Hoppa yfir valmynd
14. ágúst 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 426/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. ágúst 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 426/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020071

 

Kæra [...]

á ákvörðun Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 1. apríl 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Rússlands (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 22. febrúar 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.        Málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 13. apríl 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 22. júní 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 22. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 24. febrúar 2023. Hinn 10. mars 2023 barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt skriflegum athugasemdum hans, dags. 24. febrúar 2023. Viðbótarupplýsingar bárust frá kæranda dagana 24. og 28. febrúar og 4. apríl 2023. Frekari upplýsingar og gögn bárust kærunefnd frá kæranda 15. júní og 10. júlí 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu vegna stjórnmálaskoðana sinna og vegna þess að hann hafi ekki sinnt herkvaðningu.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.

Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé rússneskur ríkisborgari, fæddur í borginni Nvomoskovsk í Rússlandi en hafi búið í borginni Elektrogorsk áður en hann hafi flúið landið. Kærandi hafi komið hingað til lands frá Póllandi. Fjölskylda kæranda búi í Rússlandi að undanskyldum eldri bróður sem búi í Bandaríkjunum. Kærandi óttist mjög að verða neyddur til að þátttöku í vopnuðum átökum Rússa við Úkraínumenn. Kærandi vísar til þess að hann hafi lagt fram gögn sem sýni fram á að hann hafi verið kvaddur í herinn og að þau gögn sýni fram á raunverulegar og ítrekaðar tilraunir rússneskra yfirvalda til að kalla kæranda til herskyldu. Kærandi hafi verið á eins konar undanþágu frá herskyldu vegna þess að hann sé með flatan fót. Sú undantekning sé hins vegar ekki altæk heldur hafi hún einungis fært kæranda aftar í röðina. Óumdeilt sé að kærandi sé á herskyldualdri. Þá hafi kærandi lýst andstöðu sinni við ríkjandi stjórnvöld í Rússlandi og sé alfarið á móti stríðinu í Úkraínu. Kærandi hafi ekki sérstaklega haldið skoðunum sínum á lofti, utan eins tilviks árið 2016. Kærandi þori ekki að ganga langt í gagnrýni sinni á stjórnvöld í heimaríki þar sem hann óttist strangar og ómannúðlegar refsingar sem samlandar hans sem hafa tjáð slíkar skoðanir hafi fengið að kynnast.

Kærandi byggir aðalkröfu sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist herkvaðningu í heimaríki. Kærandi vísar til þess að hann hafi flúið heimaríki fyrir tæplega ári síðan og hafi stjórnvöld ítrekað reynt að birta honum herkvaðningu, þá hafi þau spurst fyrir um hann á heimili foreldra hans. Kærandi sé álitinn liðhlaupi og andstæðingur stjórnvalda. Kærandi telur að hann eigi á hættu að verða ofsóttur af stjórnvöldum í heimaríki.

Kærandi byggir varakröfu sína um viðbótarvernd á því að hann verði sendur í fremstu víglínu verði hann sendur aftur til heimaríkis. Einnig eigi hann á hættu pyndingar eða ómannúðlegar og vanvirðandi meðferð í heimaríki þar sem hann hafi neitað að taka þátt í stríðinu. Þá eigi kærandi jafnframt á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka.

Kærandi byggir þrautavarakröfu sína um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á því að hann sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu þar sem hann hafi sýnt andstöðu sína við stjórnvöld í heimaríki með því að yfirgefa landið. Kærandi byggir á því að yfirvöldum í heimaríki sé fullljóst að hann hafi yfirgefið landið og veruleg hætta sé á því að stjórnvöld í landinu geri fordæmi úr kæranda líkt og öðru fólki í hans stöðu sem víti öðrum til varnaðar.

Að lokum er í greinargerð að finna athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar. Gerir kærandi meðal annars athugasemdir við lýsingar stofnunarinnar á ástandinu í Rússlandi. Kærandi bendir á að lagatæknilegar takmarkanir á refsiábyrgð þeirra sem forðist herskyldu eftir réttum leiðum í landinu sé bókstafur einn en yfirvöld hiki ekki við að stinga hverjum manni í fangelsi sem reyni að forðast birtingu ákvörðunar um herkvaðningu. Þá mótmælir kærandi framsetningu Útlendingastofnunar á ástandinu í Rússlandi þess efnis að það séu aðallega blaðamenn, mannréttindafrömuðir og aðgerðarsinnar sem séu útsettari en aðrir þar í landi fyrir saksókn og refsingu. Kærandi heldur því fram að það séu mun fleiri sem megi sæta óréttmætri saksókn og refsingu í landinu enda sé réttarkerfi landsins hrunið fyrir löngu síðan.

Með greinargerð fylgdu með skriflegar athugasemdir kæranda. Í þeim kemur fram að kærandi hafi flúið heimaríki sitt þar sem hann óttist að verða kvaddur í herinn og afleiðingar þess ef hann neiti herkvaðningu. Kærandi óttist að verða settur í fangelsi. Kærandi vísar til þess að ástandið í Rússlandi hafi versnað til muna síðan hann hafi komið til Íslands. Þá vísar kærandi til þess að starfsmenn alríkislögreglu Rússlands (FSB) yfirheyri menn á flugvöllum Rússlands þegar þeir snúi aftur til landsins. Með athugasemdum sínum lagði kærandi fram tengla á fréttatilkynningar á fjórum netfjölmiðlum.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem séu nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Í athugasemdum með 10. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalds um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búi að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Þá kemur fram að rannsóknarreglan tengist mjög náið andmælarétti og oft verði mál ekki nægjanlega upplýst nema aðila hafi verið gefinn kostur á að kynna sér gögn máls, svo og að koma að frekari upplýsingum um málsatvik.

Málsástæður kæranda

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 22. júní 2022 greindi kærandi meðal annars frá því aðspurður um ástæður flótta frá heimaríki að hann hafi verið í námi í borginni Tula í heimaríki en flutt sumarið 2021 til borgarinnar Elektrogorsk. Eftir flutninginn hafi kærandi byrjað að fá boðanir frá stjórnvöldum og hafi ástæðan verið að kanna heilsufarsástand hans aftur. Kærandi hafi svo yfirgefið landið í byrjun mars 2022 þegar faðir hans hafi, í gegnum starf sitt í febrúar sama ár, orðið vitni af samskiptum um að undirbúningur innrásar Rússlands í Úkraínu hafi verið í gangi. Kærandi kvaðst óttast að verða sendur til Úkraínu. Þá kvað kærandi að herkvaðning hafi borist á lögheimili hans eftir hann hafi verið búinn að vera tvær vikur í Póllandi. Kærandi kvað að áður en hann hafi flutt til Elektrogorsk hafi hann verið á undanþágu frá herskyldu vegna heilsufarsástands hans en kærandi sé með greiningu um flata fætur á fjórða stigi. Kærandi kvaðst óttast að verða dæmdur til fangelsisvistar í heimaríki eða verða sendur til að taka þátt í átökunum í Úkraínu.

Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í kafla er ber heitið Mat á trúverðugleika í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur meðal annars fram að samkvæmt rússneskum hegningarlögum sé refsivert að mæta ekki til herþjónustu á grundvelli herkvaðningar. Í 1. mgr. 328. gr. laganna sé kveðið á um að þeir sem komi sér undan herskyldu eigi yfir höfði sér sektir allt að 200 þúsund rúblum, að laun þeirra verði gerð upptæk í 18 mánuði, þeim verði gert að fullnusta refsingu með samfélagsþjónustu í tvö ár eða fangelsisrefsingu í allt að tvö ár. Þá skuli afhenda boð um herþjónustu til hins herkvadda og ef boðun sé sett í póstkassa eða afhent skyldmennum sé litið svo á að boðunin sé ólögmæt. Vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt heimildum í skýrslu dönsku útlendingastofnunarinnar frá desember 2022 hafi það ekki lagalegar afleiðingar fyrir einstakling hafi hann yfirgefið Rússland án þess að hafa fengið herkvaðningu afhenta persónulega. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt heimildum í fyrrgreindri skýrslu hafi frá upphafi herkvaðningar í september 2022 rúmlega 400 sakamál verið höfðuð í Rússlandi á hendur einstaklingum sem hafi komið sér undan herkvaðningu. Þá er í kaflanum fjallað um undanþágur frá herþjónustu í Rússlandi. Er meðal annars vísað til þess að samkvæmt 3. mgr. 59. gr. rússnesku stjórnarskrárinnar hafi herskyldir borgarar rétt á að gegna samfélagsþjónustu í stað herþjónustu ef viðkomandi sé mótfallinn herþjónustu af trúarlegum ástæðum eða vegna lífsskoðana sinna.

Útlendingastofnun vísaði til þess að kærandi hafi lagt fram ýmis gögn til staðfestingar á því að hafa verið kallaður til herskyldu, þ. á m. ljósmynd af boðun til læknisskoðunar vegna herskyldu, dags. 15. apríl 2022, og ljósmynd af herkvaðningu í rússneska herinn, dags. 25. október 2022. Útlendingastofnun tók fram að þrátt fyrir að kærandi hefði ekki lagt fram frumrit af gögnum um að hafa verið boðaður til herþjónustu þá teldi stofnunin ekki ástæðu til að efast um það í ljósi hinnar sérstöku herkvaðningar haustið 2022 og að hann væri á herskyldualdri. Það var mat Útlendingastofnunar að þar sem herkvaðningin hefði verið afhent foreldrum hans og hann því ekki undirritað hana þá væri ekki unnt að leggja til grundvallar að hans biði fangelsisrefsing fyrir að koma sér undan herskyldu. Við úrlausn málsins byggði Útlendingastofnun á því að kærandi væri rússneskur og að hann hefði fengið boð um að mæta til herþjónustu.

Í niðurstöðukafla í ákvörðun Útlendingastofnunar um alþjóðlega vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga kemur fram að það sé mat stofnunarinnar með hliðsjón af félagslegri stöðu kæranda, þ.e. að hann væri í hópi einstaklinga sem kvaddir hafi verið í rússneska herinn. Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að samkvæmt leiðbeiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna nr. 10 (e. Guidelines on international protection no. 10: Claims to Refugee Status related to Military Service) gæti sú háttsemi að neita að gegna herþjónustu verið túlkuð sem tjáning um pólitískar skoðanir. Var það mat Útlendingastofnunar að ótti kæranda við að vera kvaddur í herinn tengdist annars vegar stjórnmálaskoðunum hans og hins vegar að hann tilheyrði sérstökum þjóðfélagshópi.

Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt framangreindum leiðbeiningum Flóttamannastofnunar væri ríkjum heimilt að skylda ríkisborgara sína til að gegna herþjónustu og þá væri þeim heimilt að refsa þeim sem kæmu sér undan því að gegna herþjónustu án gildra samviskuástæðna að því gefnu að slíkar refsingar fylgdu alþjóðlegum stöðlum. Þá segði í leiðbeiningunum að í þeim tilvikum þar sem einstaklingur neitaði að gegna herþjónustu vegna þess að hann væri mótfallinn framgöngu stríðsaðila væri nauðsynlegt að leggja mat á það hvort líklegt væri að viðkomandi yrði gert að taka þátt í háttsemi sem bryti í bága við alþjóðalög. Þá reifaði Útlendingastofnun umfjöllun í handbók Flóttamannastofnunar um réttarstöðu flóttamanna þegar til skoðunar eru tilvik einstaklinga sem koma sér undan herþjónustu eða gerast liðhlaupar.

Útlendingastofnun tók fram að kærandi hefði verið spurður að því viðtali hvort aðrar ástæður væru fyrir því að hann vildi ekki gegna herþjónustu, svo sem trúarlegar, en hann hefði greint frá því að vera trúleysingi. Útlendingastofnun taldi að virtum framburði kæranda að hann hefði ekki lýst fastmótuðum eða einlægum skoðunum þess efnis að hann væri mótfallinn hverskyns stríðsrekstri eða að bera vopn. Því yrði ekki talið að kærandi vildi ekki gegna herskyldu í Rússlandi á grundvelli samviskuástæðna sbr. 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu (sem kveður á um rétt manna til að vera frjálsa vegna hugsana sinna, samvisku og trúar).

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að með vísan í þær landaupplýsingar sem stofnunin hefði kynnt sér um stöðu mála í Rússlandi gæti sú refsing sem kærandi ætti yfir höfði sér, fyrir að hafa komið sér undan herskyldu, hvorki talist til „harðra viðurlaga“ í skilningi handbókar Flóttamannastofnunar né gæti refsingin talist „óhófleg eða að hún myndi mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli“, sbr. c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat Útlendingastofnunar að ákvæði rússneskra laga nr. 53/1998 um herskyldu og herþjónustu sem kvæðu á um viðurlög við að verða ekki við boði um að mæta til herþjónustu, væru ekki ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum.

Þá vísaði Útlendingastofnun til þess að kærandi hefði áður fengið undanþágu frá því að gegna herþjónustu í heimaríki á grundvelli þess að hann hefði verið greindur með flata fætur á fjórða stigi. Útlendingastofnun taldi ekkert benda til annars en að hann hlyti áfram undanþágu frá herskyldu á grundvelli „sjúkdóms síns“ þar sem undanþáguheimildir frá herskyldu væru í rússneskum lögum. Þá tryggði 3. mgr. 59. gr. rússnesku stjórnarskrárinnar borgurum landsins rétt til að gegna samfélagsþjónustu í stað herþjónustu. Að teknu tilliti til heildstæðs og einstaklingsbundins mats á aðstæðum kæranda og leiðbeininga Flóttamannastofnunar var það niðurstaða Útlendingastofnunar að ótti kæranda teldist ekki ástæðuríkur og hann ætti ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað yrði til ofsókna í heimaríki sínu.

Leiðbeiningar Flóttamannastofnunar nr. 10

Í leiðbeiningunum kemur fram að ríki hafi rétt til sjálfsvarnar bæði samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna og þjóðaréttarvenjum. Þá sé ríkjum heimilt að krefjast þess að borgarar gegni herþjónustu í hernaðarlegum tilgangi; og að það brjóti í sjálfu sér ekki rétt einstaklings. Jafnframt geti ríki beitt viðurlögum á einstaklinga sem gerast liðhlaupar eða forðist herþjónustu að því tilskildu að slík viðurlög séu í samræmi við alþjóðlega staðla. Þá er í leiðbeiningunum fjallað um hvað jafngildi rökstuddum ótta við að vera ofsóttur. Fari það eftir sérstökum aðstæðum málsins, þar á meðal bakgrunni umsækjanda, prófíl og reynslu sem skoðuð sé í ljósi uppfærðra landaupplýsinga. Mikilvægt sé að taka tillit til persónulegrar upplifunar umsækjanda, sem og reynslu annarra í svipaðri stöðu, þar sem slíkt geti vel sýnt fram á að líkur séu á að sá skaði sem umsækjandi óttast verði að veruleika fyrr eða síðar. Fyrst þurfi að skoða hverjar afleiðingar yrðu fyrir umsækjanda yrði hann endursendur til heimaríkis. Þá yrði að skoða hvort líklegar afleiðingar næðu því alvarleikastigi að teljast ofsóknir. Þá segir í leiðbeiningunum að við mat á hættu á ofsóknum sé mikilvægt að taka ekki aðeins tillit til beinna afleiðinga þess að einstaklingur neiti að gegna herþjónustu (til dæmis saksókn og refsingu), heldur einnig allra neikvæðra óbeinna afleiðinga. Slíkar óbeinar afleiðingar geti stafað af aðilum utan hersins og utan ríkis, til dæmis með líkamlegu ofbeldi, alvarlegri mismunun og/eða áreitni af hálfu samfélagsins. Aðrar gerðir refsinga geti einnig komið fram við aðrar aðstæður, svo sem banni við að eiga land eða fasteignir, banni við innritun í skóla eða háskóla eða aðgangi að félagslegri þjónustu. Slíkar refsingar geti jafnast á við ofsóknir ef þær eru nægilega alvarlegar í sjálfu sér eða ef þær myndu samansafnað hafa í för með sér alvarlegar takmarkanir á að viðkomandi einstaklingur njóti grundvallarmannréttinda.

Líkt og að framan er rakið vísar Útlendingastofnun til þess að samkvæmt heimildum séu viðurlög við því að koma sér undan herskyldu í Rússlandi, s.s. sektir, vinnuskylda eða fangelsi allt að tvö ár. Það var mat Útlendingastofnunar að þar sem umrædd herkvaðning hefði ekki verið afhent kæranda persónulega væri ekki unnt að leggja til grundvallar að hans biði fangelsisrefsing fyrir að koma sér undan herskyldu. Niðurstaða Útlendingastofnunar var því sú, líkt og að framan er rakið, að sú refsing sem kærandi ætti yfir höfði sér fyrir að hafa komið sér undan herskyldu gæti hvorki talist til harðra viðurlaga eða teldist óhófleg eða myndi mismuna honum á ómálefnalegum grundvelli. Þar að auki lagði Útlendingastofnun til grundvallar að kærandi geti fengið undanþágu frá því að gegna herþjónustu í Rússlandi á grundvelli heilsufarsástæðna. Taldi Útlendingastofnun að ekkert benti til annars en að kærandi hlyti áfram undanþágu vegna heilsufarsástands síns enda væru undanþáguheimildir frá herskyldu vegna sjúkdóma í rússneskum lögum.

Niðurstaða Útlendingastofnunar og skoðun á aðstæðum í Rússlandi fyrir einstaklinga sem koma sér undan því að gegna herþjónustu byggir að verulegu leyti á heimildum um aðstæður í ríkinu í hefðbundnu árferði, þ.e. áður en Rússland réðst inn í Úkraínu. Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu er þó ljóst að ýmislegt hefur breyst í tengslum við hverkvaðningu og herskyldu í landinu. Til að mynda voru sett lög um sérstaka herkvaðningu í september 2022 sem enn eru í gildi. Heimildir um stöðuna í Rússlandi, m.a. heimildir sem Útlendingastofnun byggir sjálf á í ákvörðun sinni, gefa til kynna að rússnesk stjórnvöld hafi eflt aðgerðir til þess að fá unga menn til að sinna herskyldu sinni, t.a.m. með rafrænum herkvaðningum, hækkun hámarksaldurs þeirra sem mega sinna herþjónustu og takmörkun á undanþágum frá því að sinna herþjónustu eða sinna annars konar samfélagsþjónustu. Jafnframt gefi heimildir um stöðu mála í Rússlandi til kynna að aðgerðir rússneskra stjórnvalda hafi harðnað gagnvart liðhlaupum og þeim sem sinni ekki herkvaðningu og komi sér hjá herþjónustu. Ennfremur voru í júlí 2023 samþykktar breytingar á herlögum sem leggi bann við því að einstaklingar á herskyldualdri yfirgefið landið. Er því ljóst að staða manna á herskyldualdri í Rússlandi í dag er ekki sú sama og hún var fyrir innrásina. Í það minnsta þurfi að skoða með ítarlegri hætti en gert var við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun hvaða aðstæður bíði hans við endurkomu til heimaríkis. Jafnframt hafi verið tilefni til að skoða með ítarlegri hætti hver staða einstaklinga sem synjað sé um undanþágu frá herþjónustu sé, til að mynda hvort viðkomandi hafi í raun kost á því að leita réttar síns til að fá slíka ákvörðun endurskoðaða.

Að mati kærunefndar voru aðstæður kæranda snúi hann aftur til heimaríkis ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti af Útlendingastofnun og skortir á frekari rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar fyrir þeirri staðhæfingu stofnunarinnar að kæranda bíði ekki fangelsisrefsing. Eins og áður greinir kom fram í ákvörðuninni að refsiramminn við því að koma sér undan herskyldu sé meðal annars fangelsisvist í allt að tvö ár. Þá er það mat kærunefndar að í ljósi þess að viðurlög við að neita eða koma sér undan herþjónustu sé meðal annars fangelsisrefsing þá hafi verið tilefni til að fjalla um aðstæður í rússneskum fangelsum og meta hvort þær aðstæður væru með þeim hætti að þær gætu talist til ofsókna í skilningi 1. mgr. 37. gr., sbr.c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Engin slík umfjöllun var í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda.

Hvað varðar þá niðurstöðu Útlendingastofnunar að ekkert bendi til annars en að kærandi hljóti áfram undanþágu frá herskyldu á grundvelli heilsufarsástands síns þá er það mat kærunefndar að sú niðurstaða sé eingöngu byggð á getgátum. Eins og fram hefur komið lagði kærandi fram ljósmynd af boðun stjórnvalda í heimaríki í læknisskoðun vegna herskyldu og verður ekki annað ráðið af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin leggi framangreint skjal til grundvallar. Af þeirri boðun má draga þá ályktun að stjórnvöld í Rússlandi hafi séð ástæðu til að kalla kæranda til að mæta á herkvaðningarstöð og endurmeta hæfi hans til að gegna herþjónustu. Í ljósi heimilda um að aukning hafi verið á því að einstaklingar í sömu stöðu og kærandi hafi verið gert að sinna herþjónustu og jafnvel verið sendir beint á vígvöllinn áður en þeim hafi gefist tóm til þess að mótmæla synjun um undanþágu var fullt tilefni fyrir Útlendingastofnun að rannsaka betur möguleika kæranda til þess að komast hjá því að sinna herskyldu og jafnvel gefa kæranda færi á því að koma að andmælum eða frekari gögnum vegna framangreindrar málsástæðu.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar er ljóst að málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunarinnar í máli kæranda var ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, einkum 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur framangreinda annmarka Útlendingastofnunar verulega og að þeir kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðu máls kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka málið til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s case.

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

Sindri M. Stephensen                                                                   Þorbjörg I. Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta