Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 16/2017

Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 16/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmáls nr. 356/2016;

Íslandsbanki hf.

gegn

Hlédísi Sveinsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I.          Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 12. maí 2017, fór Hlédís Sveinsdóttir þess á leit að hæstaréttarmál nr. 356/2016, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 14. júní 2016, yrði endurupptekið.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 356/2016 var felldur úr gildi úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. apríl 2016 þar sem aðfarargerð sýslumanns, sem lauk með árangurslausu fjárnámi hjá endurupptökubeiðanda, var felld úr gildi. Endurupptökubeiðandi, eiginmaður hennar og annar maður gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld samkvæmt veðskuldabréfi sem jafnframt var tryggt með veði í fasteign endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar. Vegna vanskila bréfsins var fasteignin seld nauðungarsölu 14. mars 2012 og var kaupandi gagnaðili, Íslandsbanki hf., sem einungis fékk úthlutað að hluta upp í kröfu sína.

Endurupptökubeiðandi hefur áður óskað eftir endurupptöku á þessum dómi Hæstaréttar. Þeirri beiðni var synjað 19. október 2016 með úrskurði endurupptökunefndar í máli nr. 3/2016. Í kjölfar niðurstöðu endurupptökunefndar gerði endurupptökubeiðandi þá kröfu með bréfi, dagsettu 8. nóvember 2016, að nefndin tæki málið aftur til efnislegrar umfjöllunar þar sem umfjöllun nefndarinnar hafi verið ábótavant og að formanni nefndarinnar hafi borið að víkja sæti. Með bréfi endurupptökunefndar, dagsettu 29. nóvember 2016, var endurupptökubeiðanda gerð grein fyrir að ekki væri grundvöllur til þess að taka málið aftur til efnislegrar umfjöllunar þar sem þau atriði sem endurupptökubeiðandi vísaði til hefðu þegar verið til umfjöllunar fyrir endurupptökunefnd í máli nr. 3/2016. Þá var því hafnað að störf formanns endurupptökunefndar sem setts ríkissaksóknara á árinu 2009 hafi valdið vanhæfi í málinu þótt eiginmaður endurupptökubeiðanda, sem ekki átti aðild að endurupptökumálinu, hafi sætt rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara.

Endurupptökubeiðandi óskaði á ný eftir endurupptöku á fyrrgreindum hæstaréttardómi með beiðni til endurupptökunefndar 10. febrúar 2017 í máli nr. 7/2017. Þeirri beiðni var hafnað þegar í stað með úrskurði nefndarinnar 27. apríl 2017 þar sem einungis er unnt að sækja um endurupptöku einu sinni, sbr. 2. mgr. 169. gr. laga um meðferð einkamála. Í þeim úrskurði var jafnframt tilgreint að málatilbúnaður endurupptökubeiðanda er laut að því að formaður endurupptökunefndar hafi verið vanhæfur ættu ekki við rök að styðjast þar sem hann tengdist ekki á neinn hátt ágreiningsmáli sem eiginmaður endurupptökubeiðanda átti aðild að sem endurupptökubeiðandi hafði vísað til.

Endurupptökubeiðandi kom á framfæri erindi til endurupptökunefndar, dagsettu 16. júní 2017, með frekari rökstuðningi fyrir því að heimila ætti endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli 356/2016. Áréttaðar voru málsástæður sem haldið hefur verið fram, meðal annars um að krafa gagnaðila hafi verið nægjanlega tryggð með vísan til ábyrgðar þriðja manns og eignastöðu hans og sjónarmiða um vanhæfi setts hæstaréttardómara, sem og vanhæfi þáverandi forseta Hæstaréttar, og um vanhæfi formanns endurupptökunefndar. Þá kom endurupptökubeiðandi á framfæri sjónarmiðum um vanhæfi nefndarmanns, Hauks Arnar Birgissonar, með bréfi dagsettu 9. október 2017, og kröfu um að hann viki sæti við undirbúning og úrlausn málsins.

III.       Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðandi telur öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála vera fullnægt til endurupptöku málsins. Endurupptökubeiðandi vísar í því tilliti til erindis, dagsettu 10. febrúar 2017, sem var til umfjöllunar í máli endurupptökunefndar nr. 7/2017. Einnig er vísað til þeirra röksemda endurupptökubeiðanda sem lágu til grundvallar úrskurði í máli endurupptökunefndar nr. 3/2016. Í endurupptökubeiðni er sérstaklega vikið að því að sterkar líkur séu leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Rakið er sérstaklega á hvern hátt endurupptökubeiðandi telur einn dómara Hæstaréttar hafa verið vanhæfan til úrlausnar þess auk þess sem vísað er í þeim efnum til athugasemda endurupptökubeiðanda í máli endurupptökunefndar nr. 3/2016. Vísað er til skyldleika milli setts hæstaréttardómara við stjórnarformann hluthafa hlutafélagsins sem átti Íslandsbanka hf. Í áskorun endurupptökubeiðanda og eiginmanns hennar til umrædds hæstaréttardómara, um upplýsingagjöf, er staðhæft að um sé að ræða náið samband milli umræddra aðila sem varað hafi áratugum saman.

Þá telur endurupptökubeiðandi að málsmeðferð endurupptökunefndar í máli nr. 7/2017 hafi verið ábótavant þar sem í niðurstöðukafla úrskurðarins hafi ekki verið vikið að þeirri málsástæðu hennar að málsmeðferð nefndarinnar hafi verið ábótavant við úrlausn máls nr. 3/2016 þar sem á hafi skort að reglum 10., 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri fylgt.

Í fyrrgreindu erindi frá 16. júní síðastliðinn voru áréttaðar málsástæður sem haldið hefur verið fram, meðal annars um að krafa gagnaðila hafi verið nægjanlega tryggð með vísan til ábyrgðar þriðja manns og eignastöðu hans. Þá voru reifuð sjónarmið um vanhæfi setts hæstaréttardómara ásamt þáverandi forseta Hæstaréttar og formanns endurupptökunefndar. Þá hefur endurupptökubeiðandi komið sjónarmiðum á framfæri um vanhæfi nefndarmanns í endurupptökunefnd vegna tengsla við settan hæstaréttardómara og sökum tengsla við stjórnmálaflokk á sama tíma og eiginmaður endurupptökubeiðanda sé í framboði fyrir annan stjórnmálaflokk.

IV.       Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Kveðið er á um það í 2. mgr. 169. gr. laganna að aðili geti ekki sótt um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. nema einu sinni. Þá segir í 3. mgr. 169. gr. laganna að ákvæði 1. – 3. mgr. 168. gr. skuli gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku. Í 2. mgr. 168. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd skuli synja þegar í stað um endurupptöku ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur tvisvar áður beðið um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 356/2016, sbr. mál 3/2016 og 7/2017. Endurupptökunefnd synjaði þeim beiðnum 19. október 2016 og 27. apríl 2017 eins og áður greinir. Einungis er unnt að sækja um endurupptöku samkvæmt lögum um meðferð einkamála einu sinni og skortir því lagaskilyrði til að fjalla um endurupptökubeiðni þessa.

Þess má geta, að endurupptökubeiðandi hefur frá öndverðu byggt á áður röktu vanhæfi setts dómara Hæstaréttar. Af hálfu endurupptökunefndar var ekki talið að sú málsástæða ætti við rök að styðjast, sbr. úrskurð nr. 3/2016. Endurupptökubeiðandi beindi áskorun til hæstaréttardómarans 24. maí 2017 og krafðist upplýsinga um skyldleika dómarans og tengsl við stjórnarformann hluthafa Íslandsbanka hf. Í tölvubréfi sem endurupptökunefnd barst 6. júní síðastliðinn frá hæstaréttardómaranum er gerð grein fyrir skyldleika og afar takmörkuðum tengslum dómarans við fyrrnefndan stjórnarformann. Þær upplýsingar eru í samræmi við fyrri niðurstöðu endurupptökunefndar um að þessi tengsl skapi ekki forsendur til endurupptöku dóms Hæstaréttar. Leyst var úr sjónarmiðum er lutu að hæfi formanns endurupptökunefndar í úrskurði í máli nr. 7/2017 sem kveðinn var upp 27. apríl 2017. Þá ber að sama brunni að ekki er um vanhæfi nefndarmanns í endurupptökunefnd að ræða vegna áðurnefnds hæstaréttardómara enda hæstaréttardómarinn hvorki vanhæfur né nefndarmaður endurupptökunefndar svo tengdur dómaranum að vanhæfi valdi. Önnur sjónarmið sem endurupptökubeiðandi hefur reifað í þessum efnum eru ekki til þess fallin að valda vanhæfi nefndarmannsins.

Með ofangreindum athugasemdum áréttast að þar sem einungis er unnt að sækja um endurupptöku samkvæmt lögum um meðferð einkamála einu sinni skortir lagaskilyrði til að fjalla um endurupptökubeiðni þessa og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laganna.

Uppkvaðning þessa úrskurðar hefur tafist vegna skipunar nefndarmanns í endurupptökunefnd.

 Úrskurðarorð

Beiðni Hlédísar Sveinsdóttur um endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 356/2016, sem kveðinn var upp 14. júní 2016, er hafnað.

  

Björn L. Bergsson formaður

  

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta