Hoppa yfir valmynd
21. ágúst 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 50/2005 - ofgreiddar bætur vegna dánarbús

A

v/B (dánarbú)


gegn


Tryggingastofnun ríkisins









Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 15. febrúar 2005 kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga endurkröfu Trygginga­stofnunar ríkisins vegna ofgreiddra bóta í dánarbú B sem lést 17. nóvember 2004.


Óskað er endurskoðunar og að skuld verði látin falla niður.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ritaði kæranda bréf þann 8. febrúar 2005 f.h. dánarbús B þar sem segir:


„ Sýslumaður hefur gefið Tryggingastofnun ríkisins upplýsingar um að þú sért/hafir verið forsvarsmaður ofangreinds dánarbús.

Tryggingastofnun hefur endurreiknað fjárhæðir tekjutengdra bóta ársins 2003, eins og mælt er fyrir um í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993.

Bótaréttur ársins 2003 var endurreiknaður á grundvelli upplýsinga um tekjur þess árs samkvæmt skattframtali 2004. Niðurstaða útreikningsins var borin saman við þær bætur sem greiddar voru vegna ársins 2003. Meðfylgjandi er yfirlit yfir niðurstöðu þessa samanburðar, ásamt sundurliðun á þeim tekjum sem hafðar voru til viðmiðunar við endurreikninginn. Niðurstaðan sýnir ofgreiðslu sem nemur -42.893 kr.

Þess er hér með farið á leit að þú, f.h. dánarbúsins, endurgreiðir framangreinda fjárhæð.”


Í rökstuðningi með kæru segir:


„ ég fer fram á að þessi skuld látinnar eiginkonu minnar frá því á árinu 2003 verði látin niður falla því í dag eru aðrar aðstæður og ekki gott að fá svona í bakið mörgum mánuðum seinna þar sem hún hafði fengið endurgreiðslu frá skatti í byrjun ágúst s.l. þar hefði verið hægt að taka þessa upphæð af og þá væri málið úr sögunni, en ég fer fram á að skuldin verði látin falla niður vegna fjárhagslegra erfiðleika eftir lát eiginkonu minnar.”


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 22. febrúar 2005. Barst greinargerð dags. 15. mars 2005. Þar segir:


„ Kærð er endurkrafa ofgreiddra bóta til B, en kröfunni er beint að dánarbúi hennar.

Umrædd ofgreiðsla er að fjárhæð 42.893, en að frádreginni staðgreiðslu nemur krafa Tryggingastofnunar 26.345 kr. Ofgreiðslan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta B vegna ársins 2003.

Í 10. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 (atl.) og reglugerð nr. 939/2003, sbr. breytingarreglugerð nr. 860/2004 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlaga, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Samkvæmt ákvæðum ofangreindra laga og reglugerða skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna lífeyrisþega og eftir atvikum maka hans. Komi í ljós að bætur hafi verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem uppá vantar. Hafi tekjutengdar bætur verið ofgreiddar skal um innheimtu fara skv. 50. gr. atl.

Samkvæmt 2. ml. 1. mgr. 50. gr. atl. og 4. kafla reglugerðarinnar á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum, hafi stofnunin eða umboð hennar ofgreitt bætur samkvæmt lögunum.


Þegar dánarbúum er skipt einkaskiptum undirrita erfingjar yfirlýsingu þess efnis að þeir ábyrgist skuldir búsins in solidum sbr. 28. gr. laga um skipti á dánarbúum ofl. nr. 20/1991. Eftirlifandi maki sem fær leyfi sýslumanns til setu í óskiptu búi ber ábyrgð á skuldum hins látna sem um hans eigin skuldir væri að ræða, sbr. 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962.


Með vísun til ofangreindra lagaákvæða, svo og þess að hvergi er gert ráð fyrir því í almannatryggingalögum eða í framangreindri reglugerð að ofgreiðslukröfur falli niður við andlát lífeyrisþega, telur stofnunin sér skylt að reyna innheimtu á þeirri kröfu sem myndaðist á hendur dánarbúi B í uppgjöri bóta ársins 2003.”


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 18. mars 2005 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.


Úrskurðarnefndin ákvað á fundi sínum 20. apríl 2005 að fresta afgreiðslu málsins og óska frekari upplýsinga Tryggingastofnunar. Í bréfi nefndarinnar til Trygginga­stofnunar dags. 26. apríl 2005 segir:


„ l. Með hliðsjón af því að kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2003 voru felldar niður, er spurt með vísan til jafnræðisreglu, hvort tekin hafi verið afstaða til þess hjá TR hvort sami háttur verði hafður á vegna dánarbúa þeirra sem létust á árinu 2004.

  1. Á hvaða grundvelli byggðist ofangreind niðurfelling ?”


Í svarbréfi Tryggingastofnunar dags. 13. maí 2005 segir:


„ Í síðasta uppgjöri voru gerðar upp bætur ársins 2003. Felldar voru niður kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust það ár, en um er að ræða endurkröfur vegna bótagreiðslna þess árs. Í því uppgjöri voru kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2004 ekki sjálfkrafa felldar niður en kröfur á hendur þeim búum hafa verið felldar niður þegar um eignalaus bú hefur verið að ræða.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um meðferð dánarbúa þeirra sem létust á árinu 2004 í uppgjöri þess árs og telur Tryggingastofnun nauðsynlegt að fá skýra heimild í reglugerð 939/2003 hvað varðar niðurfellingar krafna á hendur dánarbúum. Yrði þannig kveðið á um það að kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust á því ári sem gert er upp yrðu felldar niður. Þetta myndi þýða að kröfur á hendur dánarbúum vegna bótagreiðslna ársins 2004, sem myndast í uppgjöri þess árs, yrðu felldar niður. Mun Tryggingastofnunin senda heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu tillögu að breyttri reglugerð í þá veru.


Niðurfellingar krafna á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2003 byggjast á 1. mgr. 12. gr. fyrrgreindrar reglugerðar og einnig því að verið var að gera uppgjör í fyrsta skipti.”


Viðbótargögn hafa verið kynnt kæranda.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur dánarbúi B sem lést 17. nóvember 2004, vegna ofgreiðslu á tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbótum til hennar árið 2003. Eiginmaður hennar sem er kærandi fer fram á það að skuldin verði látin falla niður vegna fjárhagslegra erfiðleika.


Í rökstuðningi með kæru segir að aðstæður séu allt aðrar nú en árið 2003 þegar ofgreiðslan átti sér stað.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til 10. og 50. gr. laga um almanna­tryggingar þar sem mælt er fyrir um endurkröfu ofgreiddra bóta. Ennfremur 28. gr. laga um skipti á dánarbúum ofl. nr. 20/1991 en samkvæmt þeim ber eftirlifandi maki sem fær leyfi til setu óskiptu búi ábyrgð á skuldum hins látna og 12. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Í greinargerðinni segir að með vísan til þessara lagaákvæða, svo og þess að hvergi sé gert ráð fyrir því í almannatryggingalögum eða reglugerð að ofgreiðslukröfur falli niður við andlát lífeyrisþega, telji stofnunin sér skylt að reyna innheimtu á þeirri kröfu sem myndaðist á hendur dánarbúi í máli þessu.


Ákvæði um tekjutryggingu eru í 17. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar ásamt síðari breytingum. Tekjutrygging lækkar eða hækkar eftir atvikum að teknu tilliti til tekna bótaþega. Orlofs- og desemberuppbætur eru ákveðinn hundraðshluti af bótafjárhæðum og breytast um leið og bætur, til hækkunar eða lækkunar.


Í 50. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, segir í 1. og 2. mgr.:


„ Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.


Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna, sbr. 47. gr.“


Mál þetta varðar endurkröfu sem gerð var árið 2005 vegna ofgreiddra bóta árið 2003, en bótaþegi lést árið 2004. Í 50. gr. almannatryggingalaga er talað um endurkröfurétt á hendur bótaþega. Engin fyrirmæli eru um það í lögum eða reglugerðum hvernig fara skuli með endurkröfur vegna ofgreiddra bóta þegar bótaþegi fellur frá áður en krafa um endurgreiðslu er gerð.


Í svarbréfi Tryggingastofnunar dags. 13. maí 2005 til úrskurðarnefndar almanna­trygginga kemur fram að í síðasta uppgjöri voru gerðar upp bætur ársins 2003. Þá voru felldar niður kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2003. Hins vegar voru kröfur á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2004 og höfðu fengið ofgreiddar bætur á árinu 2003 ekki sjálfkrafa felldar niður, nema bú hafi verið eignalaus.


Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlaga segir:


,, Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.”


Tryggingastofnun byggði niðurfellingu krafna á hendur dánarbúum þeirra sem létust á árinu 2003 á 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 og einnig því að verið var að gera uppgjör í fyrsta skipti, sbr. bréf Tryggingastofnunar dags. 13. maí 2005.


Fyrir liggur að samkvæmt 12. gr. er heimilt að falla frá endurkröfu að hluta eða öllu leyti ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Við mat á því hvort slíkar aðstæður eru fyrir hendi skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega. Tryggingastofnun hefur beitt þessari heimild vegna endurkrafna á dánarbú, sem myndast hafa vegna uppgjörs greiddra bóta árið 2003. Að mati úrskurðarnefndar verður ekki séð að það sé á málefnalegum rökum reist að fella niður endurkröfur vegna ofgreiddra bóta árið 2003 hjá þeim sem létust á árinu 2003 en ekki þeirra sem létust á árinu 2004.


Úrskurðanefndin lítur svo á að í málinu geri kærandi ágreining um rétt Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta.


Samkvæmt 7. gr. laga 117/1993 með síðari breytingum leggur óháð úrskurðarnefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á mál rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta samkvæmt lögunum. Sama gildir um bætur skv. lögum um félagslega aðstoð samkvæmt lögum 118/1993. Um er að ræða lögbundnar greiðslur til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laganna. Greiðslurnar eru bundnar við persónulegan rétt viðkomandi einstaklings. Samkvæmt orðanna hljóðan 50. gr. atl. er kveður á um endurkröfurétt Tryggingastofnunar ríkisins sem stofnast getur við ofgreiðslu er gert ráð fyrir að endurkrafan dragist frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Orðalagið lítur þannig að réttarsambandi Tryggingastofnunar og bótaþegans sjálfs.

Í máli þessu hagar svo til að bótaþegi er látinn áður en endurkröfu er beint að honum og kröfunni beint að dánarbúi hans. Krafa Tryggingastofnunar í málinu lýtur m.ö.o að því að úrskurðanefndin sem er úrskurðaraðili á stjórnsýslustigi kveði á um greiðsluskyldu annars aðila en bótaþega sjálfs gagnvart stofnuninni. Til þess telur úrskurðanefndin sig skorta vald lögum samkvæmt og telur að slík krafa eigi undir almenna dómstóla. Þegar af þessari ástæðu er kröfunni vísað frá.


Ú R S K UR Ð A R O R Ð:


Vísað er frá endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur dánarbúi B vegna ofgreiddra bóta árið 2003.



F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_______________________________

Friðjón Örn Friðjónsson

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta