Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 540/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 21. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 540/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19090005

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. september 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. ágúst 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa henni frá landinu.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar, í fyrsta lagi á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna, og í öðru lagi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 24. janúar 2019. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið hjá maltneskum yfirvöldum var þann 30. janúar 2019 send beiðni um viðtöku kæranda til yfirvalda á Möltu, sbr. 2. og 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá maltneskum yfirvöldum, dags. 5. mars 2019, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 14. ágúst 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 20. ágúst 2019 og kærði kærandi ákvörðunina þann 3. september 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 12. september 2019 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kæranda þann 18. september og 19. nóvember 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að maltnesk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Möltu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Möltu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi í viðtali hjá Útlendingastofnun mótmælt því að vera endursend til Möltu. Kærandi hafi verið á Möltu frá 24. desember 2018 til 24. janúar 2019 og hafi hún þá dvalið hjá föðurbróður sínum. Hún þekki ekki til hæliskerfisins á Möltu, en kærandi telji að ef hún myndi sækja um alþjóðlega vernd á Möltu þá yrði hún drepin, en þar sé mikið af aröbum. Kærandi kveði að í landinu ríki miklir fordómar í garð [...] og að hún óttist yfirvöld á Möltu en [...]. Hún hafi orðið fyrir miklum fordómum þar í landi og fólk hafi forðast að vera nálægt henni. Þá hafi hún orðið fyrir árásum í heimaríki [...] sem hafi haft áhrif á heilsufar hennar. Auk þess telji kærandi að líkur séu á því að [...] hafi látið lífið í varðhaldi í heimaríki.

Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við hina kærðu ákvörðun. Þar á meðal bendir kærandi á að yfirvöld á Möltu hafi verið gagnrýnd fyrir að vera ekki með fullnægjandi innviði til þess að taka á móti einstaklingum sem hafi þörf á alþjóðlegri vernd. Kærandi telur verulega litlar líkur á því að hún fái alþjóðlega vernd á Möltu og vísar í því sambandi til þess að árið 2018 hafi einungis [...] fengið alþjóðlega vernd á Möltu. Því verði hún að öllum líkindum áframsend til heimaríkis þar sem [...]. Kærandi tekur þá undir með Útlendingastofnun að einstaklingar í viðkvæmri stöðu séu í sumum tilvikum ekki greindir í slíkri stöðu á Möltu. Þá vekur kærandi athygli á því að á Möltu séu engin sérstök úrræði í boði fyrir þolendur pyndinga eða þá sem hafa orðið fyrir annars konar áföllum. Telur kærandi það verulega varhugavert að hún verði send til ríkis þar sem aðgangur að heilbrigðisþjónustu sé óskilvirkur og engin sérstök úrræði séu í boði fyrir hana.

Kærandi gerir einnig athugasemd við þá röksemdafærslu Útlendingastofnunar að umsækjendur um alþjóðlega vernd á Möltu, sem ekki geta séð fyrir sér sjálfir, eigi rétt á húsnæði, fæði og framfærslu, og sé frjálst að stunda atvinnu. Bendir kærandi m.a. á að umsækjendur hafi staðið frammi fyrir ýmsum erfiðleikum á atvinnumarkaði, s.s. tungumálaerfiðleikum, mikilli samkeppni um störf og takmörkuðum eða árstíðarbundnum atvinnutækifærum. Auk þess séu umsækjendur frá löndum [...], líkt og kærandi, sérstaklega berskjaldaðir þegar kemur að misnotkun á atvinnumarkaði. Hvað varðar aðgang að húsnæði hafi nýleg rannsókn sýnt að umsækjendum um alþjóðlega vernd hafi reynst erfitt að verða sér úti um húsnæði á Möltu, m.a. vegna hækkandi leigugreiðslna og skorts á fullnægjandi leigurýmum. Hafi það leitt til aukins fjölda heimilislausra einstaklinga sem búi við erfiðar aðstæður á Möltu. Með vísan til framangreinds telji kærandi ljóst að hún muni verða fyrir verulegri misnotkun á atvinnu- og húsnæðismarkaði og séu líkur á því að hún muni þurfa að hafast við á götunni.

Kærandi gerir jafnframt alvarlegar athugasemdir við það að Útlendingastofnun hafi einungis farið yfir aðstæður [...] á Möltu í hinni kærðu ákvörðun, en ekki fjallað um kynþáttafordóma á Möltu og aðstæður [...] þar í landi. Sem fyrr segir séu umsækjendur um alþjóðlega vernd frá löndum [...] í [...] sérstaklega berskjaldaðir þegar kemur að misnotkun á vinnumarkaði. Þá hafi Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi í maí 2018 vakið athygli á útbreiddu og særandi viðhorfi gagnvart innflytjendum á samfélagsmiðlum sem endurspegli neikvætt viðhorf almennings á Möltu í garð innflytjenda. Í ljósi mikilla kynþáttafordóma á Möltu telji kærandi verulega athugavert að stofnunin hafi litið framhjá aðstæðum hennar á Möltu sem [...] konu af [...] uppruna og samlegðaráhrifum þeirra mismununarástæðna.

Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 25. gr. sömu laga gerir kærandi enn fremur athugasemdir við mat stofnunarinnar á sérstaklega viðkvæmri stöðu hennar. Í því sambandi gagnrýnir kærandi umfjöllun stofnunarinnar um andlega líðan hennar og vísar því á bug að ekki standi yfir meðferð hér á landi sem óforsvaranlegt væri að rjúfa. Gögn málsins sýni fram á að kærandi sé fórnarlamb verulegs og hrottalegs ofbeldis og fordóma [...] og hún sé verulega illa á sig komin vegna þess. Hafi hún verið í reglulegum viðtölum hjá [...], auk þess að hafa verið í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi. Með vísan til framangreinds telur kærandi að tilefni sé til að kærunefnd útlendingamála endurskoði mat stofnunarinnar um það hvort kærandi teljist einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu, þ. á m. hvað varðar húsnæðisvanda, heilbrigðismál, aðgengi að atvinnu og fordóma gagnvart innflytjendum vísar kærandi til umfjöllunar þar um í greinargerð sinni til Útlendingastofnunar.

Kærandi gerir í greinargerð fyrirvara við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Kærandi vísar m.a. til þess að þau atriði sem talin séu upp í dæmaskyni í 32. gr. a umræddrar reglugerðar geti ekki komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda hverju sinni. Kærandi telur að aðstæður hennar séu það einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Áréttar kærandi í því samhengi að frásögn hennar og þær heimildir sem hún hafi vísað til sýni fram á að hún muni eiga afar erfitt uppdráttar á Möltu vegna alvarlegrar mismununar sem þar viðgangist og takmarkaðs aðgengis að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og húsnæðis- og atvinnumarkaði. Þá komi fram í vottorði sálfræðings hjá Reykjavíkurborg að kærandi hafi einkenni áfallastreituröskunar og miðlungs eða mikil einkenni þunglyndis. Hún hafi gengið í gegnum gífurleg áföll og orðið fyrir [...] og sætt ofbeldi [...].

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem hún njóti verndar 1. mgr. 42. gr., sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi vísi til þess að íslenska ríkið sé bundið af grundvallarreglunni um non-refoulement þar sem lagt sé bann við því að senda einstakling þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu. Með vísan til heimilda verði að telja að aðstæður flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Jafnframt samræmist aðstæður þeirra skilgreiningu á ofsóknum í skilningi flóttamannahugtaksins. Kærandi telur að ákvörðun um að endursenda hana til Möltu myndi þar að auki brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í öðru lagi á því að umsókn hennar um alþjóðlega vernd hér á landi skuli tekin til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi fjallar kærandi m.a. um túlkun á 2. mgr. 36. gr. laganna, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum við ákvæðið og hugtakinu sérstaklega viðkvæm staða, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af úrskurðum kærunefndar megi m.a. ráða að stjórnvöld þurfi, við mat á því hvort sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi við, að kanna hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki, svo sem vegna einstaklingsbundinna aðstæðna sinna eða vegna almennra aðstæðna þar í landi. Þó svo að kærandi hafi ekki verið metin í sérstaklega viðkvæmri stöðu í hinni kærðu ákvörðun sé margt sem gefi til kynna að um sérstaklega viðkvæman einstakling sé að ræða. Kærandi sé [...] af erlendum uppruna sem hafi orðið fyrir hrottalegu ofbeldi í heimaríki [...].

Þessi einstaka staða hennar geri hana afar berskjaldaða fyrir hvers kyns mismunun og ofbeldi á Möltu. Þá hafi kærandi orðið fyrir fordómum á Möltu vegna kynþáttar síns en kynþáttafordómar í garð innflytjenda á Möltu sé þekkt vandamál þar í landi. Auk þess sýni áreiðanlegar heimildir fram á afar erfiðar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu.

Kærandi vísi þá m.a. til þess sem komi fram í vottorðum frá sálfræðingi hjá Reykjavíkurborg og stuðningsvottorði frá [...]. Þar komi m.a. fram að kærandi sé kvíðin, döpur og með einkenni áfallastreituröskunar. Með vísan til framangreindra gagna telur kærandi ljóst að hún sé, sem fyrr segir, einstaklingur í viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga vegna heilsufars. Þá telur kærandi af framangreindu ljóst að hún muni þurfa á félagslegri aðstoð að halda og traustu aðgengi að heilbrigðiskerfinu, en óvíst sé hvort hún komi til með að fá slíka þjónustu á Möltu.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Möltu á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun inn á Schengen-svæðið hjá maltneskum yfirvöldum. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja maltnesk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] kona sem kom hingað til lands einsömul. Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá ofbeldi sem hún hafi mátt þola í heimaríki [...]. Í komunótum frá Göngudeild sóttvarna kemur fram að kærandi sé almennt heilbrigð. Þá má sjá af gögnum málsins að kærandi hafi sótt sálfræðiviðtöl hjá sálfræðingi hjá Reykjavíkurborg í tíu skipti. Samkvæmt vottorði framangreinds sálfræðings, dags. 18. nóvember sl., sé kærandi kvíðin, döpur og með einkenni áfallastreituröskunar og þunglyndis. Kærandi hafi nýtt sér viðtölin mjög vel og sé í betra jafnvægi eftir viðtölin. Það sé mat sálfræðingsins að fylgjast verði með einkennum áfallastreituröskunar í framhaldinu og líklegt sé að kærandi þurfi markvissa sálfræðimeðferð við áfallastreituröskun, kvíða og þunglyndi þegar aðstæður hennar verði stöðugri. Kærandi hefur þá sótt [...].

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og heilsufarsgögn sem hafa verið lögð fram, beri ekki með sér að kærandi hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins.

Aðstæður á Möltu

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Möltu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 - Malta (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • [...];
  • Asylum Information Database, Country Report: Malta (European Council on Refugees and Exiles, 10. mars 2019);
  • ECRI Report on Malta (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 15. maí 2018);
  • Freedom in the World 2019 – Malta (Freedom House, 2019);• Malta 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);
  • National Action Plan Against Racism and Xenophobia (Equality Research Consortium, 2010);
  • National Report on Hate Speech and Hate Crime in Malta 2016 (E-More Project, nóvember 2016);
  • [...];
  • Progress Report 2018: A Global Strategy to Support Governments to End the Detention of Asylum seekers & Refugees, 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees (UNCHR), febrúar 2019);
  • […];
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Malta (UN High Commissioner for Refugees (UNHCR), júlí 2018);
  • Upplýsingar af vefsíðum maltneskra yfirvalda: https://integration.gov.mt/en/ResidenceAndVisas/Pages/Humanitarian-Other-Reasons.aspx og https://deputyprimeminister.gov.mt/en/cbhc/Pages/Entitlement/Health-Entitlement-to-RefugeesMigrants.aspx;
  • Upplýsingar af vefsíðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna: http://www.unhcr.org.mt;
  • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu;
  • Upplýsingar af vefsíðu félagasamtakanna Victim Support: victimsupport.org.mt;
  • Upplýsingar af vefsíðum Report Racism Malta og Reporting Hate: www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu;
  • Upplýsingar af vefsíðu maltneskra stjórnvalda: https://fsws.gov.mt/en/;

Í framangreindri skýrslu Asylum Information Database, kemur m.a. fram að tiltekin stofnun (e. Refugee Commissioner) á Möltu taki ákvarðanir varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd. Á Möltu sé einkum þrenns konar staða og vernd í boði, þ.e. flóttamannavernd, viðbótarvernd og vernd af mannúðarástæðum. Refugee Commissioner taki ákvarðanir á fyrsta stigi í málum og séu þær kæranlegar innan tveggja vikna til áfrýjunarnefndar (e. Refugee Appeals Board). Úrskurði áfrýjunarnefndarinnar sé að vissum skilyrðum uppfylltum hægt að bera undir maltneska dómstóla. Gjaldfrjáls lögfræðiaðstoð á vegum maltneska ríkisins sé ekki í boði á fyrsta stigi málsmeðferðar en hægt sé að leita til frjálsra félagasamtaka. Hljóti umsækjandi þó neikvæða ákvörðun á fyrsta stigi getur hann átt rétt á ókeypis lögfræðiþjónustu með sömu skilyrðum og eigi við um maltneska ríkisborgara.

Þá kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd hafi aðgang að maltneska vinnumarkaðnum, menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu. Samkvæmt þarlendum reglum hafi allir umsækjendur almennt aðgang að opinbera heilbrigðiskerfinu, þ.á m. geðheilbrigðisþjónustu. Einhverjar hindranir geti þó verið á aðgengi að slíkri þjónustu, t.d. vegna tungumálaörðugleika og skorts á greiningu á viðkvæmri stöðu. Þó sé reynt að koma til móts við þarfir sérstaklega viðkvæmra einstaklinga og hópa og reynt að tryggja þeim þjónustu og aðbúnað við hæfi, t.d. hvað varðar húsnæði. Vegna skorts á fjármagni og nægilegra sterkra innviða hafi það þó gerst að sérstaklega viðkvæmir einstaklingar hafi aldrei fengið greiningu sem slíkir. Þá verður ráðið að sérhæfð meðferðarúrræði séu ekki í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eru þolendur pyndinga eða sem hafa upplifað áföll.

Í framangreindri skýrslu European Commission against Racism and Intolerance frá árinu 2018 kemur m.a. fram að flóttamenn og innflytjendur sæti mismunun á Möltu, þ. á m. á vinnumarkaði. Í skýrslunni kemur einnig fram að maltnesk yfirvöld framfylgi aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju og útlendingahatri (e. National Action Plan Against Racism and Xenophobia), sem gefin var út árið 2010. Telji einstaklingar á sér brotið geta þeir m.a. leitað til nefndar um opinbera þjónustu (e. Public Service Commission), jafnréttisnefndar (e. National Commission for the Promotion of Equality), umboðsmanns þingsins (e. Parliamentary ombudsman) og dómstóla. Samkvæmt rannsókn frá árinu 2009 kváðust 29% afrískra innflytjenda hafa orðið fyrir ofbeldi, hótunum eða alvarlegu áreiti á grundvelli kynþáttar en yfir 50% árása væru ekki tilkynntar til lögreglu vegna skorts á trausti til yfirvalda. Ekki liggja fyrir aðgreind, opinber gögn um hatursglæpi á Möltu, s.s. um tíðni þeirra, kærufjölda, fjölda mála sem sæta ákæru o.s.frv. Hatursglæpir, þ. á m. á grundvelli kynþáttar og kynhneigðar, eru refsiverðir skv. maltneskum hegningarlögum. Samkvæmt ofangreindum heimildum skortir þó á eftirfylgni með löggjöfinni, fá mál eru kærð og lágt hlutfall kærumála sætir ákæruferli. Auk þess að leita til lögreglu geta þolendur hatursglæpa leitað til samtakanna Victim Support og jafnframt tilkynnt um hatursglæpi á þar til gerðum vefsíðum, www.reportracism-malta.org og reportinghate.eu. Þá kemur fram á vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal) að útlendingar á Möltu sem séu þolendur afbrota og tali hvorki né skilji maltnesku geti lagt fram kæru til lögreglu á sínu móðurmáli og eigi rétt á nauðsynlegri aðstoð við það, s.s. túlkaþjónustu. Meðan á rannsókn standi eigi þeir jafnframt rétt á túlkaþjónustu en þurfi þá að greiða fyrir þjónustuna. Þá kemur fram á ofangreindri vefsíðu IPCAN að umboðsmaður maltneska þingsins fari með rannsókn á embættisverkum maltnesku lögreglunnar.

Í framangreindum gögnum kemur fram að [...].

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Að mati kærunefndar eru einstaklingsbundnar aðstæður kæranda ekki slíkar að vegna stöðu hennar sem umsækjanda um alþjóðlega vernd á Möltu verði endursending hennar þangað talin ómannúðleg eða vanvirðandi meðferð. Þá er ekki fallist á með kæranda að aðstæður hennar þar feli í sér ofsóknir í skilningi flóttamannahugtaksins gagnvart kæranda. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd á Möltu er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að á Möltu sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð maltneskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Möltu, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hún verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf hennar eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður á Möltu verður ráðið að kærandi hafi aðgang að hinu opinbera heilbrigðiskerfi Möltu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Í ljósi fyrirliggjandi gagna telur kærunefnd ekki forsendur til annars en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti fengið viðhlítandi aðstoð á Möltu vegna heilsufarsvandamála sinna, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu. Kærunefnd telur gögn málsins ekki benda til þess að kærandi glími við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð er aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hennar sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Það er mat kærunefndar að heilsufari kæranda, eða aðstæðum hennar, sé ekki þannig háttað að hún geti ekki borið sig eftir þeirri þjónustu sem hún þarf á að halda.

Þá verður ráðið af framangreindum gögnum að kærandi geti leitað ásjár maltneskra yfirvalda verði hún fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar [...]. Má jafnframt ráða af fyrirliggjandi gögnum að óttist kærandi um öryggi sitt geti hún leitað til lögreglu eða annarra þar til bærra stjórnvalda sökum þess. Telur kærunefnd að gögn málsins beri ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hún geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að aðstæður kæranda eru ekki sambærilegar aðstæðum sem fjallað var um í úrskurðum kærunefndar útlendingamála nr. 550/2017, 552/2017, 583/2017 og 586/2017. Kærunefnd telur ljóst að ekki sé hægt að jafna stöðu kæranda við stöðu kærenda í framangreindum úrskurðum þar sem um var að ræða önnur viðtökuríki.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 2. apríl 2019 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsókn sína þann 24. janúar 2019.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að gera athugasemd við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja henni um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda að þessu leyti.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 24. janúar 2019 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hennar um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hún því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hennar um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hún verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hennar hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal flutt til Möltu innan tilskilins frests, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa maltnesk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Möltu með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Kæranda er leiðbeint um að með úrskurði kærunefndar nr. 350/2019, dags. 28. ágúst 2019, ákvað nefndin að breyta framkvæmd varðandi afmörkun 12 mánaða tímabilsins sem vísað er til í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Eins og fram kemur í úrskurðinum eru lok tímabilsins þegar fyrir liggur endanleg ákvörðun á stjórnsýslustigi vegna þess stjórnsýslumáls sem hófst með framlagningu umsóknar um alþjóðlega vernd. Þessi breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að þótt ekki komi til flutnings kæranda úr landi innan 12 mánaða frá upphafi málsins hefur það ekki þýðingu fyrir þann frest sem 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekur til. 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Áslaug Magnúsdóttir

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                               Árni Helgason

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta