Ársskýrsla eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga komin út
Komin er út ársskýrsla eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga fyrir starfstímabilið október 2016 til september 2017. Fram kemur í inngangi skýrslunnar að rekstrarniðurstaða sveitarfélaga árið 2016 sé betri en árin á undan, nettó skuldir hafi lækkað og á heildina litið virðist fjárhagsstaða þeirra ágæt.
Ársskýrslan hefur að geyma yfirlit um þróun fjármála sveitarfélaga, m.a. um tekjur og gjöld, skuldir og fjárhagsáætlanir auk ársreikninga. Einnig er gerð grein fyrir helstu verkefnum í starfsemi nefndarinnar á tímabilinu.
Einnig er fjallað um lífeyrisskuldbindingar sveitarfélaga og segir að flest sveitarfélög muni fjármagna auknar lífeyrisskuldbindingar sínar með lántöku sem muni hækka nokkuð skuldahlutfall þeirra. Í inngangi skýrslunnar er þess einnig getið að misbrestur hafi verið á meðferð frávika eða viðbótarútgjalda sveitarfélaga og telji nefndin nauðsynlegt að efla skilning sveitarstjórna á lagaákvæði um meðferð slíkra frávika.