Nr. 398/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 4. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 398/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18080005
Kæra [...]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 31. júlí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Albaníu (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2018 að synja kæranda og börnum hennar, [...], (hér eftir nefnd A) fd. [...], og [...], fd. [...], (hér eftir nefnd B), ríkisborgurum Albaníu, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér ásamt börnum sínum.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga varðandi rétt barna yngri en 18 ára til alþjóðlegrar verndar.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 28. janúar 2018. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 30. janúar 2018. A og B komu í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 3. maí 2018. Með ákvörðunum, dags. 10. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála þann 31. júlí 2018. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 16. ágúst 2018 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu þar sem tengdafaðir hennar hafi beitt hana og börn hennar ofbeldi og geti yfirvöld í heimaríki ekki veitt henni viðeigandi vernd. Þá hafi kærandi búið við erfiðar efnahagslegar og félagslegar aðstæður í heimaríki.
Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærandi og börn hennar væru ekki flóttamenn og þeim skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda og börnum hennar var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Var það jafnframt niðurstaða Útlendingastofnunar að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður þeirra til heimaríkis. Börnum kæranda var vísað frá landinu.
Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er hvað málavexti varðar vísað til þess sem fram hafi komið í greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar, viðbótarathugasemdum, dags. þann 25. maí 2018, og viðtölum við kæranda og börn hennar.
Aðalkrafa kæranda er að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum hennar og barna hennar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt alþjóðleg vernd hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem þau sæti ofsóknum í heimaríki sínu og grundvallarmannréttindi þeirra séu ekki tryggð af hálfu þarlendra stjórnvalda. Kærandi byggir aðalkröfu sína á því að hún uppfylli skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hún tilheyri tilteknum þjóðfélagshópi sem kona og þolandi kynbundinna ofsókna. Kærandi hafi orðið fyrir líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu tengdaföður síns. Þá hafi börn kæranda jafnframt orðið fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu afa síns. Kærandi vísar til þess að í athugasemdum með frumvarpi að lögum um útlendinga komi fram að sem dæmi um fólk sem falli geti undir 38. gr. laganna séu þeir einstaklingar sem sæti ofsóknum vegna kyns og börn sem þvinguð eru til hernaðar eða eru fórnarlömb annars ofbeldis. Þá komi fram í leiðbeiningarreglum Flóttamannastofnunar að almennt sé viðurkennt að kyn geti verið grundvöllur aðildar að þjóðfélagshópi þar sem kynið sjálft feli í sér hættu. Kærandi vísar m.a. til skýrslu Evrópuráðsins um kynbundnar umsóknir um alþjóðlega vernd þar sem komi fram að konur geti m.a. orðið fyrir ofsóknum ef þær fylgi ekki þeirri hegðun sem ætlast er til af þeim í samfélaginu og hafi þing Evrópuráðsins kallað eftir því að kynbundið ofbeldi og ofsóknir séu metnar á viðeigandi hátt við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum þess. Ekki sé hugtaksskilyrði að kynbundnar ofsóknir stafi frá aðilum tengdum ríkjunum en þær geti einnig stafað frá einstaklingum ótengdum ríkinu. Kynbundnar ofsóknir séu á ábyrgð ríkisins í þeim tilfellum sem það lætur hjá líða að grípa til aðgerða til verndar slíkum ofsóknum. Með hliðsjón af framangreindu er það aðalkrafa kæranda að henni og börnum hennar verði veitt vernd hér á landi með vísun til 1. mgr. 37. gr., sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um útlendinga.
Í greinargerð kæranda er farið almennt yfir aðstæður í Albaníu og ástand mannréttindamála þar. Kærandi vísar til þess að spilling sé enn mikið vandamál í Albaníu og sé spilling á ýmsum stigum samfélagsins, svo sem innan lögreglunnar. Þrátt fyrir að lög hafi verið samþykkt sem mæli fyrir um harðari refsingu við opinberri spillingu hafi ríkisstjórnin ekki innleitt lögin á árangursríkan hátt og komist því spilltir embættismenn áfram undan refsingu. Þá sé ofbeldi gegn konum vandamál sem eigi sér djúpar rætur í hefðum og venjum albansks samfélags. Litið sé á kynbundið ofbeldi sem einkamál fjölskyldunnar og kynferðisofbeldi sem eigi sér stað innan veggja heimilisins sé sjaldan tilkynnt til lögreglu. Þá sé skortur á eftirfylgni laga um kynferðisbrot. Konur í Albaníu hafi ennfremur lítið fjárhagslegt sjálfstæði og takmarkað aðgengi að fjármagni, t.d. bankalánum. Í greinargerð er jafnframt umfjöllun um aðstæður barna og réttindi þeirra í Albaníu. Fram komi m.a. í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2016 að misnotkun á börnum sé útbreidd í Albaníu og þá verði börn einnig í miklum mæli fyrir andlegu ofbeldi af hálfu fjölskyldumeðlima. Kærandi bendir á að þegar litið sé til þeirra rótgrónu hefða sem ríki í Albaníu þá sé erfitt sé fyrir hana að snúa aftur þangað. Kærandi hafi ekki í nein hús að venda en hún eigi hvorki bakland í sinni eigin fjölskyldu né í tengdafjölskyldu. Þá sé kærandi ólæs og ófær um að standa á eigin fótum og sjá fyrir sér og dætrum sínum. Líf hennar og barna hennar sé því í hættu komi til þess að þau verði send aftur til heimaríkis. Þá sé, með vísan til þess sem rakið hafi verið að framan um aðstæður í Albaníu, ekki raunhæft að kærandi og börn hennar geti leitað ásjár yfirvalda þar í landi. Jafnframt telji kærandi að með því að senda hana og börn hennar til heimaríkis sé brotið gegn meginreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki muni slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaralega og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.
Í greinargerð kæranda kemur fram að við mat á möguleika á flótta innanlands beri að líta til þess hvort slíkur flutningur geti talist viðeigandi úrræði og hvort krafan sé sanngjörn. Þurfi að fara fram einstaklingsbundið mat í hverju tilviki fyrir sig og almennt séu ekki forsendur til þess að kanna möguleika á flótta innan heimaríkis ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum. Við matið þurfi að skoða leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og athugasemdir við 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem fram komi að hugtakið um raunverulega vernd í öðrum hluta lands sé ekki meginregla í alþjóðlegri flóttamannalöggjöf. Þá sé þess ekki krafist að einstaklingur sem sæti ofsóknum hafi útilokað alla möguleika í heimaríki áður en hann sæki um alþjóðlega vernd. Kærandi heldur því fram að hún og börn hennar verði ekki örugg annars staðar í Albaníu og í tengslum við það sé vert að benda á að Albanía sé mjög lítið land að flatarmáli og því sé ekki sjálfgefið að unnt sé að láta sig hverfa og lifa lífi sínu í friði án afskipta þeirra sem maður óttist. Með hliðsjón af atvikum í máli kæranda sé því krafa um innri flutning hvorki raunhæf né sanngjörn fyrir hana og börn hennar en bæði skilyrðin þurfi að uppfylla til að slík ráðstöfun komi til greina.
Til vara krefst kærandi þess að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Heimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita útlendingi dvalarleyfi á þeim grundvelli ef hann sé staddur hér á landi og geti sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiða félagslegra eða almennra aðstæðna viðkomandi í heimaríki. Með vísan til heildstæðs mats á aðstæðum kæranda og barna hennar, heilsufari þeirra samkvæmt sálfræðiskýrslum, því ofbeldi sem þau hafi upplifað í heimaríki, þeim aðstæðum sem bíði þeirra þar og getuleysi albanskra stjórnvalda til að aðstoða þau þá skuli veita þeim dvalarleyfi af mannúðarástæðum hér á landi. Ljóst sé að bæði kærandi og börn hennar eigi á hættu að verða fyrir alvarlegu ofbeldi af hálfu tengdaföður hennar. Þá eigi kærandi lítið bakland í heimaríki sínu og fái engan stuðning frá fjölskyldu sinni, hún sé ekki læs og hafi enga menntun. Kærandi sé ósammála því mati Útlendingastofnunar að ekki skuli víkja frá því meginsjónarmiði að ekki skuli veita einstaklingum dvalarleyfi af mannúðarástæðum vegna neyðar af efnahagslegum rótum. Þá vísar kærandi í það sem fram kom í sálfræðimati sem framkvæmt hafi verið á kæranda þann 14. júní 2018. Þar komi m.a. fram að kærandi hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli þegar eiginmaður hennar hafi látist vegna veikinda fyrir um tveimur árum. Þá komi fram í sálfræðimatinu að kærandi þurfi á sálfræðilegri meðferð að halda til að vinna úr þeim áföllum sem hún hafi orðið fyrir. Einnig sé tekið fram að sálfræðimeðferð geti gert meiri skaða en gagn sé hún rofin áður en henni sé lokið að fullu og því sé afar mikilvægt að kærandi sé ekki send úr landi á meðan meðferð standi. Því sé harðlega mótmælt af hálfu kæranda að Útlendingastofnun hafi metið það svo að hún sé ekki í meðferð hér á landi sem sé óforsvaranlegt að rjúfa en samkvæmt heimildum frá félagsþjónustu Hafnarfjarðar sé hún í sálfræðimeðferð hér á landi. Þá séu niðurstöður sálfræðimata sem framkvæmd hafi verið á börnum kæranda á þann veg að börnin séu bæði með áfallastreituröskun og almenna kvíðaröskun.
Að lokum er í greinargerð fjallað um það sem sé börnum fyrir bestu. Börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd og sé þess krafist fyrir hönd barna kæranda að tekið verði tillit til þeirrar verndar sem þau eigi rétt á samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum sem íslensk stjórnvöld séu skuldbundin samkvæmt þjóðarrétti til að virða. Kærandi vísar til ákvæða stjórnarskrárinnar, barnalaga nr. 76/2003, barnasáttmálans, laga um útlendinga og tilskipunar Evrópubandalagsins nr. 2011/95/ESB varðandi hagsmuni barna kæranda og þeirrar meginreglu að ávallt skuli hafa það sem barni sé fyrir bestu að leiðarljósi þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Lagagrundvöllur
Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.
Auðkenni
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað albönskum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar séu albanskir ríkisborgarar.
Réttarstaða barna kæranda
Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.
Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.
Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd móður sinnar.
Landaupplýsingar
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Albaníu m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:
- Albania 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2018);
- Albania - Country of Origin Information Report (United Kingdom: Home Office, 30. mars 2012);
- Albania Progress Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
- Amnesty International Report 2017/18: The State of the World´s Human Rights - Albania (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Annual Report on the activity of the People´s Advocate 1 January-31 December (Republic of Albania People´s Advocate, febrúar 2015);
- Commission Staff Working Document. Albania 2015 Report (European Commission, 9. nóvember 2016);
- Country Policy and Information Note - Albania: Background information, including actors of protection, and internal relocation (United Kingdom: Home Office, júlí 2017);
- Country Policy and Information Note – Albania: Women fearing domestic abuse (UK Home Office, desember 2017);
- Domestic violence, including legislation, state protection and support services available to victims (2011-April 2014) (Immigration and Refugee Board of Canada, 30. apríl 2014);
- Freedom in the World 2017 - Albania (Freedom House, 1. september 2017);
- Information Centre Asylum and Migration Briefing Notes (Germany: Federal Office for Migration and Asylum, 15. maí 2017);
- Information Note on Directive 2013/32/EU of the European Parliament and of the Council of 26 June 2013 on common procedures for granting and withdrawing international protection (recast) (European Council on Refugees and Exiles, desember 2014);
- Landinfo temanotat Albania: Forhold for barn og unge (Landinfo: Utlendingsforvaltningens fagenhet for landinformasjon, 25. september 2015);
- Mental Health Atlas 2014 – Albania (World Health Organization, 2014);
- National Integrity System Assessment Albania 2016 (Transparency International, 2016);
- National Strategy and Action Plan on Gender Equality 2016-2020 (Ministria E Mirёqenies Sociale Dhe Rinisё, október 2016);
- Nations in Transit 2017 - Albania (Freedom House, 20. apríl 2018);
- Operational Guidance Note - Albania (United Kingdom Home Office, 19. september 2014);
- Report by Nils Muižnieks, Commissioner for Human Rights of the Council of Europe following his visit to Albania from 23 to 27 September 2013 (Commissioner for Human Rights, 16. janúar 2014);
- Report of a Home Office Fact-Finding Mission – Albania (UK Home Office, febrúar 2018);
- Report of the Special Rapporteur on Extrajudicial, Summary or Arbitrary Executions, Christof Heyns. Addendum. Follow-up to Country Recommendations: Albania (Human Rights Council, 23. apríl 2013);
- Social Protection Albania (International Labour Organization, sótt 22. nóvember 2017);
- The World Factbook - Albania (vefsíða Central Intelligence Agency, sótt 22. nóvember 2017);
- UNHCR Position on the Proposal for a Directive on Common Standards and Procedures in Member States for Returning Illegally Staying Third-Country Nationals (UN High Commissioner, 16. júní 2008).
Albanía er lýðræðisríki með um þrjár milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að Evrópuráðinu árið 1995 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1996. Albanía gerðist aðili að sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu árið 2006, flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna 18. ágúst 1992, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi 4. október 1991 og samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu þann 11. maí 1994. Albanía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk stöðu sem umsóknarríki í júní 2014. Albanía er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi þess má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.
Í framangreindum gögnum kemur fram að réttar- og löggæslukerfinu í Albaníu sé ábótavant en á undanförnum árum hafi yfirvöld unnið að því að uppræta spillingu í löggæslunni og dómsvaldinu. Jafnframt kemur fram að albönsk stjórnvöld hafi tekið mikilvæg skref til að auka vernd borgara sinna og að Albaníu hafi miðað áfram í málefnum er snerti réttarkerfið og frelsi og öryggi borgara landsins. Þá hafi laun lögreglumanna verið hækkuð og mikil endurnýjun hafi átt sér stað í lögregluliði landsins auk þess sem yfirvöld sæki lögreglumenn til saka vegna brota í starfi. Þá hafi stjórnvöld tekið til tæknilegra aðgerða til þess að stemma stigu við afbrotum í starfi á borð við að láta lögreglumenn bera myndavélar og gera greiðslur umferðasekta rafrænar. Fram kemur að sett hafi verið á fót þjónusta sem heyri undir albanska innanríkisráðuneytið sem geri borgurunum kleift að senda inn kvartanir vegna spillingarmála í eigin persónu eða símleiðis. Einnig sé starfrækt vefgátt á vegum yfirvalda þar sem borgarar geti tilkynnt misferli opinberra starfsmanna. Samkvæmt skýrslu bandarísku utanríkisþjónustunnar fyrir árið 2017 hafi kvörtunarþjónustu innanríkisráðuneytisins borist fjöldi kvartana varðandi spillingu innan lögreglu og hafi um 43 tilvik varðandi brot í starfi verið skráð og hafi verið lagt til að um 57 lögreglumenn skyldu sæta agaviðurlögum. Árið 2017 hafi Umboðsmaður einnig tekið til meðferðar kvartanir vegna brota lögreglumanna í starfi og þá aðallega vegna vandamála tengdum handtökum og varðhaldi.
Árið 2012 hafi albönskum hegningarlögum verið breytt á þá leið að nú sé þar að finna sérstakt ákvæði um heimilisofbeldi. Brot á ákvæðinu varði allt að fimm ára fangelsi. Í kjölfarið hafi átt sér stað ýmsar umbætur hjá yfirvöldum í málum er varði heimilisofbeldi. Samkvæmt skýrslu sérstaks erindreka Sameinuðu þjóðanna (e. Special Rapporteur on Extrajudicial, Summary or Arbitrary Executions) frá árinu 2013 hafi handtökum vegna tilkynninga um heimilisofbeldi til að mynda fjölgað úr 63 í 119 á milli áranna 2011 og 2012. Talið sé að þessar umbætur stafi af fyrrgreindri lagabreytingu. Þá reki bæði albönsk yfirvöld og frjáls félagasamtök athvörf fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis.
Þá kemur fram í ofangreindum gögnum að kynbundið ofbeldi sé vandamál í Albaníu. Nauðgun, annað kynferðisofbeldi og kynferðisleg áreitni séu refsiverð skv. albönskum hegningarlögum. Sé þolandi nauðgunar fullorðinn einstaklingur spanni refsiramminn fyrir nauðgunarbrot þrjú til tíu ár. Samkvæmt ofangreindum heimildum skorti þó nokkuð á eftirfylgni með löggjöfinni og lágt hlutfall kærumála sæti ákæruferli. Albönsk yfirvöld hafi þróað áætlun um kynjajafnrétti og takmörkun kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis fyrir árin 2016-2020 (e. National Strategy and Action Plan on Gender Equality 2016-2020). Frjáls félagasamtök bjóði upp á lagalega aðstoð og sálfræðiþjónustu fyrir konur sem séu þolendur ofbeldis. Þá geti þolendur jafnframt tilkynnt misferli og kvartað vegna starfa lögreglu, svo sem fram hefur komið.
Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um geðheilbrigði í Albaníu frá árinu 2014 kemur fram að albönsk yfirvöld hafi samþykkt geðheilbrigðisáætlun árið 2013. Þá hafi tekið gildi sérstök löggjöf um geðheilbrigðisþjónustu árið 2012. Áætlunin og löggjöfin séu í samræmi við alþjóðaskuldbindingar á sviði mannréttinda og hafi verið innleiddar að hluta. Geðheilbrigðisþjónusta í Albaníu sé að mestu fjármögnuð af albanska ríkinu þó að þjónustunni kunni að fylgja tiltekinn lágmarkskostnaður fyrir notendur.
Í ofangreindum gögnum kemur fram að atvinnuleysi sé mikið í Albaníu en landið hafi almennt náð að viðhalda jákvæðum hagvexti og fjárhagslegum stöðugleika þrátt fyrir viðvarandi efnahagserfiðleika. Albönsk stjórnvöld hafi, m.a. í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, unnið að úrbótum í atvinnumálum. Einnig hafi verið unnið að því að bæta félagslega aðstoð fyrir þá sem þess þarfnist. Þeir sem eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum geti því leitað eftir aðstoð frá því sveitarfélagi sem þeir séu búsettir í. Þá banni vinnulöggjöf mismunun starfsmanna á grundvelli kynþáttar, húðlitar, kyns, aldurs, fötlunar, stjórnmálaskoðana, tungumáls, þjóðernis, trúar, fjölskyldu, veikinda og þjóðfélagsstöðu. Samkvæmt albönskum heilbrigðislögum eigi íbúar landsins rétt á almennri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt lögunum skuli heilbrigðisyfirvöld m.a. kynna og tryggja jafnan rétt allra að heilbrigðisþjónustu. Undir þá þjónustu sem íbúar eigi rétt á falli m.a. geðheilbrigðisþjónusta.
Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:
Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.
Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.
Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.
Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:
a. ríkið,
b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,
c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.
Orðsambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.
Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).
Krafa kæranda er byggð á því að hún hafi orðið fyrir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af tengdaföður hennar. Kærandi eigi ekkert bakland í heimaríki, geti ekki staðið á eigin fótum og þá telji hún sig ekki geta leitað verndar hjá lögreglu.
Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi og börn hennar eigi þær á hættu. Að mati kærunefndar er hins vegar ekki ástæða til að draga í efa að kærandi og börn hennar hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu tengdaföður hennar. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hún hafi ekki leitað til lögreglu þar sem hún hafi vorkennt tengdaföður sínum þar sem hann sé gamall og veikur jafnframt sem hún hafi skammast sín mikið.
Með vísan til upplýsinga um heimaríki kæranda og dætra hennar er mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að lögregla eða önnur stjórnvöld í heimaríki skorti vilja eða getu til að veita kæranda og börnum hennar viðeigandi vernd gegn athöfnum sem feli í sér hótanir, áreiti eða ofbeldi, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir.
Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún og börn hennar hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.
Við þetta mat hefur kærunefnd, í samræmi við 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, litið sérstaklega til hagsmuna barna kærenda, öryggi þeirra, velferðar og félagslegs þroska.
Telur kærunefnd því að kærandi og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.
Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).
Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður kæranda og barna hennar þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og börn hennar uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.
Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga
Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi og börn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.
Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga
Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis, má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.
Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.
Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga er fjallað um erfiðar félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Þá segir einnig í athugasemdunum að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum.
Í framangreindum athugasemdum við 74. gr. kemur jafnframt fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans.
Krafa kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiðar er m.a. byggð á því að hún og börn hennar eigi við alvarleg andleg vandamál að stríða. Því til stuðnings lagði kærandi fram afrit af samskiptaseðlum frá Göngudeild sóttvarna, dags. frá 6. febrúar til 9. apríl 2018, og afrit af sálfræðimötum sem framkvæmd voru á kæranda og börnum hennar í maí og júní sl. Í samskiptaseðli dagsettum þann 9. apríl 2018, sem sálfræðingur Göngudeildar ritar, kemur fram að kærandi hafi tjáð sig um atburði í heimaríki og að það hafi gert henni gott að ræða það en hún hafi grátið mikið. Þá kemur fram í sálfræðimati kæranda, dags. 16. maí 2018, að hún uppfylli greiningarviðmið fyrir áfallastreituröskun og þurfi að mati sálfræðingsins á sálfræðilegri meðferð að halda til að vinna úr þeim áföllum sem hún hafi orðið fyrir. Það sé mat sálfræðingsins að rof á sálfræðilegri meðferð geti gert meiri skaða en gagn og því eigi ekki að senda kæranda úr landi áður en meðferð sé lokið að fullu. Í sálfræðimötum barna kæranda, dags. 14. júní 2018, kemur fram að niðurstöður sjálfsmatskvarða þeirra bendi til alvarlegra sálrænna einkenna og sé það mat sálfræðingsins að þær uppfylli greiningarskilmerki áfallastreituröskunar og almennrar kvíðaröskunar. Er í niðurstöðum matanna lagt til að börnum kæranda verði gefin kostur á gagnreyndri áfallameðferð, t.d. áfallamiðaðrar hugrænnar atferlismeðferðar. Í greinargerð kæranda var því mótmælt sem fram kom í niðurstöðu Útlendingastofnunar að hún sé ekki í meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa en kærandi væri í sálfræðimeðferð og myndi talsmaður hennar hafa samband við sálfræðing hennar og fá það staðfest formlega. Kærunefnd sendi talsmanni þann 18. september 2018 tölvubréf þar sem nefndin innti talsmann eftir því hvort kærandi hygðist leggja fram frekari sálfræðigögn. Þann 20. september sl. bárust kærunefnd þær upplýsingar frá talsmanni kæranda að frekari gögn varðandi kæranda lægju ekki fyrir. Þá barst tölvubréf frá talsmanni kæranda þann 24. september sl. þar sem lögð var fram staðfesting frá sálfræðingi um að börn kæranda hafi sótt viðtöl hjá sálfræðingnum á tímabilinu júní til ágúst 2018. Þrátt fyrir að nýleg læknisfræðileg gögn um andlega heilsu kæranda og barna hennar hafi ekki verið lögð fram í málinu þá leggur kærunefnd það til grundvallar að kærandi og börn hennar eigi við andlega erfiðleika að stríða og þurfi meðferð við þeim.
Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um heilbrigðiskerfið í Albaníu verður ráðið að kæranda standi til boða geðheilbrigðisþjónusta þar í landi, þar á meðal sálfræðiþjónusta. Hafi albönsk yfirvöld tvo síðustu áratugi lagt áherslu á að efla þann þátt heilbrigðiskerfisins er lýtur að geðheilbrigði. Þá séu stjórnvöld meðvituð um hve algengt heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum og börnum sé og hafi verið sett á fót sérstakar skrifstofur sem þolendur heimilisofbeldis geti leitað til og fengið ýmis konar aðstoð, svo sem læknisaðstoð, lögfræðiráðgjöf og aðstoð við að finna húsnæði. Einnig séu til staðar athvörf fyrir konur og börn sem aðgengileg séu allan sólarhringinn. Aðgengi að slíkum úrræðum, sem og sálfræðiþjónustu, sé hins vegar greiðari í stærri borgum og bæjum í Albaníu.
Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að á meðan eiginmaður hennar hafi verið á lífi þá hafi þau búið hjá föður hans. Eftir lát eiginmanns hennar hafi hún hins vegar ekki viljað yfirgefa tengdaföður sinn og skilja hann einan eftir þar sem að hann sé lamaður. Þá kom einnig fram að hún hafi farið í heimsóknir til foreldra sinna sem búi í öðrum bæ og að hún hafi fengið að gista hjá þeim viku áður en hún hafi yfirgefið heimaríki ásamt börnum sínum. Aðspurð svaraði hún því að samband hennar við foreldra sína væri mjög gott. Þá eigi hún jafnframt tvo bræður í heimaríki en samband við þá sé hins vegar ekki jafn gott og við foreldra hennar. Samkvæmt framansögðu á kærandi foreldra og tvo bræður í heimaríki og virðist af frásögn hennar vera gott samband á milli hennar og foreldra hennar. Engu að síður má ráða af framburði hennar að foreldrar hennar hafi afar takmarkaða burði til að bjóða kæranda og dætrum hennar að flytjast á heimili þeirra.
Þá byggði kærandi einnig mál sitt á erfiðum efnahagslegum aðstæðum sínum í heimaríki en hún hafi aldrei unnið, sé ólæs og ófær um að sjá um sig og börnin sín. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa fengið fjárhagslegan stuðning að andvirði 4000 lek frá félagsmálayfirvöldum í heimaríki. Þá kom jafnframt fram í viðtalinu að yfirvöld í heimaríki hafi boðið henni starf í skóverksmiðju en hún hafi ekki getað tekið við því starfi þar sem hún hafi þurft að sjá um börnin sín og sækja þau í skólann.
Kærandi er einstæð móðir með tvær ungar dætur með takmarkað stuðningsnet í heimaríki. Samkvæmt vottorðum sálfræðings sem lögð hafa verið fram í málinu glímir kærandi við andlega erfiðleika, þ.m.t. áfallastreituröskum. Þá kemur fram í niðurstöðu sálfræðings að dætur hennar sýni alvarleg áfallastreitueinkenni og einkenni hugrofs sem tengist m.a. því að barn verði ítrekað fyrir ofbeldi og geti enga björg sér veitt. Að mati kærunefndar hefur verið sýnt nægilega fram á að þeir andlegu erfiðleikar stafi að verulegu leyti af ofbeldi sem þær hafa sætt af hálfu fyrrverandi tengdaföður kæranda. Af viðtölum við dætur kæranda má einnig ráða að þær hafi einnig orðið fyrir ofbeldi af hálfu sama einstaklings sem móður þeirra hafi ekki tekist að vernda þær gegn og að þær hafi orðið vitni að því ofbeldi sem móðir þeirra varð fyrir. Þá má jafnframt ráða af viðtali við dætur kæranda að framfærsla þeirra hafi, við þessar kringumstæður, ekki alltaf verið trygg. Að mati kærunefndar þurfa dætur kæranda áframhaldandi stuðning og meðferð til að ná að þroskast og dafna eðlilega. Þó svo að meðferðarúrræði séu til staðar í heimaríki þeirra er afar óvíst að móðir þeirra verði við heimkomu í aðstöðu til að styðja við dætur sínar á þann hátt að viðunandi meðferð verði þeim aðgengileg þannig að þær hafi gagn af. Í ljósi andlegrar heilsu kæranda, efnahagslegrar stöðu hennar og þess takmarkaða tengslanets sem hún virðist eiga í heimaríki telur kærunefnd að möguleikar hennar til að að stofna til nægilega tryggrar búsetu utan heimilis fyrrverandi tengdaföður síns sé nokkuð takmörkuð. Af þeim sökum sé raunhæf hætta á að hún og dætur hennar þurfi, tímabundið eða til lengri tíma, að flytjast aftur inn á heimili hans. Að mati kærunefndar verður að líta svo á, að teknu tilliti til andlegs ástands kæranda og barna hennar og þeirrar aðstöðu sem kann að bíða þeirra í heimaríki, að það sé ekki börnum kæranda fyrir bestu að fara með móður sinni til heimaríkis.
Það er því mat kærunefndar, þegar litið er til tilgangs og markmiða laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr., 2. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 74. gr. laganna, að kærandi og dætur hennar teljist hafa sýnt fram á ríka þörf á vernd, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heilstæðu mati á þeim aðstæðum sem bíða kæranda í heimaríki en við það mat hefur kærunefnd litið sérstaklega til hagsmuna dætra kæranda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og áðurnefndar athugasemdir við 74. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga er varða börn.
Verður því lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.
Samantekt
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið þykir rétt að staðfesta ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og dætra hennar er varðar synjun á umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd. Lagt verður fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og dætrum hennar dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar hvað varðar umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd eru staðfestar. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
The decisions of the Directorate of Immigration regarding the appellants’ and her children’s applications for international protection are affirmed. The Directorate is instructed to issue the appellant and her children residence permits based on Article 74 of the Act on Foreigners no. 80/2016.
Hjörtur Bragi Sverrisson Þorbjörg Inga Jónsdóttir