Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2005

Þriðjudaginn, 26. apríl 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. febrúar 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá B, f.h. A, dagsett 4. febrúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 1. febrúar 2005 um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Umbjóðandi minn eignaðist dóttur þann 11. ágúst 2004. Sótti hann um töku fæðingarorlofs frá 1. janúar 2005 til byrjun apríl 2005. Með bréfi, dags. 1. febrúar 2005 var umsókn umb. m. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði samþykkt, sbr. fskj. nr. 1. Hins vegar sættir umb. m. sig ekki við það að viðmiðunartímabil sem Tryggingastofnun valdi að miða greiðslur hans úr Fæðingarorlofssjóði við.

Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um foreldra- og fæðingarorlof segir:

„Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. ...“

Samkvæmt skýru orðalagi greinarinnar átti viðmiðunartímabil fyrir fæðingarorlof umb. m. því að miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem átti að ljúka tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hans. Umb. m. sótti sem fyrr segir um að vera í fæðingarorlofi frá 1. janúar 2005 og skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 átti viðmiðunartímabilið því að vera frá 1. nóvember 2003 til 31. október 2004.

Tryggingastofnun ríkisins ákvað hins vegar að miða við allt annað tímabil eða frá júní 2003 til maí 2004. Hjá stofnuninni fengust þær upplýsingar að það væri vinnuregla innan stofnunarinnar að miða við 12 mánaða tímabil sem lyki tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Þessi vinnuregla hefur enga stoð í lögum nr. 95/2000 um foreldra- og fæðingarorlof og brýtur raunar í bága við þau.

Á því tímabili sem Tryggingastofnun ríkisins lagði til grundvallar var umb. m. í námi við D-skóla og því stóran hluta tímabilsins einungis í hlutastarfi með námi. Hann útskrifaðist frá D-skóla í júní 2003 og hefur verið í fullu starfi frá þeim tíma. Það er því ljóst að það eru talsverðir hagsmunir í húfi fyrir umb. m. að Tryggingastofnun reikni fæðingarorlof umb. m. á grundvelli þess tímabils sem hann á rétt á skv. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um foreldra og fæðingarorlof.

Það er ljóst að í lögum nr. 95/2000 er gert ráð fyrir að foreldrar hafi sjálfir val um, í samráði við vinnuveitanda, hvenær þeir hefja töku fæðingarorlofs. Þetta leiðir m.a. af 2. mgr. 9. gr. laganna þar sem segir. „Tilkynning um töku fæðingarorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun.“, sbr. einnig 4. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 15. gr. sömu laga.

Rétt er að taka fram að fæðingarorlof umb. m. fer eftir lögum nr. 95/2000 eins og þau voru fyrir breytingu, með lögum nr. 90/2004 um breytingu á lögum nr. 95/2000 um foreldra- og fæðingarorlof... “

 

Með bréfi, dagsettu 9. febrúar 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 23. febrúar 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og óskar kærandi eftir því að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans verði annað en litið var til við afgreiðslu umsóknar hans. Gerir kærandi kröfu um að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans verði 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir 1. janúar 2005 þegar hann lagði niður störf vegna fæðingarorlofs.

Með umsókn, sem móttekin var 14. júní 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 3 mánuði og 6 daga frá 1. janúar 2005 að telja. Umsóknin varðar barn sem fætt er 11. ágúst 2004 en áætlaður fæðingardagur þess var 20. ágúst 2004.

Meðfylgjandi umsókn kæranda voru vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 11. júní 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 8. júní 2004 og launaseðlar fyrir mars og maí 2004. Auk þess lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í greinargerð með lagafrumvarpinu er tekið fram að hér sé átt við almanaksmánuði.

Við afgreiðslu lífeyristryggingasviðs á umsókn kæranda var miðað við 80% meðaltekna hans á tímabilinu frá júní 2003 til og með maí 2004, en barn hans fæddist í ágúst 2004, eins og að framan greinir.

Varðandi kröfu kæranda um að viðmiðunartímabil tekjuútreiknings hans miðist við þann dag sem hann lagði niður störf vegna fæðingarorlofs, þ.e. 1. janúar 2005, skal tekið fram að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála hefur, í máli nr. 42/2001, kveðið úr um það hvað skuli teljast upphafsdagur fæðingarorlofs, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. ffl. Er þar miðað við að upphaf orlofs sé í síðasta lagi við fæðingu barns. Samkvæmt því skal útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði miðast við það tímamark, jafnvel þótt annað foreldrið nýti rétt sinn til töku orlofs síðar.

Lífeyristryggingasvið telur að ágreiningsefni í máli þessu sé sambærilegt því sem um ræddi í máli nr. 42/2001 og vísar af þeim sökum til niðurstöðu þess máls og rökstuðnings fyrir þeirri niðurstöðu.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 8. mars 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá lögmanni kæranda með bréfi dagsettu 21. mars 2005, þar segir meðal annars:

„Í greinargerð Tryggingastofnunar er um rökstuðning fyrir umb. m. vísað til úrskurðar nr. 42/2001. Umb. m. hafnar því að þessi úrskurður hafi fordæmisgildi í máli hans. Í þessu máli var um það að ræða að faðirinn kaus að skipta fæðingarorlofi sínu í mörg stutt tímabil og gerði kröfu um að fæðingarorlofsréttur hans yrði reiknaður út miðað við upphafsdag hvers tímabils fyrir sig. umb. m. hóf hann hins vegar ekki töku fæðingarorlofs fyrr en þann 1. janúar 2005 og tók rúmlega þriggja mánaða fæðingarorlof frá þeim degi í einu lagi. Það leiðir því af 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um foreldra- og fæðingarorlof að miða átti viðmiðunartímabil fæðingarorlofs umb. m. við 12 mánaða samfellt tímabil, frá 1. nóvember 2003 til 31. október 2004.

Það er ljóst að í lögum nr. 95/2000 er gert ráð fyrir að foreldrar hafi sjálfir val um, í samráði við vinnuveitanda, hvenær þeir hefja töku fæðingarorlofs. Þetta leiðir m.a. af 2. mgr. 9. gr. laganna þar sem segir. „Tilkynning um töku fæðingarorlofs skal vera skrifleg og skal þar tilgreina fyrirhugaðan upphafsdag orlofsins, lengd og tilhögun.“, sbr. einnig 4. mgr. 10. gr. og 2. mgr. 15. gr. sömu laga.

Umb. m. hafnar þeirri lagatúlkun úrskurðarnefndarinnar á 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla leiði til þeirrar niðurstöðu að takmarka beri þennan rétt umb. m. til fæðingarorlofs. Réttur umb. m. til fæðingarorlofs er grundvallaður á lögum nr. 95/2000 um foreldra og fæðingarorlof en ekki á lögum nr. 96/2000. Telur umb. m. því útilokað að vísa til laga nr. 96/2000 til að takmarka þann rétt sem leiðir af skýru orðalagi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna, og einnig 4. mgr. 10. gr. og 2. mgr 15. gr. laga nr. 95/2000. Þá skýtur það einnig skökku við að vísa til jafnréttislaga því til stuðnings að takmarka beri sveigjanleika foreldra í fæðingarorlofi. Markmiðið með þessum mikla sveigjanleika í lögum nr. 95/2000 var nefnilega að stórum hluta sá að stuðla að jafnrétti kynjanna, sbr. 1. gr. laganna.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Ákvæðið veitir konu þó heimild til þess að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof kemur fram varðandi þá undantekningu að ekki verði litið á þetta sem mismunun, þar sem það teljist ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, sbr. 3. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (nú 22. gr. laga nr. 96/2000).

Upphafsdagur fæðingarorlofs foreldra er skilgreindur í 2. mgr. 8. gr. ffl. Það færi í bága við 1. mgr. 22. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þar sem hvers kyns mismunun eftir kynjum er lýst óheimil, ef karlar gætu sjálfir ákvarðað upphafsdag fæðingarorlofs en ekki konur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof að miða skuli við almanaksmánuði við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Lögin heimila ekki að vikið sé frá reglu 2. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt meginreglunni í 2. mgr. 8. gr. ffl. var upphafsdagur fæðingarorlofs kæranda fæðingardagur barnsins, hinn 11. ágúst 2004. Viðmiðunartímabil útreiknings greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði er samkvæmt því frá júní 2003 til og með maí 2004, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslur í fæðingarorlofi staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A, í fæðingarorlofi er staðfest.

 

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta