Hoppa yfir valmynd
18. september 2019 Forsætisráðuneytið

821/2019. Úrskurður frá 10. september 2019

Úrskurður

Hinn 10. september 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 821/2019 í máli ÚNU 19060009.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 27. júní 2019, kærði A, blaðamaður, töf dómstólasýslunnar á afgreiðslu beiðni hans um upplýsingar varðandi kostnað við setu- og varadómara svo og sérfróða meðdómendur, og hve mikið slíkir dómarar hefðu fengið greitt á tilteknu tímabili. Kom fram í kærunni að liðnir væru a.m.k. þrír mánuðir frá því beiðnin var lögð fram.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í málinu er kærð töf dómstólasýslunnar á beiðni kæranda um upplýsingar. Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum við greinina í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum kemur fram að það leiði af orðalagi ákvæðisins að það sem ráði því hvort tiltekinn aðili falli undir ákvæðið sé formleg staða hans í stjórnkerfinu. Undir ákvæðið falli því einvörðungu þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljast til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Undir ákvæðið falli því ekki aðrir opinberir aðilar á borð við dómstóla og stofnanir Alþingis, s.s. umboðsmaður Alþingis. Með hliðsjón af þessu lítur úrskurðarnefndin svo á að þegar beiðni kæranda til dómstólasýslunnar var lögð fram hafi stofnunin ekki heyrt undir gildissvið upplýsingalaga.

Með lögum nr. 72/2019, sem breyttu upplýsingalögum og samþykkt voru á Alþingi 11. júní 2019, var nýrri málsgrein bætt við 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um að lögin taki til dómstóla og dómstólasýslunnar. Hins vegar segir þar einnig að ákvæði V. kafla laganna, um úrskurðarnefnd um upplýsingamál, gildi ekki um viðkomandi stofnanir. Í athugasemdum við frumvarpið sem varð að lögunum kemur fram að ekki hafi þótt æskilegt að úrskurðaraðili á vegum framkvæmdarvalds, þ.e. úrskurðarnefnd um upplýsingamál, hefði endurskoðunarvald um ákvarðanir viðkomandi stofnana. Ákvarðanir dómstólasýslunnar um aðgang að gögnum, eða tafir stofnunarinnar á afgreiðslu slíkrar beiðni, verða því ekki bornar undir úrskurðarnefnd. Verður því að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 27. júní 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta