Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Tuttugu erindi á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar

Vegrið, klór í steyptum brúargólfum, þróun þungaumferðar, hálendisvegir, skipulagsáætlanir og umferðaröryggi voru meðal fjölbreytilegra umfjöllunarefna á árlegri rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar síðastliðinn föstudag. Fjallað var um efni í fjórum flokkum: Mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag.

Gamlar brýr og nýjar
Gamlar brýr og nýjar

Skúli Þórðarson verkfræðingur kynnti efni sitt og Antons H. Þórólfssonar eðlisfræðinema um þróun þungaumferðar á þjóðvegum en þeir starfa hjá hjá Vegsýn sem er ráðgjafarfyrirtæki á samgöngu- og byggingasviði. Safnað hefur verið umferðartölum úr umferðargreinum Vegagerðarinnar til að meta hlutfall þungaumferðar en nauðsynlegt hefur reynst að leiðrétta upplýsingarnar þar sem stórir jeppar, pallbílar og minni sendibílar, auk fólksbíla með eftirvagna hafa lent í flokki með vöruflutningabílum í hinum sjálfvirku umferðargreinum. Með rannsóknum hafa verið fundin skilyrði til slíkrar leiðréttingar og segir Skúli að í sjónmáli sé bætt tækni til að ná fram nákvæmari skráningu í framtíðinni.

Vitneskja um hlutfall þungaumferðar á vegum er nauðsynleg við hönnun vega, svo sem við ákvörðun burðarlags, slitlags, vegbreiddar og klifurreina. Þessi atriði ráða úrslitum um líftíma vega þegar þungaumferð er annars vegar en umferð venjulegra fólksbíla segir Skúli að skipti óverulegu máli í þessu sambandi. Upplýsingar um hlutfall og dreifingu þungaumferðar á þjóðvegum séu því til leiðbeiningar við veghönnun og umferðarspár auk þess að gefa upplýsingar um flutninga á þjóðvegum.

Fram kom í máli Skúla að hlutfall þungaumferðar á nokkrum mælistöðvum árin 2003 til 2007 hefur verið á bilinu 9 til 11%. Þungaumferð jókst talsvert umfram aukningu almennrar umferðar árið 2005 en hefur að mestu fylgt almennri umferðaraukningu síðan. Þá er hlutfall þungaumferðar almennt breytilegt eftir árstímum sem skýrist af því að slík umferð er nokkuð jöfn yfir árið en almenn umferð er yfirleitt meiri á sumrin en að vetrarlagi.

Á meðfylgjandi myndum má sjá annars vegar hlutfall þungaumferðar á 9 mælistöðvum og hins vegar hlutfall þungaumferðar af heildarumferð hvers mánaðar í Langadal árið 2007.

Glærur frá Vegsýn um hlutfall þungaumferðar

 

 

 

Glærur frá Vegsýn um hlutfall þungaumferðar

 


Slysagildrum fækkað

Vegrið og vegbúnaður var umfjöllunarefni Daníels Árnasonar hjá Vegagerðinni og Haraldar Sigþórssonar hjá Eflu og kynnti Daníel efnið. Bentu þeir á að Ísland hefði skuldbundið sig til að uppfylla reglur og staðla er snerta öryggi vegfarenda varðandi ýmsan búnað. Mikilvægt væri að veghaldari, hönnuðir og vegfarendur vissu hvaða reglur giltu. Fram kom að vinnubrögð sem þótt hafi góð og gild fyrir nokkrum árum teldust nú slysagildrur og huga yrði að hlutum í vegstæði svo sem stórum steinum, klöppum, endum vegriða, skurðum og staura fyrir skilti.

Bryndís Friðriksdóttir, verkfræðingur hjá Eflu, ræddi um hægribeygjur af þjóðvegum og hvaða útfærsla hentaði best með tilliti til umferðaröryggis. Borin var saman óhappatíðni á þrenns konar vegamótum: Óstefnugreindum, vegamótum með samsíða hægribeyjuakrein og vegamótum með hægribeygjuframhjáhlaupi eða fleyg.

Fram kom í máli Bryndísar að lykilatriði við gerð hægribeygjuakreina væri að tryggja viðunandi sjónlínu frá ökutæki á hliðarvegi þar sem annars gæti fjölgað umferðaróhöppum þar sem ökutæki í hægribeygju skyggir á umferð á aðalvegi. Niðurstaða athugunarinnar var sú að tíðni óhappa vegna hægribeygju af aðalvegi væri lægst á óstefnugreindum vegamótum en hæst á vegamótum með hægribeygjuframhjáhlaupi eða fleyg. Séu þessi vegamót flokkuð saman og borin saman við óhappatíðni á óstefnugreindum vegamótum er meðaltíðni slysa á þeim óstefnugreindu lægri. Bryndís benti þó á að niðurstöður væru ekki tölfræðilega marktækar þar sem gagnasafnið á bak við hvern flokk væri lítið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta