Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2018 Utanríkisráðuneytið

Fimmtíu milljónum einstaklinga forðað frá sárafátækt

Forsíðumynd skýrslunnar/ Ljósmynd: Alþjóðabankinn - mynd

Um fimmtíu milljónum einstaklinga hefur fyrir tilstuðlan félagslegra velferðarkerfa verið forðað frá sárafátækt, segir í nýrri skýrslu Alþjóðabankans, The State of Social Safety Nets 2018. Úrræði í slíkum félagslegum öryggisnetum geta verið allt frá lífeyrisgreiðslum til matargjafa.

Þótt slíkum úrræðum hafi fjölgað til muna á síðustu árum ná þau aðeins til 2,5 milljarða manna á heimsvísu, „þrátt fyrir verulegt framlag þeirra til að binda enda á örbirgð,“ eins og segir í frétt Alþjóðabankans. Þar er haft eftir Michael Rutkowski, framkvæmdastjóra á þessu sviði innan bankans, að félagsleg velferðarúrræði skipti máli í baráttunni við fátækt og ójöfnuð. Annar starfsmaður bankans, Annette Dixon, segir að án slíkra úrræðna verði fátækt fólk enn fátækara verði það fyrir áföllum og neyðist þá að selja eigur sínar eða auka skuldir.

Fyrsta Heimsmarkmiðið felur í sér að útrýma sárri fátækt alls staðar fyrir árið 2030 en Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun tóku gildi í ársbyrjun 2016. Frá árinu 1990 hefur sárafátækum fækkað um rúmlega helming og teljast nú vera um 770 milljónir – eða einn af hverjum tíu í heiminum. Þar er viðmiðunarmörkin 1,90 bandarískir dalir.

Mestu útgjöld til félagslegra velferðarkerfa hafa verið í Evrópu og Mið-Asíu en lægst í Afríku og Suður-Asíu, miðað við hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu í þeim löndum sem rannsókn Alþjóðabankans náði til. Að mati fulltrúa bankans ná slík úrræði til of fárra einstaklinga í hópi fátækra og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. Aðeins einn af hverjum fimm einstaklingum í lágtekjuríkjum nýtur slíkra úrræða.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

10. Aukinn jöfnuður
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta