Hoppa yfir valmynd
12. mars 2013 Innviðaráðuneytið

Kastljósinu beint að aukinni þátttöku íbúa í stjórnun sveitarfélaga á hádegisverðarfundi

„Mál málanna er beint lýðræði,“ sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á fundi í dag þar sem kastljósinu var beint að aukinni þátttöku íbúa í stjórnun sveitarfélaga. Þar fluttu erindi þeir Bruno Kaufmann, sveitarstjórnarmaður í Falun í Svíþjóð og formaður evrópskra samtaka um beint lýðræði og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga auk ráðherra. Innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtökin  Initiative and Referendum Institute Europe stóðu fyrir fundinum sem haldinn var í Iðnó.

Frá hádegisverðarfundi um aukna þátttöku íbúa í stjórnun sveitarfélaga.

Aukin þátttaka fólksins

Bruno Kaufmann kallaði erindi sitt Democracy City - towards a local supportive infrastructure for participative democracy. Þar beindi hann sjónum m.a. að hinu nýja lýðræði, kröfunni um aukna þátttöku fólksins og að vilji þess endurspeglist í þeim ákvörðunum sem teknar séu. Mikilvægt sé að byggja stjórnkerfið upp með það að leiðarljósi að fólk hafi möguleika á því að taka þátt. Þar skipti viðhorf stjórnvalda mjög miklu máli.
Bruno Kaufmann kvaðst einnig telja brýnt að horfa til unga fólksins, verkefnið væri að gera það að borgurum sem láti sig málin varða og taki þátt í þeim ákvörðunum sem teknar eru. Þetta sé meðal annars gert með því að hvetja ungt fólk til að nýta kosningarrétt sinn. Við hverjar kosningar séu nýir kjósendur sem áríðandi sé að hvetja til þátttöku.

Sveitarfélög - lýðræðislegur vettvangur

Ríki og sveitarfélög - samstarf á jafnréttisgrunni? var heitið á erindi Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann ræddi mikilvægi þess að tengsl ríkis og sveitarfélaga séu góð, sveitarfélög séu lýðræðislegur vettvangur sem hafi áhrif – þar sé lýðræði ástundað m.a. með íbúafundum og kosningum.
Halldór ræddi sameiningar sveitarfélaga og velti upp þeirri spurningu hvort lýðræðisþátttaka sé háð stærð sveitarfélaga, hvort hún hafi ef til vill verið meiri í sveitarfélögunum meðan þau voru minni, hvar stærðarmörkin liggi þá varðandi þátttöku íbúa í málum sem þá varða.
Halldór benti á ákvæði um kostnaðarmat í nýju sveitarstjórnarlögunum og sagði það mjög jákvætt skref í samskiptum og samráði ríkis og sveitarfélaga. Hann skýrði einnig frá því að ákvæði um sveitarstjórnarstigið í núgildandi stjórnarskrá Íslands veki mikla athygli erlendis og margar þjóðir horfi til þess.

Beint lýðræði er kall tímans

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði hið beina lýðræði vera kall tímans í erindi sínu sem hann kallaði Búið í haginn fyrir lýðræðið. Hann sagði að stuðla þyrfti að umræðu til að efla einstaklinginn og hvetja hann til þátttöku. Ögmundur sagði áherslur sínar varðandi lýðræðisþátttöku endurspeglast meðal annars í starfi nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins varðandi rafræna stjórnsýslu og lýðræði fyrir hið opinbera, sem hafi verið undanfari starfshóps um rafræna stjórnsýslu og rafrænt lýðræði, er nú starfi undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar.
Helstu áherslurnar þar eru á nauðsyn þess að auðvelda almenningi notkun rafrænnar stjórnsýslu, auka rafræna möguleika í lýðræðismálum og að rekin verði ein þjónustugátt fyrir alla rafræna þjónustu hins opinbera“. Þá minnti ráðherra á að hann hafi lagt fram frumvörp í þessum málaflokki, t.d. um persónukjör og rafrænar kosningar, og efnt til umræðu til að læra af þeim sem hefðu gert vel, eins og t.d. Reykjavíkurborg. Þá tilheyri málaflokkur upplýsingasamfélagsins nú innanríkisráðuneytinu og falli það vel að hans áherslum í þessum málum.

Upptaka frá fundinum

Inga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi í Vogum, stýri fundi sem var vel sóttur. Gert er ráð fyrir að upptaka frá fundinum verði komin inn á vefinn föstudaginn 15. mars. Efnið verður bæði birt á vef ráðuneytisins og á vefnum netsamfelag.is sem upplýsinga- og fjölmiðladeild Flensborgarskóla rekur. Innanríkisráðuneytið og Flensborgarskóli hafa gert með sér samning um vistun á efni frá ráðstefnum ráðuneytisins um lýðræðismál.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta