Hoppa yfir valmynd
6. ágúst 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Bólusetningar, landamæri og styrking innviða

Landspítali - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Á fundi sínum í morgun ræddi ríkisstjórnin ýmis atriði er lúta að aðgerðum vegna COVID-19. Brýnast er að herða aðgerðir á landamærum, styrkja innviði heilbrigðiskerfisins og bæta við örvunarbólusetningum vegna COVID-19. 

I. Aðgerðir á landamærum

Ákveðið var að bólusettir farþegar og þau sem hafa vottorð um fyrri sýkingu með tengsl við Ísland þurfi frá og með 16. ágúst að fara í sýnatöku innan 48 klukkustunda frá komu til landsins. Áfram eru börn fædd 2016 og síðar undanskilin. 

Einstaklingar með tengsl við Ísland teljast:

  • Íslenskir ríkisborgarar
  • Einstaklingar búsettir á Íslandi
  • Einstaklingar með atvinnuleyfi á Íslandi
  • Umsækjendur um atvinnuleyfi eða alþjóðlega vernd á Íslandi

Umræddir farþegar munu ekki þurfa að sæta sóttkví þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að fólk fari annaðhvort í hraðpróf (antigen) eða PCR-próf, en nánara fyrirkomulag verður unnið í samráði við sóttvarnalækni. Þá verður hægt að fara í sýnatöku annaðhvort á landamærum eða á sýnatökustöð innan tímamarkanna og verður sýnatakan gjaldfrjáls. Heimilt verður að sekta þá einstaklinga sem ekki fara í sýnatöku innan tiltekins tíma.

II. Styrking innviða heilbrigðiskerfisins

Nauðsynlegt er að styrkja heilbrigðiskerfið til þess að takast á við faraldurinn og aðra slíka faraldra til lengri tíma. Vinna við slíka áætlun er nú hafin í ráðuneytinu. Nú þegar hefur verið gripið til ýmissa aðgerða svo sem á Landspítala. 

Þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í eða eru í burðarliðunum eru eftirfarandi:

Mönnun

Forstöðumenn stofnana hafa kallað heilbrigðisstarfsfólk úr sumarleyfum til þess að bregðast við auknum fjölda innlaga í kjölfar smita. Jafnframt var bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar endurvakin til þess að bregðast við auknu álagi innan heilbrigðiskerfisins og ákveðið hefur verið að kalla til heilbrigðisstarfsfólk sem nýlega hefur hafið töku lífeyris. 
Mikið álag hefur verið á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við sýnatökur þar sem þúsundir sýna eru tekin hvern dag. Ákveðið var að stofna sérstaka sýnatökusveit þar sem fólk getur boðið sig fram til aðstoðar við sýnatökur og gengur mönnun vel.

Landspítali

Til stendur að opna fleiri gjörgæslurými á Landspítala auk þess að breyta á nýtingu á Landakoti og fjölga þar með hjúkrunarrýmum, þ.m.t. endurhæfingarrýmum og líknarrýmum.
Tillögur eru jafnframt væntanlegar frá Landspítala um styrkingu veiru- og sýklafræðideildar til framtíðar auk þess um styrkingu á tækjabúnaði spítalans til rannsókna. 

Þá er til skoðunar að koma á fót sérstakri Covid-einingu á Landspítala sem myndi starfa til lengri tíma.

Hjúkrunarrými og þjónusta við aldraða

Gripið hefur verið til margvíslegra aðgerða til þess að létta á Landspítala og með því að bæta þjónustu við aldraða. Búið er að tryggja 30 rými utan spítalans fyrir aldraða, en frá og með næstu viku munu Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja taka við sjúklingum frá Landspítala. Þá mun Heilbrigðisstofnun Vesturlands aðstoða Landspítala varðandi mönnun fagfólks. 

Sjúkratryggingar Íslands hafa hafið vinnu við gerð samninga um endurhæfingarrými fyrir aldraða, líknarrými, hjúkrunarrými og skammtímarými. Jafnframt er unnið að opnun tíu Covid-rýma á höfuðborgarsvæðinu. 

Einnig stendur til að gera breytingu á reglugerð um færni- og heilsumat til þess að liðka fyrir útskriftum af Landspítala.

Aðrar aðgerðir

Til skoðunar er að lengja opnunartíma Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á einhverjum starfsstöðum auk þess stendur til að ráða fleira fólk til stofnunarinnar sem og í netspjall Heilsuveru. 

III. Bólusetningarátak

Hér á landi hefur náðst mjög góður árangur í bólusetningu en til að efla varnir gegn delta afbrigðinu eru nú hafnar örvunarbólusetningar, í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis.
Þeir hópar sem brýnast er að fái örvunarbólusetningu eru:

  1. Einstaklingar án sögu um COVID-19/mótefni sem bólusettir voru með Janssen bóluefni, en það eru um 53.000 manns og er þegar hafin bólusetning á þessum hópi.
  2. Skjólstæðingar hjúkrunarheimila og aðrir mjög viðkvæmir þjónustuþegar velferðarþjónustu (áður hópur 3) og verður þá farið inn á hjúkrunarheimilin og þeim boðin örvunarbólusetning sem vilja þiggja. Um 14.000 manns er að ræða á landinu öllu.
  3. 80 ára og eldri utan hjúkrunarheimila sem eru um 12.000 manns á landsvísu og yrðu boðaðir miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar eða á opna daga.
  4. Mjög ónæmisbældir einstaklingar með áframhaldandi ónæmisbælingu og yrðu boðaðir miðlægt út frá tímasetningu grunnbólusetningar og greiningarskráningu í gögnum landlæknis. Sérfræðilæknar geta óskað eftir því að sjúklingahópi/greiningum sé bætt við með samskiptum við sóttvarnalækni eða einstaklingum sé bætt við með læknabréfi til heilsugæslu viðkomandi. Sá hópur er um 1.000 manns. 
  5. 60 ára og eldri utan hjúkrunarheimila sem eru um 60.000 á landinu öllu. 

Um aðra hópa, svo sem yngri einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu, þarf að fjalla þegar ofangreint er komið vel á veg. Áætlað er að örvunarbólusetningar þessara hópa fari fram á næstu vikum og ljúki í september. 

Loks er hafinn undirbúningur að því að bjóða bólusetningu fyrir 12–15 ára börn. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta