Nr. 19/2024 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 9. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 19/2024
í stjórnsýslumáli nr. KNU23050018
Kæra […]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 3. maí 2023 kærði […], fd. […], ríkisborgari Venesúela og Sýrlands (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 28. apríl 2023, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að honum verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 28. september 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 2. nóvember 2022 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 28. apríl 2023, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Kæranda var jafnframt brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála 3. maí 2023. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum 17. maí 2023. Með tölvubréfi 5. júní 2023 bárust frekari upplýsingar frá kæranda.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna almenns ástands þar í landi og hafi ekki getað leitað eftir aðstoð eða vernd. Kærandi hafi engin tengsl við Venesúela. Fjölskylda hans hafi ekki ríkisfang þar í landi og eigi því ekki rétt á þjónustu þar.
Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi væri ekki flóttamaður og honum skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
Kæranda var brottvísað frá landinu og honum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Kæranda var veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið. Fram kom að yfirgæfi kærandi landið sjálfviljugur innan frestsins yrði endurkomubannið fellt niður.
Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hann sé fæddur í Venesúela og hafi búið þar til átta ára aldurs þegar hann hafi flutt til Sýrlands með foreldrum sínum. Í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunnar kemur fram að kærandi hafi einnig búið í Venesúela árin 2002-2011. Hann hafi búið í Sýrlandi síðan árið 2011. Hann hafi verið búsettur í Sweida í Sýrlandi þegar hann hafi flúið til Íslands. Kærandi greindi frá því að eiga eiginkonu og tvö börn í Sýrlandi. Þau séu sýrlensk, hafi ekki ríkisborgararétt í Venesúela og hafi aldrei búið þar. Kærandi kvaðst ekki hafa nein tengsl við Venesúela lengur.
Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við að ákvörðun Útlendingastofnunnar byggist alfarið á aðstæðum í Venesúela og telur að ákvörðun í máli hans hafi átt að byggja á aðstæðum hans í Sýrlandi. Kærandi telji Venesúela ekki heimaríki sitt og telur útilokað að hann og fjölskylda hans geti leitað verndar eða aðstoðar þar í landi. Þá sé fjölskylda kæranda alfarið sýrlensk og eigi engin réttindi í Venesúela. Kærandi greindi frá því að vera hluti af minnihlutahópi í Sýrlandi þar sem hann aðhyllist kristna trú. Kærandi gerir athugasemdir við að ekki hafi verið fjallað um framangreinda málsástæðu í ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi gerir einnig athugasemdir við að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið fjallað um að fjölskyldumeðlimir hans séu eingöngu sýrlenskir ríkisborgarar og geti ekki fengið aðstoð og vernd í Venesúela.
Kærandi hafi flúið frá Sýrlandi 26. september 2022 vegna stríðsástands þar í landi og vegna persónulegs atviks sem hafi gerst stuttu áður. Einstaklingur hafi komið í skóla barna hans, sem séu 5 og 7 ára, með sprengju. Hann hafi hótað að sprengja upp skólann en tilviljun hafi ráðið því að það hafi ekki gengið eftir. Kærandi telji sér ófært að búa áfram í Sýrlandi vegna ástandsins þar. Hann hafi búið við stöðugar loftárásir og almennt stríðsástand þar í langan tíma. Í Sýrlandi hafi verið mikið um gengi eða hópa einstaklinga sem ekki hafi verið hægt að fá vernd fyrir. Kærandi hafi óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar þar vegna stríðaástandsins og þessara gengja. Kærandi hafi sérstaklega óttast að börnum hans yrði rænt eða þau drepin.
Kærandi vísar til greinargerðar til Útlendingastofnunnar varðandi aðstæður í Venesúela sem hann telur vera með öllu óviðunandi. Í greinargerð vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 273/2022, skýrslna sem úrskurðurinn byggir á og lýsingu nefndar er varðar ástandið í Venesúela.
Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamaður hér á landi skv. 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna vegna aðstæðna sinna og fjölskyldu sinnar í Sýrlandi með vísan til framangreinds. Kærandi og fjölskylda hans geti ekki fært sér í nyt vernd stjórnvalda í Sýrlandi og Venesúela þar sem stjórnvöld þar séu ófær um að vernda íbúa landanna.
Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda krefst hann þess til vara að honum verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna vegna alvarlegs stríðsástands í Sýrlandi. Kærandi eigi á hættu að sæta dauðarefsingu eða annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa aftur til Venesúela eða Sýrlands. Einnig eigi hann á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði honum gert að snúa til Venesúela eða Sýrlands. Þá sé öryggisástand á heimaslóðum kæranda í Sýrlandi mjög ótryggt, m.a. vegna sjálfsvígsárása, vopnaðra árása og handahófkenndra morða af hálfu hryðjuverkasamtaka, auk þess sem stjórnvöld séu vanmáttug til að tryggja borgurum vernd gegn árásum aðila ótengdum stjórnvöldum.
Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sérstaklega í ljósi fjölskylduaðstæðna hans. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Gróf mannréttindabrot viðgangist í Sýrlandi. Kærandi og fjölskylda hans eigi á hættu ofsóknir og illa og vanvirðandi meðferð verði honum gert að snúa þangað aftur. Þá telur kærandi að hann eigi ekki kost á að fara til Venesúela vegna þess ástands sem ríkir þar.
Kærandi telur að með því að senda hann aftur til Venesúela yrði brotið gegn meginreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kunni að vera í hættu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna enda myndi hann þá vera aðskilinn frá fjölskyldu sinni.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Í ákvörðun Útlendingastofnunnar í máli kæranda kemur fram að hann hafi bæði sýrlenskan og venesúelskan ríkisborgararétt. Bæði Sýrland og Venesúela teljist því heimaríki kæranda, sbr. 2. málsl. 2. tölul. A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Taldi Útlendingastofnun, eins og aðstæðum var háttað í máli kæranda, aðeins þörf á að fjalla um aðstæður kæranda í Venesúela, sbr. m.a. 2. málsl. 2. tölul. A-liðar 1. gr. flóttamannasamningsins. Kærunefnd gerir ekki athugasemd við þá niðurstöðu Útlendingastofnunnar að venesúelskt ríkisfang kæranda hafi verið lagt til grundvallar við úrlausn málsins.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hann hafi fæðst í Venesúela og búið þar til átta ára aldurs eða þar til hann hafi flutt til Sýrlands. Ljóst er af endurriti viðtals Útlendingastofnunnar að kærandi hafi eingöngu verið spurður út í aðstæður hans í Sýrlandi. Kærandi var hvorki spurður út í aðstæður hans í Venesúela þegar hann bjó þar né út í væntanlegar aðstæður hans ef honum yrði gert að snúa aftur til Venesúela. Að mati kærunefndar teljast því einstaklingsbundnar aðstæður kæranda að því er varðar aðstæður hans í Venesúela ekki upplýstar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Ákvörðun og gögn Útlendingastofunnar í máli kæranda bera ekki með sér að fram hafi farið viðhlítandi mat á aðstæðum kæranda á lægra stjórnsýslustigi. Voru því annmarkar á rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda. Málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli kæranda er, með vísan til framangreinds, að mati kærunefndar enn fremur ekki í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar, m.a. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga.
Framangreindir annmarkar á málsmeðferð Útlendingastofnunar eru verulegir og kunna að hafa haft áhrif á efnislega niðurstöðu máls kæranda. Þá er það mat kærunefndar að ekki sé unnt að bæta úr þeim á kærustigi og því sé rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvörðunar Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.
The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.
Þorsteinn Gunnarsson
Valgerður María Sigurðardóttir Þorbjörg I. Jónsdóttir