Margs konar ávinningur með vistakstri
Vistakstur á ekki að vera fylgiskjal eða viðhengi í umræðunni um umhverfismál eins og hann hefur verið til þessa, hann á að vera aðalatriðið. Með vistakstri skapast ný viðhorf og ný umferðarmenning og hann hefur bæði einstaklingsbundinn og þjóðfélagslegan ávinning í för með sér.
Þetta er í stuttu máli kjarninn í umræðu um vistakstur og kosti hans sem kom fram á ráðstefnu alþjóðasamtakanna International Transport Forum sem fram fór í París í síðustu viku. Vistakstur snýst um að aka mjúklega, nýta hreyfiorku bílsins og gera sem minnst af því að gefa í og hemla snögglega. Með þessu verður akstur afslappaðri, eldsneyti sparast og útblástur mengandi efna minnkar. Einnig er bent á að með þeirri hugarfarsbreytingu sem vistakstur krefst dragi úr umferðarslysum.
Sett fram markmið
Síðustu 10-15 árin hefur vistakstur verið í umræðu í mörgum löndum Evrópu og á allra síðustu árum hafa níu lönd innan Evrópusambandsins tekið upp eða hafið undirbúning verkefna til að kynna vistakstur. Opinberir aðilar, svo sem ráðuneyti, vegagerðir eða umferðaröryggisráð, hafa haft frumkvæðið og hóað saman ýmsum aðilum sem lagt geta lið og síðan hrundið verkefnum af stað. Sett eru fram markmið um hversu mikið væri unnt að draga úr útblæstri á tilteknum tíma með því að bæði almennir bílstjórar og atvinnubílstjórar temji sér siði vistaksturs.
Þar sem næst að gera vistakstur verulega útbreiddan er talið að draga megi umtalsvert úr losun mengandi efna frá umferðinni. Þótt það sé aðeins hluti af útblæstri frá samgöngum er bent á að slíkur árangur skipti máli, margt smátt geri eitt stórt, og áfram er lögð áhersla á að leitað sé leiða til að nýta aðra orkugjafa í umferð og samgöngum.
Tíundi hver tankur ókeypis
Ríki í Evrópu sem hafa tekið vistakstur föstum tökum eru Holland, sem er einna lengst komið á þessu sviði, Bretland, Finnland, Austurríki, Grikkland, Belgía, Pólland, Tékkland og Frakkland. Er stefnt að því marki að um 2,5 milljónir ökumanna í þessum löndum muni hafa tamið sér aðferðir vistaksturs árið 2008.
Misjafnt er meðal þessara landa hver fyrstu skrefin hafa verið. Sum hafa boðið sveitarfélögum sem reka almenningssamgöngur að kosta bílstjóra þeirra á vistakstursnámskeið og jafnframt stutt fyrirtæki sem reka stóra bílaflota til að taka upp vistakstur. Í öðrum ríkjum hefur vistakstur verið tekinn upp í almenna ökukennslu en alls staðar er talið nauðsynlegt að bílstjórar sæki námskeið, bóklegt og verklegt, til að temja sér þessa aðferðafræði. Kennsla er í höndum ökukennara en þeir hafa til dæmis boðið slík námskeið hérlendis.
Þá er einnig misjafnt hvaða kostum vistaksturs er haldið stífast fram. Sums staðar horfa menn einkum til minni útblásturs og höfða til ábyrgðar og þess framlags sem allir bílstjórar geta lagt til í umhverfismálunum. Annars staðar situr hinn fjárhagslegi ávinningur í fyrirrúmi, bent á að 10 til 15% eldsneytissparnaður náist með vistakstri og hamarað á því að tíundi hver tankur sé því ókeypis.
Kringum 80 manns sátu ráðstefnuna í París og sögðu fulltrúar margra ríkja þar að heima fyrir væri á dagskrá að tala fyrir vistakstri. Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur bent á ágæti þeirrar hugmyndafræði sem vistakstur hefur í för með sér. Þannig geti ökumenn lagt sitt að mörkum til að bæta umhverið. Um leið benti hann á hinn fjárhagslega ávinning og um leið hvernig breytt hegðan hljóti að leiða til aukins umferðaröryggis.
Um 80 manns, flestir frá Evrópulöndum, sátu í síðustu viku ráðstefnu um vistakstur í París. | |||