Rangar staðhæfingar í undirskriftalista gegn nýju lyfjagreiðsluþátttökukerfi
Í undirskriftalista þar sem skorað er á velferðarráðherra að hætta við fyrirhugaðar breytingar á greiðsluþátttöku vegna lyfjakostnaðar eru ýmsar rangar staðhæfingar sem ráðuneytið telur skylt að leiðrétta. Fólk er hvatt til að kynna sér staðreyndir málsins.
Meginmarkmið þeirra breytinga sem verða 4. maí er að innleiða einfaldara og réttlátara kerfi en nú gildir, auka jöfnuð, hætta að mismuna sjúklingum eftir sjúkdómum og verja þá sem mest þurfa á lyfjum að halda fyrir miklum kostnaði. Þeir sem lítið nota af lyfjum munu þurfa að borga meira en áður. Hinir sem þurfa lyf að staðaldri eða nota mjög dýr lyf munu hinsvegar greiða minna en þeir hafa gert hingað til. Öryrkjar, aldraðir, börn og barnafjölskyldur eru varin fyrir háum greiðslum öðrum fremur.
Staðhæfingar í áskoruninni til velferðarráðherra gefa alranga mynd af nýju kerfi og fullyrðingar sem þar koma fram eru beinlínis rangar. Velferðarráðuneytinu er bæði rétt og skylt að leiðrétta rangfærslurnar en bendir jafnframt á að áskorunin er marklaus þar sem ráðherrar hafa ekki vald til að fella úr gildi lög frá Alþingi.
Í fyrsta lagi segir í áskoruninni að breytingin komi verst niður á þeim 30.000 einstaklingum sem í núgildandi kerfi fá lyf sín niðurgreidd að fullu.
Svar: Það er rangt að 30.000 einstaklingar fái öll sín lyf niðurgreidd að fullu. Rétt er að um 30.000 einstaklingar fá tiltekin lyf niðurgreidd. Margir í þessum hópi fá eitt lyf að fullu niðurgreitt en nota jafnframt önnur lyf sem þeir greiða sjálfir að hluta samkvæmt almennum reglum. Heildarkostnaður þeirra getur því verið mun hærri núna en hann verður í nýja greiðsluþátttökukerfinu. Í nýju kerfi munu hins vegar allir taka einhvern þátt í lyfjakostnaði, þannig að þeir sem aðeins nota eitt lyf núna og greiða ekkert fyrir það munu í nýju kerfi bera einhvern kostnað.
Í öðru lagi er því haldið fram að stór hluti af þessum 30.000 manna hópi sem fær lyf sín niðurgreidd að fullu (sú fullyrðing er röng eins og lýst er hér að framan) séu þeir sem síst mega við auknum álögum, þar með taldir fatlaðir, langveikir, öryrkjar og aldraðir.
Svar: Nýja greiðsluþátttökukerfinu er einmitt sérstaklega ætlað að verja fólk í framantöldum hópum fyrir háum lyfjakostnaði, því þar er einmitt að finna flesta þeirra sem í núgildandi kerfi bera hvað mestan kostnað vegna lyfja. Í gildandi kerfi er ekkert hámark á lyfjakostnaði þeirra sem nota mörg eða dýr lyf. Nýja kerfið tryggir hins vegar að öryrkjar, aldraðir, og börn og ungmenni yngri en 22 ára munu að hámarki greiða sem nemur um 4.000 krónum á mánuði, eða um 48.000 kr. á ári fyrir lyf sem eru með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga. Í þessum hópi greiðir fólk að fullu lyfjakostnað upp að 16.000 krónum. Eftir það greiðir fólk aðeins 15% af verði lyfs á móti 85% niðurgreiðslu sjúkratrygginga. Hlutur sjúklings fer niður í 7,5% þegar samanlagður kostnaður viðkomandi hefur náð tæpum 25.000 kr. og þegar hámarkinu er náð, þ.e. um 48.000 kr. á 12 mánaða tímabili á fólk rétt á lyfjaskírteini og 100% greiðsluþátttöku sjúkratrygginga.
Lyfjaskírteini sem auka greiðsluþátttöku sjúkratrygginga umfram almennar reglur verða áfram gefin út hjá Sjúkratryggingum Íslands. Læknir sækir um lyfjaskírteini fyrir einstakling sem gefin eru út að uppfylltum ákveðnum skilyrðum samkvæmt vinnureglum.
Í þriðja lagi er fullyrt að óvíst sé hvaða lyf muni verða með greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í nýju kerfi.
Svar: Upplýsingar um þetta liggja fyrir og eru birtar á vef Sjúkratrygginga Íslands. Öll lyf sem voru með hlutfallslegri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga verða það áfram. Að auki bætast lyf inn í greiðsluþátttökukerfið sem áður voru sjúklingum að kostnaðarlausu. Loks ber að geta þess sérstaklega að sýklalyf sem fólk hefur hingað til greitt að fullu munu falla undir nýja greiðsluþátttökukerfið fyrir börn að 18 ára aldri. Þessi breyting mun koma sér vel fyrir barnafjölskyldur. Þess má einnig geta að ef tvö eða fleiri börn eru í sömu fjölskyldu undir 18 ára aldri reiknast kostnaður vegna lyfja fyrir þau líkt og um eitt barn væri að ræða. Samanlagður lyfjakostnaður vegna systkina verður því að hámarki 48.000 kr. á 12 mánaða tímabili.
Í fjórða lagi segir í áskoruninni: „Fólk fær engan tíma til að undirbúa sig með því að spara milli mánaða. Þetta skellur á nær fyrirvaralaust.“
Svar: Frumvarp til laga um nýtt greiðsluþátttökukerfi var fyrst lagt fram á Alþingi vorið 2011 og hefur töluvert verið fjallað um fyrirhugaðar breytingar síðan þá. Frumvarpið var síðan endurskoðað til hagsbóta fyrir almenning og loks samþykkt 1. júní 2012. Sjúkratryggingar Íslands hafa um skeið unnið að markvissri kynningu á kerfinu sem tekur gildi 4. maí næstkomandi, haldið fundi með heilbrigðisstarfsfólki, sjúklingasamtökum, gefið út kynningarbækling sem liggur frammi í öllum apótekum og víðar og eins hefur töluvert verið fjallað um kerfið í fjölmiðlum á liðnum mánuðum. Breytingarnar eiga því ekki að koma fólki á óvart og kynningarstarfinu verður haldið áfram á næstunni. Ráðuneytið hvetur fólk til að kynna sér upplýsingar um nýtt lyfjakerfi á vef Sjúkratrygginga Íslands.
- Upplýsingar um nýtt kerfi á vef Sjúkratrygginga Íslands
- Reiknivél sem reiknar út áætlaðan lyfjakostnað einstaklinga í nýju kerfi