Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Yfir 7 milljarðar greiddir í tekjufallsstyrki

Yfir 7 milljarðar hafa verið greiddir í tekjufallsstyrki til 1.215 rekstraraðila frá því að afgreiðsla umsókna hófst hjá Skattinum um miðjan janúar. Um 67% fjárhæðanna hafa farið til fyrirtækja í ferðaþjónustu, sem er svipað hlutfall og í öðrum úrræðum sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar í tugmilljarða stuðningi við fólk og fyrirtæki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Tekjufallsstyrkir nýtast fjölmörgum rekstraraðilum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli í heimsfaraldrinum og er markmiðið að styðja þau fyrirtæki og einyrkja þar sem tekjufall er meira en 40%. Hægt er að sækja um styrkina til 1. maí nk.

Meðalfjárhæð tekjufallsstyrks nemur 5,9 millj.kr. en tæplega 2/3 rekstraraðila eru undir meðalfjárhæðinni. Langflestir sem hlotið hafa tekjufallsstyrk eru lögaðilar, eða fimm af hverjum sex en aðrir eru einstaklingar.

 

Úrræðið hefur nýst 689 rekstraraðilum sem teljast starfa í ferðaþjónustu og hafa þeir fengið greidda 4,8 ma.kr. í tekjufallsstyrki eða 67% af útgreiddum styrkjum. Ríflega eitt hundrað rekstraraðilar hafa fengið hámarksfjárhæð styrksins, sem er 17,5 millj.kr.-, og er mikill meirihluti þeirra starfandi í ferðaþjónustu eða 83%. Hæstar fjárhæðir hafa runnið til gististaða (1,5 ma.kr.), ferðaskipuleggjenda (1,3 ma.kr.) og veitingahúsa (1,2 ma.kr.).

 

Útlit er fyrir að 5% af heildarfjárhæð tekjufallstyrkja hafi farið til rekstraraðila í menningargreinum eða um 300 millj.kr.

 

Þúsundir nýtt á annan tug úrræða

Í vikunni opnaði Skatturinn fyrir umsóknir um lokunarstyrki sem veittir eru vegna stöðvunar á starfsemi fyrir tímabilið 18. nóvember til og með 31. desember 2020. Síðustu mánuði hafa á fjórða þúsund rekstraraðilar og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán, gjaldfresti og annan stuðning.

Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja sem nýttu sér úrræði stjórnvalda vegna faraldursins árið 2020 voru með tíu launamenn eða færri. Þannig voru þau um 82% þeirra sem nýttu úrræðin, alls rúmlega 2.500 fyrirtæki. Markmið stuðnings við fyrirtæki er að verja störf eins og kostur er auk þess að skapa öfluga viðspyrnu þegar faraldrinum sleppir.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta