Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 14/2017

Hinn 20. október var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 14/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 12/2007

Björn Erlendsson

og

Sigríður Á. Ásgrímsdóttir

gegn

Gunnari Dungal

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 16. janúar 2017, fór Björn Erlendsson þess á leit að hæstaréttarmál nr. 12/2007, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 18. október 2007, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 12/2007 var staðfest niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. október 2006 þar sem ekki var fallist á kröfur endurupptökubeiðanda um staðsetningu landamerkja landspildna með nánar tilgreindum hætti. Endurupptökubeiðandi og eiginkona hans áttu bæði aðild að því máli.

Endurupptökunefnd barst beiðni frá endurupptökubeiðanda 16. janúar 2017 um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 12/2007. Af þessu tilefni beindi endurupptökunefnd fyrirspurn til Hæstaréttar, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort réttinum hefði borist beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 12/2007. Með bréfi Hæstaréttar 24. apríl 2017 var greint frá því að réttinum hefði borist sameiginleg beiðni endurupptökubeiðanda og eiginkonu hans um endurupptöku á framangreindu máli 24. nóvember 2008. Hæstiréttur synjaði þeirri beiðni 24. febrúar 2009.

III.       Grundvöllur beiðni

Af beiðni endurupptökubeiðanda má ráða að hann telji skilyrðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 12/2007 þótt ekki sé vísað til ákvæða laganna í beiðninni.

Endurupptökubeiðandi vísar meðal annars til þess að hann hafi staðið einn að beiðni sem beint var til Hæstaréttar 24. nóvember 2008 um endurupptöku hæstaréttarmálsins. Byggt er á því að eiginkona endurupptökubeiðanda hafi verið ranglega skráð sem aðili að fyrrgreindri endurupptökubeiðni fyrir Hæstarétti og hafi endurupptökubeiðandi hvorki haft umboð né heimild frá eiginkonu sinni til endurupptöku málsins.

IV.       Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Kveðið er á um það í 2. mgr. 169. gr. laganna að aðili geti ekki sótt um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. nema einu sinni. Í 2. mgr. 168. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd skuli synja þegar í stað um endurupptöku ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur áður beðið um að hæstaréttarmál nr. 12/2007 verði endurupptekið. Samkvæmt úrlausn Hæstaréttar stóð eiginkona endurupptökubeiðanda einnig að þeirri beiðni. Hæstiréttur synjaði þeirri beiðni 24. febrúar 2009 eins og áður greinir. Þar sem einungis er unnt að sækja um endurupptöku einu sinni skortir lagaskilyrði til að fjalla um endurupptökubeiðni þessa og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laganna.

Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd.

 Úrskurðarorð

Beiðni Björns Erlendssonar um endurupptöku dóms Hæstaréttar nr. 12/2007, sem kveðinn var upp 18. október 2007, er hafnað.

  

Björn L. Bergsson formaður

  

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta