Ráðherra undirritar samning um varðveislu minja frá Kvískerjum
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í gær samning við Sveitarfélagið Hornafjörð um skráningu, flokkun og varðveislu minja frá Kvískerjum.
Menningarmiðstöð Hornafjarðar tekur að sér verkefnið, sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið mun styðja með 12 milljóna króna framlagi.
Jörðin Kvísker í Öræfum liggur vestan Breiðamerkursands og austan Skeiðarársands, milli sanda. Norðan bæjarins gnæfir Öræfajökull.
Fyrri eigendur Kvískerja, níu systkini, unnu saman að uppbyggingu jarðarinnar á 20. öld, bæði sem bújarðar og fræðaseturs. Bræðurnir, sjálfmenntaðir fræðimenn, eru þekktir fyrir fræðistörf sín og uppfinningar. Áhugasvið bræðranna var víðtækt og spannaði jurta- og dýrafræði, jöklafræði, sagnfræði, tungumál og búfræði.
Jörðin Kvísker hefur talsvert hátt verndargildi vegna náttúrufars á svæðinu. Auk þess hefur jörðin gildi m.t.t. þeirra fræðistarfa á sviði náttúruvísinda sem þar fóru fram, auk þess sem minjagildi er mikið vegna allra þeirra minja og muna sem finna má á jörðinni og tengjast því starfi.
Kvískerjasystkinin eru nú öll látin og leituðu núverandi eigendur jarðarinnar liðsinnis stjórnvalda í því skyni að bjarga minjum sem Kvískerjasystkinin létu eftir sig á staðnum og móta stefnu um framtíð jarðarinnar.
„Það er ánægjulegt að geta stutt þá vinnu sem nú fer í hönd við að varðveita muni og minjar sem finna má hér á Kvískerjum. Starf Kvískerjasystkinanna er mikilvæg heimild um það mikla rannsóknarstarf í þágu náttúruvísinda sem þau unnu að hér á jörðinni,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra