Hoppa yfir valmynd
2. mars 2018 Utanríkisráðuneytið

Forseti Íslands afhenti prófskírteini í útskrift Sjávarútvegsskólans

Til hamingju 20. útskriftarárgangur! - mynd

Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifaði 21 nemanda í vikunni að viðstöddum Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands sem afhenti prófskírteini og ávarpaði samkomuna. Þetta var 20. árgangur nemenda í skólanum en fyrstu nemendurnir voru brauðskráðir árið 1998. Í meðfylgjandi kvikmyndabroti frá athöfninni er rætt við þrjá nemendur skólans.

Á þessu skólaári tók 21 nemandi þátt í sex-mánaða þjálfunarnámi Sjávarútvegsskólans. Þeir komu frá 15 löndum í Asíu, Afríku, Mið-Ameríku og Karíbahafi. Konur voru að þessu sinni í meirihluta, eða 13 talsins. Átta sérhæfðu sig á sviði matvælaframleiðslu og gæðastjórnunar, sjö á sviði stofnmats og veiðafæratækni og sex á sviði sjálfbærs fiskeldis. Alls hafa 368 nemendur lokið námi frá skólanum frá upphafi.

Formaður stjórnar Sjávarútvegsskólans, Sigurður Guðjónsson, stýrði athöfninni.

Tumi Tómasson forstöðumaður skólans gerði grein fyrir starfseminni og hvernig hún hefur vaxið að umfangi frá því árið 1998, þegar nemendur komu frá aðeins þremur löndum, til dagsins í dag, þegar haldið er úti margbrotnu samstarfi við yfir 50 þróunarlönd. Tumi ræddi einnig þær risastóru áskoranir sem sjávarútvegur á heimsvísu stendur frammi fyrir, meðal annars ofnýtingu auðlinda og spillingu hráefnis. Hann sagði að með hliðsjón af þessu væri ljóst að Sjávarútvegsskólinn hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að styðja Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands ávarpaði þessu næst samkomuna. Hann fór meðal annars yfir það hvernig sjávarútvegur varð að undirstöðuatvinnugrein landsins á síðustu öld. Í gegnum þá reynslu hefði þjóðin öðlast verðmæta þekkingu sem gætir nýst öðrum. „Og það er einmitt af þessum ástæðum sem Sjávarútvegsskólinn er svo mikilvægur,“ sagði hann.

  

Eftir ræðu forsetans kallaði Þór Ásgeirsson aðstoðarforstöðumaður Sjávarútvegsskólans nemendur upp til að taka við brautskráningarskírteinum sínum, sem forsetinn afhenti hverjum og einum. Að því loknu tóku þeir í hönd Sigurðar og Tuma sem óskuðu þeim til hamingju.

Athöfnin endaði með leiftrandi ræðu Romauli Napitupulu frá Indónesíu fyrir hönd útskriftarnema. „Þegar við snúum aftur heim erum við ekki bara nemendur,“ sagði hún „heldur erum við boðberar breytinga í okkar nánasta umhverfi“.

Eftir brautskráningu var efnt til móttöku fyrir gesti í salarkynnum Hafrannsóknastofnunar.

Vefur skólans

  • $alt

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið - mynd
Heimsmarkmið - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta