Hoppa yfir valmynd
27. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs og samvinna við Félagsvísindasvið – opnunarávarp Þjóðarspegils

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flutti opnunarávarp á Þjóðarspeglinum, ráðstefnu í félagsvísindum, sem hófst nú í eftirmiðdag. Ráðherra benti á að atvinnulíf og þátttaka, fjölbreytileiki og vinnumarkaður, ójöfnuður, velferð og þjónusta væru efni nokkurra fyrirlestra í ár sem aftur töluðu inn í stærstu verkefni hans og áherslur sem ráðherra.

„Á stefnuskrá minni er að umbylta vinnumarkaðnum svo hann verði aðgengilegri fyrir okkur öll,“ sagði ráðherra. „Það krefst samvinnu – samvinnu aðila vinnumarkaðarins, ríkis og sveitarfélaga um að skapa fleiri sveigjanleg störf, fleiri hlutastörf og ráðast í samhent átak við að breyta viðhorfum gagnvart atvinnuþátttöku stórra hópa fólks sem verið hafa utangarðs eða ekki fengið viðurkennda þekkingu og reynslu sína. Hér vísa ég sérstaklega til fatlaðs fólks og innflytjenda.“

Guðmundur Ingi undirstrikaði sömuleiðis að vinnumarkaðurinn þyrfti að undirbúa sig fyrir þær breytingar sem væntanlegar væru í náinni framtíð, svo sem vegna loftslagsbreytinga og tæknibreytinga. Þar væri nauðsynlegt að gæta að réttlátum umskiptum og opna vinnumarkaðinn enn frekar fyrir fólki með skerta starfsgetu.

„En það eru tækifæri eins og það eru ógnanir. Tækifæri til þess að skapa samfélag sem byggir á meiri jöfnuði, fjölbreytileika og jöfnum tækifærum. Í þessu samhengi vil ég líta til þeirrar þekkingar sem verður meðal annars til í háskólasamfélaginu,“ sagði ráðherra og lagði áherslu á mikilvægi rannsókna í háskólum fyrir stefnumótun í samfélaginu. Brýnt væri að brúa betur bilið milli rannsókna og stefnumótunar, þannig að nýjasta þekking geti sem best leiðbeint þeim sem vinna að stefnumótun í samfélaginu.

Ráðherra sagði einnig frá því að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og félagsvísindasvið Háskóla Íslands hefðu tekið höndum saman og vinna við að móta formlega samvinnu þeirra á milli væri nú hafin.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta