Hoppa yfir valmynd
13. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2004

Föstudaginn, 13. maí 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 27. desember 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 6. desember 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 6. október 2004 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Bakgrunnur málsins er sá að ég er í doktorsnámi í B-fræði við D-háskóla í E í F-lands. Ég flutti til F-lands í september 1999, lauk mastersprófi í B-fræði í júní 2001 við D-háskóla og hóf loks doktorsnám í september 2001 við sama skóla. Doktorsnám mitt endar með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af íslenskum stjórnvöldum, að því tilskildu að ég standist öll próf sem ég hef gert hingað til. Ég hef búið samfellt í F-landi síðan í september 1999. Ég er íslenskur ríkisborgari og hef alla tíð haft lögheimili á Íslandi.

Í janúar 2004 fæddist sonur minn og þar sem ég lít svo á að ég sé námsmaður sótti ég um fæðingarstyrk. Forsenda umsóknarinnar er 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof sem segir að foreldrar í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks. Nám mitt er lánshæft samkvæmt LÍN og hef ég tekið námslán þau níu ár sem ég hef verið námsmaður. G-stjórn lítur svo á að ég sé námsmaður þar sem ég hef námsmannadvalarleyfi og væri ólöglegur í landinu ef ég væri ekki í fullu námi. Ég hef verið í fullu námi samkvæmt skilgreiningu D-háskóla og er LÍN sammála þeirri skilgreiningu.

Í bréfi dagsettu 6. október 2004 tilkynnti TR mér að umsókn minni um fæðingarstyrk námsmanna væri hafnað. Þar kemur fram að foreldrar í fullu námi eigi rétt á fæðingarstyrk og vísa þeir í 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Fyrir neðan er 14. gr. viðkomandi reglugerðar:

„Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur. Sama á við um 75–100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Einstök námskeið teljast ekki til fulls náms.

Leggja skal fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.

Verklegt nám sem stundað hefur verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur skal meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla.

Heimilt er að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.“

En samkvæmt þessari skilgreiningu hlýt ég að teljast námsmaður.

Í fyrrgreindu bréfi frá TR kemur síðan fram að 3. ml. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar til að meta nám foreldris erlendis eigi ekki við þegar viðkomandi er einnig á vinnumarkaði erlendis.

Ég fæ því skilið að TR líti svo á að ég sé á vinnumarkaði í F-landi. Það þykir mér athyglisverð niðurstaða. Í fyrsta lagi er ég ekki með atvinnuleyfi í F-landi þ.e. ég get ekki hætt í skólanum og sótt um vinnu. Ég er með námsmannadvalarleyfi sem krefst þess að ég sé í fullu námi. Það er því langsótt að segja að ég sé á vinnumarkaði í F-landi.

Í mínu námi tíðkast það að námsmenn fái styrk, þ.e. þeir eru aðstoðarfólk í rannsóknum (AR) eða aðstoða við kennslu. Ástæðan er einkum sú að námið er langt og því fylgir mikill kostnaður. Til dæmis voru skólagjöld við D-háskóla H kr. fyrir haustfjórðung 2004 sem þýðir að fullt námsár kostar I kr. fyrir fullt nám í framhaldsnámi í B-fræði í D-háskóla (námsár samanstendur af þremur fjórðungum, haust, vetur og vor). Í mínu tilfelli er ég AR þ.e. ég er aðstoðarmaður ákveðins prófessors sem í flestu tilfellum er einnig leiðbeinandi tilsvarandi nemenda. Prófessorinn leggur fram fjármuni til að borga skólagjöld og einnig fær nemandinn ákveðna upphæð á hverjum fjórðung sem greidd er út á tveggja vikna fresti. Fæ ég greidda I kr., fyrir skatta, á hverjum fjórðungi sem ég er AR. Ég vil taka það fram að þessi upphæð er hærri í D-háskóla en í sambærilegum skólum sökum þess hversu dýrt er að búa á þessu svæði í F-landi. Til dæmis fæ ég samtals K_kr. útborgaða mánaðarlega þegar búið er að draga frá skatta og leigu á því húsnæði sem við búum í... Ég vil taka fram að við búum í húsnæði sem háskólinn útvegar. Enn fremur þá jafnast þessi laun ekki við það sem einstaklingur með mína menntun fær í laun á hinum almenna vinnumarkaði, hvorki í F-landi né á Íslandi. Einnig vil ég vekja athygli á grundvallar mun á minni stöðu sem AR við D-háskóla og stöðu fólks á hinum almenna vinnumarkaði. Líkt og á Íslandi tíðkast það að fólk vinnur sér inn frí við störf, bæði veikindafrí og hefðbundið launað frí. Einnig fylgja yfirleitt fríðindi, t.d. heilsutrygging og tannlæknatrygging, störfum í F-landi. Ég hlýt engin slík fríðindi. Einnig vil ég bæta við að þessari stöðu minni fylgja ekki sérstakar skyldur og ég ræð mínum tíma sjálfur. Ég fæ því ekki séð hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að ég sé á vinnumarkaði...

Það er mín skoðun að peningar sem nemendur fá í doktorsnámi eigi ekki að skipta máli og afstaða TR sé ekki í anda þessara laga og reglugerða...

Að lokum vil ég gera tvær athugasemdir. 1. Ég sótti um fæðingarstyrk 22. mars 2004 og fékk svar 6. október 2004. Þrátt fyrir ítrekaðar tölvupóstsendingar þá þóknaðist TR ekki að svara fyrirspurnum mínum hvers vegna þetta tæki svona langan tíma. 2. Nýlega eignaðist einstaklingur barn sem er í nákvæmlega sama námi og ég, við sömu deild og í sama skóla. Sá einstaklingur fékk fæðingarstyrk og virðist TR sama um það sem ég fæ séð sem hrópandi ósamræmi. Ég spurði Stefaníu um þetta í tölvupósti og hún svaraði að hún þekkti ekki til máls þessa einstaklings.“

 

Með bréfi, dagsettu 17. janúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 7. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn, dags. 29. mars 2004, sem móttekin var sama dag, sótti kærandi um fæðingarstyrk sem námsmaður.

Umsókn hans er vegna barns sem fætt er 23. janúar 2004. Með umsókn kæranda fylgdu fæðingarvottorð barnsins, dags. 17. febrúar 2004 og staðfesting frá D-háskóla, dags. 17. mars 2004. Áður en umsókn kæranda var tekin til endanlegrar afgreiðslu hafði hann enn fremur lagt fram tvær staðfestingar frá skólanum undirritaðar af „Manager of Academic Programs“. Fyrri staðfestingin er dags. 25. maí 2004 og hefur að geyma staðfestingu á doktorsnámi kæranda og að hann muni verða fjarverandi tiltekinn tíma til að sinna nýfæddu barni sínu. Síðari staðfestingin er dags. 21. júlí 2004 og þar er gerð grein fyrir hvernig rannsóknarstarfi kæranda sem doktorsnema sé háttað og hvernig hann fái greitt fyrir það. Auk þessara staðfestinga bárust lífeyristryggingasviði frá kæranda tveir launaseðlar, sem vörðuðu tekjur hans í apríl 2004 og var hann á launaseðlum þessum skilgreindur sem „Salaried NRA Students“. Þá lágu enn fremur fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Samkvæmt 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl). eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar. Í 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er kveðið á um að verklegt nám sem stundað hafi verið á Íslandi á síðustu sex mánuðum fyrir fæðingu barns, skuli meta sem fullt nám veiti það ekki rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. II. kafla reglugerðarinnar.

Barn kæranda er, eins og að framan greinir, fætt 23. janúar 2004. Samkvæmt framangreindri meginreglu var því litið til þess hvort kærandi hefði verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins eða frá 23. janúar 2003 og fram að fæðingu þess.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi á framangreindu 12 mánaða tímabili verið við doktorsnám í bandarískum háskóla og fól nám hans m.a. í sér verklega þætti sem hann hvort tveggja fékk greidd laun fyrir og naut auk þess afsláttar af skólagjöldum, sbr. framlagða staðfestingu, dags. 21. júlí 2004. Þannig virðist kærandi hafa fengið reglulegar tekjur og er á framlögðum launaseðlum skilgreindur sem „Salaried NRA Students“. Þessar tekjur hefur hann gefið upp á íslensku skattframtali sem tekjur erlendis.

Með hliðsjón af öllu framangreindu og þar sem 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 tekur eingöngu til verklegs náms sem stundað er á Íslandi, telur lífeyristryggingasvið ekki unnt að samþykkja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 10. febrúar 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13 gr. reglugerðarinnar.

Barn kæranda fæddist 23. janúar 2004. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 23. janúar 2003 til fæðingardags barnsins.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi á árinu 1999 til F-lands til þess að stunda þar nám. Hann lauk mastersprófi í B-fræði í júní 2001 við D-háskóla og hóf doktorsnám í september 2001 við sama skóla.

Kærandi hefur á þessu tímabili verið skráður með lögheimili á Íslandi en heimild til þeirrar skráningar byggir á dvöl hans við nám erlendis.

Á því tímabili sem hér er tekið til skoðunar hefur kærandi verið í framangreindu doktorsnámi við D-háskóla. Með staðfestingu háskólans dagsettri 25. maí 2004 er staðfest fullt doktorsnám kæranda við B-fræðideild D-háskóla.

Samhliða námi sínu tók kærandi að sér að vera aðstoðarmaður prófessors (Research Assistantship) við skólann. Í staðfestingu D-háskóla dagsettri 21. júlí 2004 kemur fram að fyrir það komi endurgjald til námsmanns sem feli í sér bæði laun og eftirgjöf skólagjalda. Þess er ekki krafist að nemandi hafi atvinnuleyfi í F-landi þegar hann tekur að sér að vera aðstoðarmaður prófessors, þar sem um námstengt verkefni er að ræða. Engin vinnutengd réttindi sem starfsmenn háskólans njóta fylgja slíkum verkefnum sbr. staðfestingin 21. júlí 2004.

Eins og gögn málsins bera með sér er kærandi við doktorsnám í F-landi. Með hliðsjón af því sem staðfest er um nám kæranda við D-háskóla og námsframvindu hans þar er það mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 19. gr. ffl. um fullt nám, sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Ekki verður talið að verkefni hans sem aðstoðarmaður prófessors (Research Assistantship) hafi áhrif á þá niðurstöðu.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk námsmanns.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

    

    

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta