Rekstur Sundabúðar og heimahjúkrunar í Vopnafirði í hendur heimamanna
Vopnafjarðarhreppur tekur að sér rekstur hjúkrunarheimilisins Sundabúðar og þjónustu heimahjúkrunar við íbúa sveitarfélagsins samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í dag milli sveitarfélagsins annars vegar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands og velferðarráðuneytisins hins vegar.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Þorsteinn Steinsson sveitarstjóri og Þórhallur Harðarson, settur forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands undirrituðu samkomulagið í Sundabúð í Vopnafirði í dag. Ráðherra sagði við þetta tilefni að samkomulagið undirstrikaði viljann til þess að efla þjónustu í heimabyggð og auka verkefni sveitarfélaganna. „Þetta verkefni er án efa til hagsbóta fyrir íbúa sveitarfélagsins og rennir stoðum undir fyrirhugaðan flutning þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga sem að er stefnt.“
Á hjúkrunarheimilinu Sundabúð eru 11 hjúkrunarrými og er markmiðið með rekstri heimilisins að skapa fólki heimili sem er af heilsufarsástæðum ófært um að búa áfram á eigin heimili, þrátt fyrir félagslegan stuðning og heimahjúkrun. Með samkomulaginu er einu þessara rýma breytt í sjúkra- og endurhæfingarrými til þess að íbúar á svæðinu geti fengið slíka þjónustu í heimabyggð þegar á þarf að halda. Yfirfærsla á ábyrgð heimahjúkrunar til sveitarfélagsins er sömuleiðis ætluð til þess að styrkja þjónustu í heimabyggð. Heimahjúkrunin verður efld og áhersla lögð á að samþætta hana félagslegri þjónustu sveitarfélagsins. Samhliða yfirtöku Vopnafjarðarhrepps á hjúkrunarheimilinu afhendir ríkið sveitarfélaginu öll tæki og búnað sem þar eru fyrir hendi án endurgjalds.
Starfsmenn hjúkrunarheimilisins voru áður starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands en í samkomulaginu felst að þeir verða nú starfsmenn sveitarfélagsins.
Samningurinn er til tveggja ára með möguleika á endurnýjun. Fjármunir sem Vopnafjarðarhreppur fær til að annast þessa þjónustu nemur samtals 210 milljónum króna á samningstímanum.