Hoppa yfir valmynd
2. október 2015 Innviðaráðuneytið

Samgöngumál og fjarskiptamál meðal umræðuefna á aðalfundi SSA

Almenningssamgöngur og önnur samgöngumál, ljósleiðaramál, umhverfismál og fleira voru meðal umfjöllunarefna á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem nú stendur yfir á Djúpavogi. Fundinum lýkur uppúr hádegi á morgun. Ólöf Nordal innanríkisráðherra ávarpaði fundinn og ræddi meðal annars samgöngumál, eflingu sveitarfélaga og um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í dag.
Innanríkisráðherra flutti ávarp á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi í dag.

Innanríkisráðherra fjallaði í upphafi um samgöngumál og minntist nýlegs áfanga í Norðfjarðargöngum þegar síðasta haft var sprengt þar í gegn fyrir viku. Sagði hún göngin munu gjörbreyta samgöngumálum í Fjarðabyggð og sagði næsta brýna verkefni á Austurlandi vera endurbyggingu á kafla Hringvegarins í Berufjarðarbotni sem vonandi yrði unnt að bjóða út á næsta ári. Þá ræddi ráðherra sveitarstjórnarmálin og sagði eflingu sveitarfélaga vera viðvarandi verkefni í innanríkisráðuneytinu. Hún sagði sameiningar sveitarfélaga enn á dagskrá og ítrekaði þá skoðun sína að sameiningar yrðu ekki þvingaðar fram en ljóst væri að fjölmennari og stærri sveitarfélög gætu betur þjónað íbúum sínum. Starfshópur tæki brátt til starfa til að skoða leiðir til eflingar sveitarfélögum og minnti ráðherra á átak til dæmis í Danmörku, Finnlandi og nú í Noregi um umbótaverkefni á sviði sveitarfélaga sem væru meðal annars til komin til að gera þeim kleift að takast á við framtíðaráskoranir vegna öldrunar íbúa og þyngri velferðarþjónustu. Slík þróun væri án efa uppi á teningnum hér á landi og því væri þarft að huga að leiðum til eflingar sveitarstjórnarstiginu.

Ólöf Nordal fjallaði einnig um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og nýlegan ársfund hans. Sjóðurinn hefði enn á ný sýnt hversu nauðsynlegt tæki hann væri til að styrkja sveitarfélög til að standa undir verkefnum sínum og veita íbúum sínum þá þjónustu sem nauðsynleg væri. Í lokin sagði ráðherra brýnt að gott samband væri milli ríkis og sveitarfélaga og kvaðst reiðubúin til að leggja sitt að mörkum í þeim efnum.

Nokkrir þingmenn kjördæmisins sátu fundinn og sagði Steingrímur J. Sigfússon nokkur orð fyrir þeirra hönd. Sagði hann alls staðar hafa komið fram hjá sveitarstjórnarmönnum ábendingar um að ríkið yrði að auka framlög til fjárfestinga í samgöngumálum svo og á sviði ljósleiðaravæðingar. Einnig sagðist hann vera þeirrar skoðunar að næstu jarðgöng að loknum Dýrafjarðargöngum ættu að vera göng undir Fjarðarheiði áður en ráðist yrði í frekari samtengingu byggðarlaga á Austurlandi með öðrum göngum. 

Á fundinum var síðan gerð grein fyrir niðurstöðum starfshópa um umhverfismál, almenningssamgöngur, ljósleiðara og fleira en að auki eru á dagskrá á morgun venjuleg aðalfundarstörf.

Aðalfundur SSA stendur nú yfir á Djúpavogi.

Aðalfundur SSA stendur nú yfir á Djúpavogi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta