Spennandi samstarfsmöguleikar fyrir atvinnulíf í þróunarsamvinnu
„Samstarfssjóðnum er ætlað að skapa ný tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf með styrkjum í tengslum við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og þróunarsamvinnu. Þátttaka atvinnulífsins í uppbyggingu í þróunarríkjunum er lykilatriði ef við ætlum okkar að ná Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra en utanríkisráðuneytið auglýsir nú í fyrsta sinn eftir umsóknum um styrki sem veittir eru úr nýjum Samstarfssjóði við atvinnulíf um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna vegna samstarfsverkefna í þróunarríkjum.
Hlutverk sjóðsins er að hvetja til þátttöku og framlags atvinnulífs til þróunarsamvinnu. Markmiðið er að draga úr fátækt og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í fátækum ríkjum heims í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Til úthlutunar að þessu sinni eru allt að 100 milljónir króna.
„Hefur fyrirtæki þitt áhuga á að leggja sitt af mörkum til að ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og á sama tíma sækjast eftir nýjum viðskiptatækifærum og aukinni samkeppnishæfni? Samstarfssjóðurinn skapar ný tækifæri fyrir íslenskt atvinnulíf,“ segir í auglýsingu sem ráðuneytið birtir á morgun í Fréttablaðinu.
Framlög verða veitt til samstarfsverkefna sem framkvæmd verða í lágtekju- og lágmillitekjurríkjum, samkvæmt lista Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (DAC) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar. Styrkt verkefni skulu vera til hagsbóta í viðkomandi landi og stuðla að atvinnusköpun og sjálfbærum vexti í fátækum ríkjum heims.
Umsóknir þurfa að vera frá skráðum fyrirtækjum
Sjóðurinn er opinn fyrir umsóknum frá skráðum fyrirtækjum en fleiri samstarfsaðilar geta komið að verkefnum. Mat á umsóknum byggist á gæðaviðmiðum sem er að finna á vef ráðuneytisins. Eins og áður segir eru allt að 100 milljónir til úthlutunar úr sjóðnum en hámarksfjárhæð til einstakra verkefna er allt að 200 þúsund evrur yfir þriggja ára tímabil. Heimilt er að veita styrk til sama verkefnis til allt að þriggja ára og styrkfjárhæð getur numið allt að 50% af heildarkostnaði verkefnis.
Umsóknir þurfa að berast fyrir kl. 16:00 21. desember 2018 í netfangið [email protected].
Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti þriggja manna matshóps sem skipaður er tveimur óháðum sérfræðingum á sviði þróunarsamvinnu og fulltrúa utanríkisráðuneytisins. Áætlað er að niðurstöður ráðherra liggi fyrir í lok janúar 2019.
Fyrirspurnir um sjóðinn skal senda á netfangið [email protected]. Frestur til að senda inn fyrirspurnir er til og með 18. desember. Öllum spurningum verður svarað hér.
Auk Samstarfssjóðsins við atvinnulífið leggur utanríkisráðuneytið áherslu á öflugt samstarf við félagasamtök með aukinni áherslu á þá möguleika sem felast í samvinnu við félagasamtök sem tengjast atvinnulífinu og samstarfi félagasamtaka við fyrirtæki um tiltekin verkefni.