Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2004

Þriðjudaginn, 26. apríl 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. september 2004 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 23. september 2004.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. ágúst 2004 um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í umsókn minni um fæðingarorlof voru störf mín ekki metin nema 25-49% þrátt fyrir að það sé alls ekki tilfellið. Skýringin sem ég fæ og ég er mjög ósátt við er sú að þar sem faðir minn og móðir eiga búið og launin mín séu svona lág eða G kr. á mánuði sé hægt að dæma vinnu mína niður í %.

Ég vinn á sveitabæ sem bóndi og er í 100% vinnu, ef ekki rúmlega það, vinn alla daga ársins jafnt sumar sem vetur, helgidaga og aðra daga. Til að búið geti staðið undir sér er ekki möguleiki á því að ég sé á hærri launum heldur en G kr. á mánuði og því sé ég ekki hvernig hægt er að meta mitt fulla starf niður í hálft starf vegna skyldleika við vinnuveitendurna. Foreldrar mínir ráða ekki við að reka búið, sem er í stærra lagi, ein og þurfa því starfsfólk sér til aðstoðar. Ég hef brennandi áhuga á bústörfum og er menntaður í B-fræði frá D skólanum og vil því vinna við þau störf þó það þýði lægri laun en ég fengi annars staðar. Þess vegna ákvað ég að starfa hjá þeim og hef mikla ánægju af.

Ég krefst þess að matið á fæðingarorlofinu mínu verði endurskoðað með tilliti til þessara raka sem ég hef sett hérna að ofan og að ég verði metin í 100% vinnu og fái þ.a.l. fullt fæðingarorlof í samræmi við það.“

 

Með bréfi, dags. 8. október 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 20. október 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og óskar kærandi eftir því að unnið starfshlutfall hennar verði metið hærra en gert var við afgreiðslu umsóknar hennar.

Með umsókn, dags. 17. maí 2004, sem móttekin var 21. maí 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá fæðingardegi barns hennar. Umsóknin varðar barn kæranda sem fætt er 13. júlí 2004.

Með umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 29. apríl 2004 og tilkynning um fæðingarorlof, dags. 17. maí 2004.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 8. júlí 2004, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda, þ. á m. afriti af tveimur launaseðlum hennar. Þann 19. júlí 2004 bárust lífeyristryggingasviði launaseðlar kæranda fyrir maí og júní 2004, ásamt sundurliðunum vinnuveitanda hennar á staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir tímabilin janúar og mars 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu enn fremur fyrir upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 20. júlí 2004, var henni tilkynnt að umsókn hennar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verði samþykkt frá 13. júlí 2004. Þá bar bréfið með sér að þar sem 80% af meðaltekjum kæranda samkvæmt skrám skattyfirvalda hefðu reiknast lægri en lágmarksgreiðsla í fæðingarorlofi til foreldris í 25 – 49% starfi yrði mánaðarleg greiðsla til hennar úr Fæðingarorlofssjóði H kr., og skyldi fæðingarorlof greitt í sex mánuði.

Með nýrri tilkynningu um fæðingarorlof, dags. 29. júlí 2004, óskaði kærandi eftir að taka þrjá mánuði í fæðingarorlof í stað sex, eins og áður hafði verið óskað eftir og var henni af því tilefni sent bréf, dags. 12. ágúst 2004, þar sem fram kom að hún fengi greitt úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 2. mgr. segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanna í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem ljúki tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 4. mgr. er kveðið á um lágmarksgreiðslur í fæðingarorlofi annars vegar til foreldra í 25 – 49% starfi og hins vegar í 50 – 100% starfi.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks eru ákvæði um starfshlutfall. Þar segir í 1. mgr. að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 4. mgr. 13. gr. ffl. skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar er síðan kveðið á um að þegar meta eigi starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris skuli fara eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu á því ári sem um ræðir.

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt segir að endurgjald fyrir vinnu manns, sem reikna skuli sér endurgjald samkvæmt 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr. laganna, skuli eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildi um endurgjald fyrir starf maka hans, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja. Þá segir að fjármálaráðherra setji árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra og að við ákvörðun lágmarksendurgjalds skuli höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Í 4. mgr. 58. gr. segir síðan að ákvæði 1. mgr. skuli gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við geti átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafi ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda lágu fyrir upplýsingar um að vinnuveitandi hennar væri E, sem er einkahlutafélag sem starfar við kartöflurækt og er í eigu F, föður kæranda. Kærandi hafði alla sex mánuðina fyrir upphafsdag fæðingarorlofs hennar G kr. í mánaðarlaun fyrir störf sín hjá E.

Á grundvelli ákvæðis 58. gr. laga nr. 90/2003 þótti ekki annað fært í tilviki kæranda en að líta til 5. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 við mat á starfshlutfalli hennar og meta starfshlutfall hennar út frá útgefnum reglum um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2004.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda þótti rétt að raða kæranda í flokk H, sem á við um mann sem starfar við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka síns eða starfar hjá félagi sem maki hans eða nákomnir venslamenn hafa ráðandi stöðu í vegna eignar- eða stjórnaraðildar. Í H flokknum var kæranda raðað í 3ja undirflokk sem tekur til ófaglærðra starfsmanna almennt. Lágmarksviðmiðunarfjárhæð mánaðarlauna í þeim flokki er I kr. og því reiknast mánaðarlaun kæranda, G kr., lægri en 50% starfshlutfall eða um 43%.

Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í kæru kæranda um að hún sé B að mennt og starfi sem bóndi á sveitabæ telur lífeyristryggingasvið að við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi starfshlutfall hennar síst verið reiknað of lágt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 26. október 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð meðal annars vegna anna úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Mánaðarleg greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til foreldris skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.

Í 4. mgr. 13. gr. ffl. er kveðið á um lágmark greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði annars vegar til foreldris í 25-49% starfi og hins vegar foreldris í 50-100% starfi, sbr. 6. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt 5. mgr. 13. gr. ffl. kemur fjárhæð lágmarksgreiðslna til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.

Kærandi ól barn 13. júlí 2004. Lágmarksfjárhæðir úr Fæðingarorlofssjóði námu þá J kr. til foreldris í 50-100% starfi og H kr. til foreldris í 25-49% starfi. Samkvæmt staðgreiðsluskrá voru tekjur kæranda G kr. á mánuði á 12 mánaða viðmiðunartímabili. Samkvæmt því á kærandi rétt á lágmarksgreiðslu á grundvelli 4. mgr. 13. gr. ffl.

Ágreiningur er um við hvaða starfshlutfall skuli miða ákvörðun greiðslunnar. Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 909/2000 segir að þegar meta eigi starfshlutfall starfsmanns skv. 4. mgr. 13. gr. ffl. skuli fara eftir fjölda vinnustunda foreldris á mánuði á sex mánaða samfelldu tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Foreldri sem hafi unnið 86-172 vinnustundir á mánuði teljist vera í 50-100% starfi en foreldri sem hafi unnið 43-85 stundir á mánuði teljist vera í 25-49% starfi. Þó skuli jafnan taka tillit til fjölda vinnustunda sem teljist fullt starf samkvæmt kjarasamningi.

Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skal farið eftir viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í staðgreiðslu þegar meta á starfshlutfall sjálfstætt starfandi foreldris. Í 58. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt er kveðið á um endurgjald fyrir vinnu manns skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. sem skal eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Sama gildir um endurgjald fyrir starf maka manns, barns hans innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, venslamanns hans eða nákomins ættingja. Fjármálaráðherra setur árlega við upphaf tekjuárs reglur um reiknað endurgjald að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun lágmarksendurgjalds skal höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Samkvæmt 3. mgr. 58. gr. skulu ákvæði 1. og 2. mgr. gilda um starf á vegum lögaðila eftir því sem við getur átt, enda vinni maður við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann, maki hans, barn eða nákomnir ættingjar eða venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnunaraðildar.

Samkvæmt gögnum málsins var vinnuveitandi kæranda E. sem er einkahlutafélag föður hennar og námu mánaðarlaun kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá G kr. Á útgefnum launaseðlum kemur eingöngu fram hver sé unninn mánuður og fjárhæð launagreiðslu. Samkvæmt skattframtali naut kærandi ekki annarra tekna eða hlunninda.

Samkvæmt útgefnum viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald 2004 féll undir flokk H maður sem starfar við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka síns eða starfar hjá félagi sem maki hans eða nákomnir venslamenn hafa ráðandi stöðu vegna eignar- eða stjórnaraðildar. Samkvæmt lið H (3) var lágmark reiknaðs endurgjalds vegna ófaglærðs starfsfólks I kr. á mánuði. Eins og mál þetta er vaxið þykir framtalin greiðsla fyrir störf kæranda í formi launa ekki koma í veg fyrir að litið sé til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra við ákvörðun um starfshlutfall.

Með hliðsjón af því sem fram kemur um tengsl kæranda og vinnuveitanda, fjárhæðar mánaðarlauna og ákvarðana ríkisskattstjóra um lágmarksfjárhæðir reiknaðs endurgjalds á viðmiðunartímabilinu verður ekki við það miðað að kærandi hafi verið í 50-100% launuðu starfi á sex mánaða tímabili fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A , í fæðingarorlofi er staðfest.

 

     

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta