Hoppa yfir valmynd
7. júní 2021 Forsætisráðuneytið

1007/2021. Úrskurður frá 11. maí 2021.

Úrskurður

Hinn 11. maí 2021 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1007/2021 í máli ÚNU 20120018.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 16. desember 2020, kærði A, fréttamaður RÚV, ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni hans um aðgang að stefnu í máli E-5061/2020, íslenska ríkið gegn  B.

Kærandi beindi beiðni um afhendingu stefnunnar upphaflega til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, með bréfi, dags. 16. nóvember 2020. Ráðuneytið fól embætti ríkislögmanns að svara erindinu. Með bréfi, dags. 16. desember 2020, synjaði ríkislögmaður beiðni kæranda m.a. á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir samþykki stefndu í málinu fyrir því að stefnan yrði afhent. Ríkislögmaður teldi ljóst að málið varðaði einkamálefni einstaklings sem sanngjarnt væri og eðlilegt að leynt færi, sbr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Það væri einnig afstaða embættisins að ekki væri hægt að veita aðgang að hluta skjalsins þar sem viðkvæmar upplýsingar samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga kæmu fram svo víða í skjalinu. Jafnframt er vísað til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga.

Ríkislögmaður lýsti jafnframt þeirri afstöðu sinni að upplýsingalög giltu ekki um gögn sem lögð væru fram í dómi og væru í vörslu dómstóla, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingaga. Um afhendingu upplýsinganna færi eftir 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og reglum dómstólasýslunnar nr. 9/2018, um aðgang að upplýsingum og gögnum hjá héraðsdómstólum. Þá var vísað til þess að héraðsdómari hefði þegar synjað beiðni um afhendingu stefnunnar.

Í kæru kemur fram að kærandi sé ósáttur við svar ríkislögmanns við beiðninni og óski eftir að kæra niðurstöðu embættisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögmanni með bréfi, dags. 21. desember 2020, og honum veittur kostur á að koma á framfæri umsögn vegna hennar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ríkislögmanns, dags. 13. janúar 2021, kemur fram að mál þetta komi til vegna úrskurðar kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 6/2020 frá 27. maí 2020. Þar taldi kærunefndin að mennta- og menningarmálaráðherra hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við skipun í embætti ráðuneytisstjóra. Fyrir liggi að sambærilegri beiðni hafi verið synjað af Héraðsdómi Reykjavíkur en dómarinn hafði áður borið beiðnina undir lögmann stefndu sem lagðist gegn afhendingu. Synjun embættis ríkislögmanns sé í fyrsta lagi byggð á 9. gr. upplýsingalaga. Embættið telji ljóst að málið varði einkamálefni einstaklings sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Þá liggi fyrir að stefnda leggist gegn afhendingu stefnunnar en embættið bar framkomna beiðni undir lögmann stefndu á nýjan leik. Málið varði umsókn um opinbert embætti. Í umsóknarferlinu var fjallað með ítarlegum hætti um starfsferil stefndu, menntun o.fl. Enda þótt úrskurður kærunefndar hafi verið birtur sé á það að líta að nöfn hafi þar verið afmáð. Sé því ekki hægt að líta svo á að upplýsingar um stefndu hafi verið gerðar opinberar. Í ljósi eðlis upplýsinganna sé það afstaða ríkislögmanns að óheimilt sé að veita aðgang að stefnunni. Þá vísar embættið einnig til 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til gagna í málum sem varði umsóknir um starf. Ljóst sé að þær upplýsingar sem fram komi í stefnu séu langt umfram slíkar upplýsingar.

Þá segir að ríkislögmaður hafi tekið afstöðu til þess hvort unnt væri að veita aðgang að hluta skjalsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Það er hins vegar afstaða ríkislögmanns að upplýsingar sem njóti verndar samkvæmt 7. og 9. gr. upplýsingalaga komi fram svo víða í skjalinu að ekki sé unnt að veita aðgang að því.

Loks er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem eru hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Ríkislögmaður telur að ákvæði réttarfarslaga gildi um aðgang aðila og annarra að slíkum gögnum. Af ákvæði 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála leiði m.a. að óheimilt sé að afhenda öðrum en þeim sem hafi lögvarinna hagsmuna að gæta eftirrit málsskjala á meðan mál er rekið fyrir dómi. Embættið telur einsýnt að sá sem ekki eigi rétt á að dómstólar veiti honum aðgang að málsgagni í máli sem rekið er fyrir dómi geti ekki öðlast rétt til aðgangs að málsgagninu eftir krókaleiðum. Að öðru leyti er vísað til fyrri afstöðu embættisins í umsögnum þess í eldri málum sem lokið hefur með úrskurðum í málum nr. 885/2020, 886/2020 og 928/2020.

Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með bréfi, dags. 13. janúar 2021, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða

1.
Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er blaðamaður, til aðgangs að stefnu íslenska ríkisins á hendur stefndu, B, í máli E-5061/2020.

Í umsögn ríkislögmanns vegna kærunnar er áréttuð fyrri afstaða ríkislögmanns að upplýsingalög gildi ekki um stefnur sem eru hluti af málsskjölum í dómsmáli, sbr. 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Um aðgang að slíkum gögnum fari samkvæmt 14. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í 5. mgr. 2. gr. upplýsingalaga segir að lögin taki til dómstóla og dómstólasýslunnar að frátöldum ákvæðum V.-VII. kafla. Lögin gildi þó ekki um gögn í vörslu þeirra um meðferð einstakra dómsmála og endurrit úr dómabók, gerðabók og þingbók.

Þrátt fyrir að ekki verði séð að synjun ríkislögmanns í máli þessu sé beinlínis reist á þessari afstöðu telur úrskurðarnefndin engu að síður rétt að vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 885/2020, 886/2020 og 928/2020 um að ekki standi rök til þess að telja skjöl í vörslum stjórnvalda eða aðila sem falla undir 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga undanþegin gildissviði laganna þegar af þeirri ástæðu að þau hafi verið lögð fram í dómsmáli. Í úrskurðunum er vakin athygli á því að ef fallist væri á gagnstæða túlkun myndi það hafa í för með sér að réttur almennings til aðgangs að gögnum hjá stjórnvöldum og öðrum aðilum en dómstólum sem féllu undir upplýsingalög yrði í reynd óvirkur um leið og sömu gögn yrðu lögð fyrir dóm í einkamáli.

Með vísan til þessa er leyst úr rétti kæranda til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.-10. gr. laganna.

2.
Ákvörðun ríkislögmanns um að synja beiðni kæranda er fyrst og fremst reist á 9. gr. upplýsingalaga. Þá er vísað til þess að stefnda í málinu sé auk þess mótfallin afhendingu stefnunnar. Samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari segir í athugasemdunum:

„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“

Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra, hagsmunir þeirra sem um er fjallað í stefnunni af því að upplýsingunum sé haldið leyndum eða þeir hagsmunir sem meginreglu upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings er ætlað að tryggja. Við það mat verður að hafa í huga það meginmarkmið laganna að tryggja gegnsæi í stjórnsýslu og við meðferð opinberra hagsmuna, meðal annars í þeim tilgangi að styrkja aðhald fjölmiðla og almennings að opinberum aðilum og möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni. Þá er tiltekið í 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga að ef ákvæði 6.-10. gr. um takmarkanir á upplýsingarétti eiga aðeins við um hluta gagns skuli veita aðgang að öðrum hlutum þess.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur yfirfarið stefnuna sem beiðni kæranda lýtur að. Í stefnunni er þess krafist að úrskurður kærunefndar jafnréttismála frá 27. maí 2020 í máli nr. 6/2020 verði felldur úr gildi. Með úrskurðinum komst kærunefndin að þeirri niðurstöðu að mennta- og menningarmálaráherra hefði við skipun í embætti ráðuneytisstjóra brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 en stefnda var á meðal umsækjenda um embættið. Nánar tiltekið var það niðurstaða kærunefndarinnar að stefnda, sem kærði skipunina til kærunefndarinnar, hefði leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við skipunina þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því kom það í hlut ráðherra að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu ráðherra.

Úrskurðurinn var birtur opinberlega á vef Stjórnarráðsins í samræmi við 8. mgr. 5. gr. þágildandi laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Í úrskurðinum er öllum málsatvikum lýst og málsástæður og röksemdir stefndu raktar. Nöfn einstaklinga eru afmáð í hinum birta úrskurði en í ljósi ítarlegrar lýsingar í úrskurðinum á starfsferli kæranda og þess umsækjanda sem skipaður var í embættið er auðvelt að bera kennsl á hver kærandi og sá sem skipaður var eru. Að öðru leyti þá var kveðið á um það í lokamálslið 4. mgr. 7. gr. þágildandi laga nr. 10/2008 að fara skyldi með gögn sem vörðuðu laun, önnur starfskjör eða réttindi einstaklinga fyrir nefndinni sem trúnaðarmál. Rétt er að taka fram að eftir að ríkislögmaður synjaði beiðni kæranda kvað Héraðsdómur Reykjavíkur upp dóm í málinu þann 5. mars 2021, sbr. mál nr. E-5061/2020. Í dóminum er málsatvikum lýst sem og dómkröfum íslenska ríkisins sem snúa m.a. að ógildingu umrædds úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Þannig hafa nöfn stefndu sem og þess einstaklings sem skipaður var í embætti ráðuneytisstjóra og fjallað var um í úrskurði kærunefndarinnar og stefnu íslenska ríkisins nú verið birt opinberlega, með lögmætum hætti, samhliða kröfum íslenska ríkisins um ógildingu umrædds úrskurðar kærunefndarinnar.

Eins og að framan er rakið lýtur mál þetta að því hvort almenningur eigi rétt á að kynna sér efni stefnu í dómsmáli sem varðar lögmæti úrskurðar kærunefndar jafnréttismála þar sem fjallað er um ákvörðun ráðherra um skipun í opinbert embætti og þar með ráðstöfun mikilvægra opinberra hagsmuna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga hefur nefndin horft til þess að almennt sé ekki hægt að líta svo á að upplýsingar sem gerðar hafa verið opinberar með lögmætum hætti séu upplýsingar um einkamálefni sem óheimilt sé að greina frá, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 11. september 2017 í máli nr. 704/2017, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis frá 9. febrúar 2009 í máli nr. 5142/2007. Þar af leiðandi getur úrskurðarnefndin ekki fallist á að þær upplýsingar sem fram koma í stefnunni og þegar höfðu verið birtar opinberlega í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. laga nr. 10/2008 þegar ríkislögmaður synjaði beiðni kæranda um aðgang séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt. Það er því niðurstaða nefndarinnar að þær upplýsingar sem þegar hafa verið birtar með slíkum hætti verði ekki felldar undir 9. gr. upplýsingalaga.

Í stefnunni er hins vegar einnig að finna upplýsingar sem ekki eru reifaðar í úrskurði kærunefndarinnar og bera það með sér að vera unnar upp úr gögnum og upplýsingum sem aflað var í tengslum við skipunarferlið og lágu til grundvallar ákvörðun ráðherra um skipun í embætti ráðuneytisstjóra. Eins og áður segir byggir ríkislögmaður synjun sína m.a. á 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga þar sem segir að réttur almennings til aðgangs að upplýsingum taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf. Úrskurðarnefndin tekur fram að stefnan er ekki hluti af gögnum sem lágu til grundvallar ákvörðun um skipun í embættið og verður synjun um aðgang að henni því ekki með beinum hætti reist á 1. mgr. 7. gr. laganna.

Hvað sem því líður verður við mat á því hvort rétt sé að halda upplýsingum leyndum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að meta hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt gagnvart þeim einstaklingum sem upplýsingarnar varða, að þær lúti leynd. Við það mat telur úrskurðarnefndin að horfa verði til þess að með áðurnefndu ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga hefur Alþingi ákveðið að upplýsingar og gögn sem lúta að umsóknum um starf skuli undanþegnar upplýsingarétti almennings. Af þeim sökum telur úrskurðarnefndin að umsækjendur um opinber störf og embætti eigi almennt að geta vænst þess að upplýsingar sem til verða við undirbúning ákvarðana um veitingu starfa og embætta verði ekki gerðar opinberar.

Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefndin á að sanngjarnt sé og eðlilegt að afmá upplýsingar sem fram koma í málsgreinum 55 og 56 á blaðsíðu 14 í stefnunni og upplýsingar sem fram koma í línu 14 og áfram í málsgrein 59 á blaðsíðu 15 í stefnunni en þar er að finna beinar tilvitnanir í umsögn hæfnisnefndar þar sem frammistöðu umsækjenda í viðtölum var lýst. Með sömu rökum telur úrskurðarnefndin rétt að afmá úr stefnunni nöfn og umfjöllun um aðra umsækjendur en stefndu og þann umsækjanda sem skipaður var í embættið. Þó ber ekki að afmá upptalningu á umsækjendum sem fram kemur í málsgrein 6 í stefnunni á blaðsíðu 3 en samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er skylt að veita upplýsingar um umsækjendur um opinbert starf.

Úrskurðarorð:

Embætti ríkislögmanns er skylt að veita kæranda, A, fréttamanni RÚV aðgang að stefnu í máli íslenska ríkisins gegn B í máli E-5061/2020. Þó er skylt að afmá eftirfarandi upplýsingar:

1. Upplýsingar sem fram koma í málsgreinum 54 og 55 á blaðsíðu 14 í stefnunni.
2. Upplýsingar sem fram koma í línu 14 og áfram í málsgrein 59 á blaðsíðu 15 í stefnunni.
3. Nöfn og umfjöllun um aðra umsækjendur en stefndu og þann umsækjanda sem skipaður var í embættið


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Kjartan Bjarni Björgvinsson Sigríður Árnadóttir




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta