Rannsóknarnefnd samgönguslysa tekur til starfa 1. júní
Samþykkt hafa verið á Alþingi lög um rannsókn samgönguslysa. Með þeim lögum er starfsemi Rannsóknarnefndar flugslysa, Rannsóknarnefndar sjóslysa og Rannsóknarnefndar umferðarslysa sameinuð. Nefndirnar þrjár verða sameinaðar í eina sjö manna rannsóknarnefnd samgönguslysa sem heyrir undir innanríkisráðherra.
Markmið laganna er að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa segir í fyrstu grein frumvarpsins. Er hún sambærileg grein sama efnis og í gildandi lögum um rannsóknir flugslysa, sjóslysa og umferðarslysa nema orðalagi er breytt þar sem hún nær yfir öll slys í samgöngum.
Lögin mæla nánar fyrir um starfsemina, tilhögun rannsókna, skýrslugerð og fleira. Sérstakur kafli er í lögunum um hvert svið fyrir sig, þ.e. rannsókn flugslysa og alvarlegra flugatvika, rannsókn sjóslysa og sjóatvika og rannsókn umferðarslysa og alvarlegra umferðaratvika. Ennfremur verða starfandi rannsóknarstjórar fyrir hvert samgöngusvið.
Breytingin á sér talsverðan aðdraganda og er hann rakinn í athugasemdum með lagafrumvarpinu. Í júní 2007 kom þáverandi samgönguráðherra á fót starfshópi með þátttöku forstöðumanna rannsóknarnefndanna til að vinna að þessu verkefni og var Andri Árnason hæstaréttarlögmaður ráðinn til að vinna með starfshópnum og semja drög að frumvarpi. Starfshópurinn leitaði víða fanga í upplýsingaöflun og var m.a. gerð greining á fyrirkomulagi samgöngurannsókna í nokkrum löndum, þar á meðal á Norðurlöndunum, í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Sem dæmi má nefna að í Noregi er sameiginleg flugslysa-, lestarslysa-, sjóslysa- og umferðarslysanefnd, í Svíþjóð og Finnlandi eru sameiginlegar flugslysa-, lestarslysa- og sjóslysanefndir og í Danmörku er sameiginleg flugslysa- og lestarslysanefnd. Það fyrirkomulag sem lagt er til í þessu frumvarpi á sér því fordæmi annars staðar á Norðurlöndum.
Í upphafi árs 2009 voru frumvarpsdrögin endurskoðuð í samgönguráðuneytinu. Nokkuð var bætt við af ákvæðum að teknu tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga og uppsetningu og kaflaskiptingu eldri draga frumvarpsins breytt með það fyrir augum að gefa frumvarpinu heildstæðara yfirbragð. Var frumvarpið í tvígang sett í umsagnarferli og er frumvarpið afrakstur framangreindrar vinnu.
Frumvarpið var lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010, 139. löggjafarþingi 2010–2011 og 140. löggjafarþingi 2011–2012 en var ekki afgreitt og er því lagt fyrir Alþingi að nýju.
Á næstu vikum verður unnið að því að undirbúa starfsemi Rannsóknarnefndar samgönguslysa en lögin gera ráð fyrir að starfsemi hennar hefjist 1. júní næstkomandi.