Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 148 Hjálpartæki

A

gegn


Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 17. maí 2006 kærir B, iðjuþjálfi f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk til kaupa á fjórhjóli.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með umsókn dags. 5. desember 2005, mótt. 30. mars 2006 sótti kærandi um styrk til kaupa á fjórhjóli, vegna máttminnkunar í fótleggjum af völdum MS sjúkdóms.


Umsókninni var synjað með bréfi Tryggingastofnunar þann 7. apríl 2006.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir:


Í úrskurði TR er einungis farið yfir löggjöfina um hvaða hjálpartæki er unnt að fá styrk til kaupa á, en hvergi kemur fram að tilit sé tekið til aðstæðna A, sem eru vel lýst í fylgiskjali merkt Gátlisti við val á fjórhjóli. A greindist með MS árið 2002, og er nú með máttminnkunn í báðum fótleggjum. Hún hefur haldið góðum styrk í handleggjum og efri líkama. Vegna máttminkunnarinnar er göngugeta A mjög skert, og á góðum degi og við bestu aðstæður gengur hún mest 150 - 200 metra með göngugrind. Vegna þessa hefur hún ekki getað sinnt búskapnum að undanförnu. Hún er bóndakona í C, austan við D. Sótt er um fjórhjól til að auðvela A að stunda sinn búskap og til að komast um landareignina. Aðstæður eru þannig í sveitinni að A getur ekki notast við handknúinn hjólastól þar sem jarðvegur er ósléttur og blautur (möl, þúfur, ójöfnur í veginum, hátt gras), og engir malbikaðir eða steyptir vegir. Hún getur heldur ekki notast við rafmagnshjólastól né rafskutlu, þar sem hjólinn eru ekki nógu stór fyrir ósléttan jarðveg. Rafmagnahjólastólar og rafskutlur eru gerðar fyrir malbikaðan, sléttan veg. Oft eru aðstæður þannig að jarðvegurinn er blautur og mjúkur, þannig að lítil dekk, eins og á rafmagnshjólastól og rafskutlu, sökkva í jarðveginn og festast. Það er líka erfitt að komast ferða sinna þar sem jarðvegurinn er ójafn eins og er í kringum sveitabæi. A þarf að geta komist um landareignina í hvaða veðri sem er og við hvaða aðsæður sem er. Þannig gæti hún þurft að fara yfir möl, móa, þúfur, snarrrót, brekkur og vegi með háum hrygg í miðjunni. Í þessu tilviki er fjórhjól eina farartækið sem A kemst ferða sinna í sveitinni. Það er stöðugra heldur en rafmagnshjólastóll eða rafskutla og er því eina faratækið sem hentar A. Fjórhjól er þeim eiginleikum gætt að hægt er að komast á því yfir mismunadi jarðveg sem er ósléttur og blautur. Á fjórhjóli kemst A í útihúsin og á engjarnar og getur því haldið áfram að sinna búskapnum með manni sínum. Fjórhjól myndi einnig gera henni kleift að komast upp að veginum, sem liggur að bænum, til að sækja dagblöðin og póstinn og aðrar sendingar sem koma til þeirra. Við aðstæður eins og eru hjá A, þarf hún einnig að geta haldið faratækinu hreinu og það er auðvelt að spúla fjórhjól, þegar þess þarf. En það er ekki svo auðvelt að þrífa rafmagnshjólastól eða rafskutlu, þegar möl og drulla hafa safnast á þau.


Í úrskurði TR er fjórhjóli líkt við bíl, þar sem þessi tvö faratæki ganga fyrir bensíni. Það er algjörlega út í hött að líkja þessu saman. Fjórhjól er mun léttara heldur en bíll, og honum er ætlað að aka á vegum og götum en ekki utan vegar og á túnum, eins og fjórhjóli. Auk þess myndi bíll eyðileggja tún og engjar vegna þungans.


Ef A byggi í borg eða bæ, þá myndi rafmagnshjólastóll eða rafskutla henta henni mjög vel. En aðstæður hennar eru ekki þannig og það hefur ekki verið tekið tilit til þess í úrskurði TR. Í úrskurðinum kemur hvergi fram að tekið sé tilit til rökstuðningsins um það af hverju A eigi rétt á fjórhjóli. Í úrskurðinum er farið yfir löggjöfina, en ekkert komið inn á að um einstakling sé að ræða, einstakiling með sérþarfir og því er ekki hægt að segja að um einstaklingsmiðaða þjónustu sé að ræða af hálfu TR. Því kæri ég þennan úrskurð þar sem greinilega er verið að mismuna einstaklingum eftir búsetu og ekki er tekið tilit til rökstuðningsins um hvernig aðstæður eru hjá A.”


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 26. maí 2006. Barst greinargerð dags. 7. júní 2006. Þar segir:


„Áðurnefndri umsókn var synjað 7. apríl 2006 á grundvelli reglugerðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis nr. 460/2003 um styrki Trygginga­stofnunar ríkisins vegna hjálpartækja með síðari breytingum. Hún kveður endanlega á um hvaða hjálpartæki er unnt að fá styrk til kaupa á og byggist synjunin þegar á því að reglugerðin tekur ekki til fjórhjóla. Í reglugerðinni segir enn fremur að meta skuli þörf á hjálpartæki eftir færni og sjúkdómi hvers og eins umsækjanda og kveður hún á um þau skilyrði sem uppfylla þarf í hverju tilfelli. Í reglugerðinni kemur fram að einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Samkvæmt reglugerðinni er styrkur veittur til að bæta möguleika viðkomandi einstaklings til að sjá um daglegar athafnir.

Eins og að framan er getið kveður reglugerð nr. 460/2003 endanlega á um hvaða hjálpartæki er unnt að fá styrk til kaupa á. Reglugerðin nær ekki yfir fjórhjól, sem er bensíndrifið hjól með meiri hámarkshraða en 10 km/klst.. Þau tæki sem reglugerðin tekur til og kæmust næst fjórhjólum eru e.t.v. rafdrifnir hjólastólar. Til samanburðar má nefna að þeir eru drifnir með rafgeymum þar sem hámarkshraði þeirra takmarkast við 10 km/klst. Í fylgiskjali með reglugerð er enn fremur kveðið á um að rafdrifinn hjólastóll sé veittur vegna skaða, sjúkdóms eða verulegrar minnkunar á almennri færni og ef talið er nauðsynlegt og hagkvæmt að bæta möguleika viðkomandi á að sjá um daglegar athafnir. Fagaðili þarf að meta þörf fyrirfram. Matið byggist fyrst og fremst á hvort að viðkomandi hafi skertan kraft í handleggjum eða að handarfærni muni skaðast við not á handdrifnum hjólastól, svo og er tekið tillit til getu einstaklingsins í heild. Rafdrifnir hjólastólar eru almennt einungis samþykktir ef viðkomandi getur ekki notað handdrifinn hjólastól eða ekki komist lengri ferða á handdrifnum hjólastól. Rafdrifinn hjólastóll er ekki samþykktur til útivistar einungis.


Samkvæmt upplýsingum með umsókn gengur A án gönguhjálpartækja innandyra og notar göngugrind utandyra en hefur lítið gönguþol. Í apríl 2006 fékk hún samþykktan handdrifinn hjólastól frá TR. A hefur ekki sótt um rafdrifinn hjólastól. Hins vegar kemur fram að hún hefur hug á að nota fjórhjólið við búskap en hún er bóndi og ætlar sér fjórhjólið við búskapinn. Sótt er um Bombardier Traxter 500 fjórhjól en það er bensíndrifið ökutæki, svo kallað torfærutæki. Fjórhjól eru skráningarskyld ökutæki og það þarf að hafa ökupróf til að aka slíku hjóli. Samkvæmt upplýsingum frá öryggismálum Umferðarstofu má ekki vera á fjórhjóli í umferðinni, og reyndar ekki utan vega skv. lögum um náttúruvernd. Akstur torfærutækja hefur verið leyfður á afmörkuðum svæðum í samráði við lögregluembættin og leyfður innan sérstakra afmarkaðra brauta sem er undir stjórn viðurkennds akstursíþróttafélags. Einnig er litið svo á að mönnum sé heimilt að aka þessum tækjum innan einkalanda svo sem við sveitastörf.

Bombardier Traxter 500 fjórhjólin eru sjálfskipt fjórfjól, með fjórgengismótor sem gengur fyrir bensíni og með 12 volta rafkerfi. Þessi fjórhjól geta náð u.þ.b. 80-90 km hraða á klst. Til samanburðar við rafdrifna hjólastóla, þá eru rafdrifnir hjólastólar drifnir af 24 volta rafkerfi (tveimur l2 volta rafgeymum), þeir geta náð mest 10 km hraða á klst, það þarf ekki nein sérstök réttindi til að aka þeim og þeir eru ekki skráningarskyldir. Því mætti jafna fjórhjólum frekar við bifreiðir en rafdrifna hjólastóla.

Ekkert fordæmi er fyrir því að fjórhjól hafi verið samþykkt sem hjálpartæki. Ennfremur er vísað til sams konar kærumáls, nr. 371/2004 frá janúar 2005 þar sem felldur var synjunarúrskurður. Reglum sem varða þessi atriði hefur ekki verið breytt frá þeim tíma.


Bent er á að hægt er að sækja um tæki til atvinnu til Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra skv. 27. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og hefur umboðsmanni A verið bent á þá leið.”


Greinargerðin var send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 9. júní 2006 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Bárust athugasemdir iðjuþjálfa dags. 19. júní 2006. Þar er óskað eftir að litið verði til sérstakra aðstæðna kæranda og þá segir að ekki sé hægt að líkja saman fjórhjóli og rafknúnum hjólastól eða bíl. Athugasemdirnar voru kynntar Tryggingastofnun. Barst bréf hjálpartækjanefndar Tryggingastofnunar dags. 23. júní 2006 og var það sent umboðsmanni kæranda til kynningar.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk til kaupa á fjórhjóli. Kærandi greindist með MS árið 2002 og er nú með máttminnkun í báðum fótleggjum, en hefur góðan styrk í handleggjum og efri hluta líkamans.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir að fjórhjól myndi auðvelda kæranda að stunda búskap sinn og komast um landareignina. Önnur farartæki henti henni ekki til þess. Við afgreiðslu umsóknar kæranda hjá Tryggingastofnun hafi ekki verið tekið tillit til aðstæðna hennar.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er vísað til reglugerðar nr. 460/2003 þar sem kveðið sé endanlega á um hvaða hjálpartæki er unnt að fá styrk til kaupa á. Reglugerðin nái ekki yfir fjórhjól, sem séu skráningarskyld ökutæki. Umrætt tæki sé ætlað til atvinnu og lög um málefni fatlaðra nái til styrkja vegna tækja til atvinnu. Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra fari með slík mál.

Samkvæmt 33. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er það hlutverk Tryggingastofnunar ríkisins að veita styrk til að afla hjálpartækja sem nauðsynleg eru vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð. Það verður að meta sérstaklega í hverju tilviki fyrir sig með tilliti til aðstæðna og fötlunar hvort skilyrði um nauðsyn sé uppfyllt.


Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. skal ráðherra setja reglugerð um greiðslur samkvæmt 33. gr. Gildandi reglugerð er nr. 460/2003.


Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2003 segir:


„Tryggingastofnun ríkisins greiðir styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda fólki að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar. Hjálpartækið verður jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að bæta möguleika viðkomandi einstaklings til að sjá um daglegar athafnir. Styrkur er ekki greiddur ef hjálpartæki er eingöngu til nota í frístundum eða til afþreyingar (þ.á m. útivist og íþróttir). Þá er ekki veittur styrkur til að kaupa tæki sem fólk notar almennt nema þegar um er að ræða aukabúnað eða séraðlögun.”


Eins og fram kemur í rökstuðningi með umsókn kæranda þá er hún bóndakona og er sótt um fjórhjól til að auðvelda henni að stunda sinn búskap og til að komast um landareignina. Fjórhjólið er því fyrst og fremst atvinnutæki en síður til þess fallið að auka sjálfsbjörg kæranda, öryggi og/eða þjálfun. Að mati nefndarinnar fellur fjórhjólið því ekki að skilgreiningu reglugerðarinnar á hjálpartæki sem að mati nefndarinnar er á málefnalegum rökum reist. Tryggingastofnun hefur bent á að í þeim tilvikum sem fjórhjól eru atvinnutæki eigi umsóknir um styrki undir lög um málefni fatlaðra.


Í fylgiskjali með reglugerð nr. 460/2003 eru talin upp þau hjálpartæki sem Tryggingastofnun veitir styrk til kaupa á. Úrskurðarnefndin telur að þar til bærum stjórnvöldum sé heimilt að gera lista yfir þau hjálpartæki sem greidd eru að hluta eða fullu úr opinberum sjóðum. Slíkur listi er fyrst og fremst leiðbeinandi en getur ekki verið tæmandi um þau hjálpartæki sem heimilt er að taka þátt í að kaupa. Meta verður það í hverju tilfelli fyrir sig, hvort hjálpartækið falli að skilgreiningu reglugerðarinnar á hjálpartæki og hvort skilyrði nauðsynjar séu uppfyllt. Önnur sjónarmið geta einnig komið til skoðunar svo sem val á tegundum hjálpartækja út frá kostnaðarsjónarmiðum, enda kostnaður greiddur af almannafé. Hjálpartækjalistinn feli í sér almenna reglu en til þess að mögulega sé heimilt í undantekningartilvikum að víkja frá upptalningu í fylgiskjali með reglugerð og heimila styrk vegna kaupa á öðrum tækjum en talin eru upp í fylgiskjalinu þurfa að vera sérlega ríkar ástæður og viðkomandi hjálpartæki í raun sambærilegt tækjum sem fyrir eru á listanum. Fylgiskjal með reglugerð nr. 460/2003 felur í sér upptalningu á hjálpartækjum sem Tryggingastofnun styrkir. Fjórhjól eru ekki á þeim lista og ekki sambærileg tæki og að mati nefndarinnar hefur kærandi ekki sýnt fram á nauðsyn þess til sjálfsbjargar, öryggis eða þjálfunar.


Það er niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að ekki sé heimilt samkvæmt gildandi reglum að veita styrk vegna kaupa á fjórhjóli og því er synjun Trygginga­stofnunar staðfest í tilviki kæranda.



Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn A um styrk til kaupa á fjórhjóli er staðfest.


F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta