Tilkynning til Íslendinga í Rússlandi
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins vekur athygli á að margar vinaþjóðir Íslands hafa uppfært ferðaviðvaranir sínar vegna Rússlands. Fólki er eindregið ráðið frá því að ferðast til Rússlands og sum ríki hvetja nú ríkisborgara sína sem ekki þurfa nauðsynlega að dveljast þar áfram að yfirgefa landið. Flug frá Rússlandi er mjög takmarkað vegna lokunar lofthelgi Evrópuþjóða fyrir rússneskum loftförum og gagnkvæmra aðgerða rússneskra yfirvalda. Þá eru taldar vaxandi líkur á óstöðugleika þar.
Borgaraþjónustan hvetur íslenska ríkisborgara í Rússlandi til að huga að ferðaskilríkjum, vera tilbúna að breyta ferðaáætlunum sínum með stuttum fyrirvara og fylgjast vel með ferðaviðvörunum utanríkisráðneyta Norðurlandanna. Þeir eru einnig hvattir til að láta borgaraþjónustuna vita af sér með tölvupósti, [email protected]. Í neyðartilfellum er hægt að hafa samband við borgaraþjónustuna í síma +354 545 0112 (opið allan sólarhringinn).
Á meðfylgjandi hlekk er að finna tengla á ferðaráð utanríkisráðuneyta nokkurra af vinaþjóðum Íslands. Þá bendum við á snjallforritið Rejseklar þar sem hægt er að fá tilkynningar um breytingar á ferðaviðvörunum danskra stjórnvalda.
https://www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/adstod-erlendis/ferdavidvaranir/