Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2008 Innviðaráðuneytið

Breytt reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Samgönguráðherra hefur breytt reglugerð um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem gilda á tímabundið vegna efnhagsástandsins á Íslandi. Sett er inn bráðabirgðaákvæði sem gilda skal til ársloka 2009.

Breytingin er í þá veru að afgreiði sveitarfélag fjárhagsáætlun með rekstrarhalla kalli það ekki sjálfkrafa á aðgerðir eftirlitsnefndarinnar eins og nú gildir. Sveitarfélögum beri engu að síður að senda eftirlitsnefnd greinargerð um ástæður hallans.

Áðurnefnd reglugerð er nr. 374/2001 um eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga með síðari breytingum. Í bráðabirgðaákvæðinu segir einnig að eftirlitsnefndin skuli taka mið af því tímabundna ástandi sem ríki í efnhagsmálum á Íslandi og áhrifa þess á fjármál sveitarfélaga á næsta ári.

Þá segir að eftirlitsnefndin skuli ekki hefja formlegar aðgerðir eins og umrædd reglugerð kveði á um nema ljóst sé að samdóma mati nefndarinnar að fjárhagur viðkomandi sveitarfélags stefni í óefni miðað við fyrirliggjandi gögn og að aðrar efnahagsaðgerðir stjórnvalda muni ekki hafa þýðingu fyrir rekstur og afkomu sveitarfélagsins á næsta rekstrarári.


Reglugerðin er svohljóðandi:

REGLUGERÐ

 

um breytingu á reglugerð nr. 374/2001, um eftirlitsnefnd með fjármálum

sveitarfélaga með síðari breytingum.

 

 

1. gr.

Við reglugerðina bætist svohljóðandi bráðabirgðaákvæði:

 

Þrátt fyrir ákvæði í 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. og þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar skal eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga taka mið af því tímabundna ástandi sem ríkir í efnahagsmálum á Íslandi og áhrifa þess á fjármál sveitarfélaganna á árinu 2009.

 

Eftirlitsnefndin skal því ekki hefja formlegar aðgerðir sbr. 11. gr. og með vísan til III. kafla reglugerðarinnar, nema ljóst sé að samdóma mati nefndarinnar, að fjárhagur viðkomandi sveitarfélags stefni í óefni miðað við fyrirliggjandi gögn og að aðrar efnahagsaðgerðir stjórnvalda muni ekki hafa þýðingu fyrir rekstur og afkomu sveitarfélagsins á rekstrarárinu 2009.

 

Fjárhagsáætlun sem afgreidd er með rekstrarhalla kallar ekki sjálfkrafa á aðgerðir af hálfu eftirlitsnefndar. Engu að síður ber sveitarfélögum sem setja fram slíkar fjárhagsáætlanir fyrir árið 2009 að senda eftirlitsnefnd greinargerð um ástæður hallans í samræmi við 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar.

 

Ákvæði þetta gildir til 31. desember 2009.

 

2. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 74. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

 

 

Samgönguráðuneytinu, 5. nóvember 2008.

 

 

Kristján L. Möller

 

                                    Ragnhildur Hjaltadóttir

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta