínu og fyrir að flýja undan herþjónustu.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi byggi umsókn sína á því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu vegna þátttöku sinnar í mótmælum, tengsla sinna við þekkta stjórnmálaandstæðinga og vegna þess að hann hafi reynt að komast hjá herkvaðningu. Kærandi hafi verið handtekinn vegna þátttöku í mótmælum eftir forsetakosningar í Hvíta-Rússlandi árið 2020. Hann hafi verið barinn með kylfu og settur í gæsluvarðhald í þrjá sólarhringa. Yngri systir hans A hafi haldið áfram að mótmæla og síðar verið handtekin fyrir friðsamleg mótmæli og sett í gæsluvarðhald í 14 sólarhringa. Í kjölfarið hafi systir hans flúið til Litháen og gifst þekktum stjórnarandstæðingi í Hvíta-Rússlandi, B. A hafi snúið aftur til Hvíta-Rússlands eftir andlát móður þeirra og verið handtekin af hvít-rússneskum yfirvöldum og sökuð um að hafa framið hryðjuverk. Í samræmi við heimildir eigi hún yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm. Kærandi hafi greint frá því að lögreglumenn hafi í kjölfarið komið að heimili fjölskyldu kæranda til þess að spyrjast fyrir um B og sérsveitir hafi síðan framkvæmt leit á heimilinu og lagt hald á tölvu og bíl systur hans. Stuttu fyrir flótta kæranda hafi honum borist herkvaðning og hafi hann samkvæmt kvaðningunni átt að taka þátt í hernaðaræfingum. Kærandi hafi falið sig og ekki veitt herkvaðningunni viðtöku sjálfur og eytt skjalinu af ótta við að lögreglan myndi telja að hann væri að skorast undan herkvaðningu.
Í greinargerð kæranda er vísað til fyrri greinargerðar til Útlendingastofnunar hvað varðar landaupplýsingar um stöðu mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi og umfjöllunar um stöðu stjórnarandstæðinga í Hvíta-Rússlandi, sér í lagi með vísan til nýlegra atburða á svæðinu.
Í greinargerð er gerð athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hann eigi á hættu ofsóknir af hálfu yfirvalda eða lögreglu í heimaríki sínu vegna andófs systur sinnar og eiginmanns hennar. Kærandi telji ekki sanngjarnt að leggja á hann svo ríka sönnunarbyrði að krefja hann um sönnun þegar heimildir staðfesti svo skýrlega málsatvik. Þá hafi kærandi bent á það í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar að fjölmargar heimildir séu til um mál systur hans sem nálgast megi með einfaldri leit á veraldarvefnum. Hafi verið biðlað til Útlendingastofnunar að leitað yrði atbeina túlks í því augnamiði að skoða fréttaveitur frá Hvíta-Rússlandi um systur hans og eiginmann hennar, en Útlendingastofnun hafi ekki orðið við þeirri beiðni.
Þá geri kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun telji að hann hafi ekki lagt fram frekari gögn um herkvaðningu sína. Fyrir liggi að flótta hans hafi borið að afar fljótt og leiða megi af frásögn hans að hann hafi forðast að dvelja lengi á heimili sínu og því hafi verið erfitt fyrir hann að taka með sér gögn. Heimildir sýni að þúsundir karlmanna á aldrinum 18 til 58 ára hafi á síðustu mánuðum verið kvaddir í herinn. Þá sé verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun að þar hafi verið litið fram hjá þeirri staðreynd að kærandi hafi þegar þurft að þola illa meðferð. Framburður kæranda hafi verið trúverðugur um atvik og eigi stoð í fjölda heimilda sem séu samhljóma um framkomu lögreglu og misbeitingu valds í garð almennra borgara, sérstaklega á því tímamarki sem kærandi hafi greint frá, eftir forsetakosningar árið 2020. Þá hafi Útlendingastofnun litið fram hjá þeirri staðreynd að kærandi hafi þá þegar þurft að þola illa meðferð af hálfu yfirvalda og lögreglu í Hvíta-Rússlandi vegna stjórnmálaskoðana hans.
Kærandi gerir athugasemd við að Útlendingastofnun hafi lagt óhóflega sönnunarbyrði á kæranda hvað varðar herkvaðningu hans. Kærandi hafi þurft að yfirgefa heimili sitt í miklum flýti og því erfitt fyrir hann að taka gögn með sér. Kærandi hafi verið staðfastur í frásögn sinni, hún sé trúverðug og eigi sér stoð í heimildum um Hvíta-Rússland. Hefði Útlendingastofnun aflað sér nýlegra heimilda um heimaríki kæranda hefði stofnuninni verið ljóst að þær styddu við frásögn kæranda. En þær heimildir sem Útlendingastofnun hafi vísað til í ákvörðun sinni séu frá því fyrir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022. Engin þeirra heimilda sem vísað hafi verið til nái til atburða árið 2022. Sá ágalli á rannsókn Útlendingastofnunar hafi haft bein áhrif á mat stofnunarinnar á helstu málsástæðum kæranda, einkum þeim sem lúta að herkvaðningu og misbeitingu á valdi stjórnvalda. Útlendingastofnun hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni, sem kunni að hafa haft áhrif á forsendur og niðurstöðu í máli hans.
Kærandi gerir aðallega þá kröfu að honum verði veitt alþjóðleg vernd enda hafi hann ástæðuríkan ótta við að verða fyrir ofsóknum vegna stjórnmálaskoðana verði hann sendur aftur til Hvíta-Rússlands, á þeim grundvelli að hann sé ekki tilbúinn til þess að grípa til vopna í nafni heimaríkis síns. Krafa um að kærandi leggi fram gögn um herkvaðningu sé óraunhæf og í þversögn við skilgreiningu á hugtakinu ástæðuríkur ótti. Þar að auki hafi kærandi greint frá því að hafa eytt helsta sönnunargagninu vegna ótta hans við yfirvöld og ætti það ekki að vera notað gegn honum. Þá sé auðvelt að afla gagna um herkvaðningu í Hvíta-Rússlandi þar sem gögn sýni að umfangsmikil herferð hafi farið fram þar í landi þar sem karlmenn á aldrinum 18 til 58 ára hafi verið kvaddir í herinn. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi ástæðuríkan ótta vegna stjórnmálaskoðana sinna og þátttöku í mótmælum árið 2020. Ekkert hafi verið fjallað um það ofbeldi og áreiti sem hann hafi verið beittur í ákvörðun Útlendingastofnunar. Í þriðja lagi hafi kærandi ástæðuríkan ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana þar sem systir hans og eiginmaður hennar séu þjóðþekktir stjórnarandstæðingar. Heimildir hermi að stjórnvöld fari fram með offorsi í að bæla niður stjórnarandstæðinga og fangelsi séu full af samviskuföngum. Kærandi telji að hann hafi ástæðuríkan ótta við að sæta ofsóknum sem andstæðingur stjórnvalda í heimaríki. Í framburði kæranda hafi komið fram að lögreglan hafi nú þegar haft afskipti af honum, að minnsta kosti þrisvar sinnum. Hann eigi vísar ofsóknir verði hann endursendur til heimaríkis og ljóst sé að kærandi geti ekki fært sér í nyt vernd heimaríkis, enda komi fram í landaupplýsingum um Hvíta-Rússland að dómsvald sé þar misnotað með kerfisbundnum hætti til þess að kveða niður ágreining almennra borgara gagnvart stjórnvöldum og kæfa stjórnarandstöðu með tilheyrandi mannréttindabrotum.
Kærandi gerir þá kröfu til vara að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með vísan til framangreindar umfjöllunar um aðstæður í Hvíta-Rússlandi.
Kærandi krefst til þrautavara þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Kærandi telji að félagslegar aðstæður í heimaríki hans séu slíkar að verði honum gert að snúa aftur til Hvíta-Rússlands muni hann þurfa að sæta illri og ómannúðlegri meðferð. Ástandið í Hvíta-Rússlandi sé slæmt og félagslegar aðstæður bágbornar, en heimildum beri saman um að almennir borgarar geti ekki treyst á sanngjarna réttarvernd og sjálfsögð mannréttindi á borð við öryggi frá aftökum án dóms og laga, tjáningar- og skoðanafrelsi.
Í ljósi framangreindrar umfjöllunar um aðstæður kæranda í heimaríki telji kærandi ljóst að ef honum verði synjað um vernd hér á landi og sendur aftur til heimaríkis teljist það vera brot á reglunni um bann við endursendingum í 42. gr. laga um útlendinga þar sem hann muni án vafa verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í heimaríki.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Líkt og að framan greinir þá greindi kærandi í viðtali hjá Útlendingastofnunar dags. 19. maí 2022 frá ýmsum atvikum í heimaríki sem hann telur leiða til þess að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í heimaríki sínu. Útlendingastofnun komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði ekki lagt fram gögn sem að styddu við frásögn hans af ástæðum flótta hans frá heimaríki sem lutu að herkvaðningu kæranda og tengslum hans við systur sína og möguleika hans á að sæta ofsóknum vegna stjórnmálaþátttöku hennar og eiginmanns hennar. Þá er í ákvörðun Útlendingastofnunar ekki að finna sérstaka umfjöllun um frásögn kæranda af þeirri meðferð sem hann hafi sætt vegna þátttöku hans í mótmælum árið 2020. Þær heimildir sem Útlendingastofnun vísar til í ákvörðun sinni fjalla einkum um atburði sem hafi átt sér stað í landinu árin 2018 og 2019 en þó byggja tvær tilvitnaðar skýrslur á atburðum ársins 2020. Ástandið í landinu hefur breyst til hins verra frá kosningum í ágúst 2020 og mótmælum í kjölfarið. Þá er ljóst að náin stjórnmálatengsl á milli Rússlands og Hvíta-Rússlands leiða til þess að innrás Rússlands inn í Úkraínu og það stríð sem þar geisar hefur bein áhrif á stöðu mála í Hvíta-Rússlandi. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er ekki að finna umfjöllun um stöðu mála í þar í landi með tilliti til síðustu vendinga hvað varðar aðgerðir stjórnvalda gegn mótmælendum, alvarleg mannréttindabrot sem hafa átt sér stað í þeim aðgerðum, almenna herkvaðningu í landinu eða hernaðaræfingar við landamæri Úkraínu á síðustu mánuðum.
Við einfalda leit á veraldarvefnum er ljóst að herkvaðning hefur verið sett á fyrir alla karlmenn á aldrinum 18 til 58 ára í Hvíta-Rússlandi og er því ljóst að frásögn kæranda af herkvaðningu fær stoð í nýlegum heimildum. Kærandi hefur lagt fram gögn varðandi tengsl hans við aðila sem hafa verið virkir í stjórnarandstöðu í heimaríki auk þess sem Útlendingastofnun hefur ekki dregið í efa þátttöku hans í mótmælum. Þá er ljóst að auðvelt er að finna upplýsingar um systur kæranda og eiginmann hennar á veraldarvefnum og hefði Útlendingastofnun verið í lófa lagið að óska eftir frekari gögnum frá kæranda varðandi systur hans teldi stofnunin ástæðu til.
Í skýrslum um stöðu mannréttindamála í Hvíta-Rússlandi, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að spilling sé veruleg og mikið vandamál í heimaríki kæranda og miklar hindranir á að einstaklingar geti notið verndar hjá stjórnvöldum og leitað réttar síns vegna spillingar innan stofnana, svo sem innan dómskerfis í landinu. Dómskerfið og aðrar stofnanir skorti sjálfstæði og veiti ekkert eftirlit með valdbeitingu forsetans. Í skýrslu Freedom House frá 2022 kemur fram að forsetinn haldi fast í herinn, öryggissveitir og brjóti niður mótmæli sem hafi sprottið vegna endurkjörs hans árið 2020. Frá þeim tíma hafi öryggissveitir beitt blaðamenn og almenna borgara sem gagnrýni stjórnvöld ofbeldi. Í skýrslu Human Rights Watch frá 6. september 2022, kemur fram að fjöldi pólitískra fanga sitji í fangelsi og eigi yfir höfði sér harðar refsingar vegna þátttöku í mótmælum gegn stjórnvöldum. Með vísan til framangreinds er ljóst að frásögn kæranda hafi gefið Útlendingastofnun nægt tilefni til að rannsaka með ítarlegum hætti aðstæður í Hvíta-Rússlandi og taka afstöðu til mögulegrar hættu á því að kærandi sæti ofsóknum verði honum gert að snúa heim. Er það mat kærunefndar að rökstuðningur Útlendingastofnunar beri ekki með sér að lagt hafi verið fullnægjandi mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda út frá lagagrundvelli máls hans.
Með vísan til framangreinds er málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda, að mati kærunefndar, ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál hans til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir