Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2017 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 23/2017

Hinn 20. október 2017 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 23/2017:

 

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. S-846/2016

Ákæruvaldið

gegn

Aðalsteini Bjarnasyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR:

 

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi, dagsettu 18. ágúst 2017, lagði ríkissaksóknari fram beiðni til endurupptökunefndar um að heimiluð yrði endurupptaka máls nr. S-846/2016 sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. desember 2016.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Björn L. Bergsson, Haukur Örn Birgisson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-846/2016, sem kveðinn var upp 7. desember 2016, var Aðalsteinn Bjarnason dæmdur til að sæta fangelsi í fimm mánuði og fimmtán daga, en frestað var fullnustu tveggja mánaða af refsingunni. Óskilorðsbundið fangelsi var því ákveðið þrír mánuðir og fimmtán dagar. Í umfjöllun um ákvörðun refsingar var fjallað um sakarferil dómfellda og frá því greint að samkvæmt sakavottorði eigi hann að baki nokkurn sakaferil. Hann sé í málinu sakfelldur fyrir að aka tvívegis undir áhrifum áfengis og alls fjórum sinnum ekið sviptur ökuréttindum. Við ákvörðun refsingar sé miðað við að dómfelldi hafi verið fundinn sekur í þriðja sinn um að aka undir áhrifum áfengis sem og sviptur ökuréttindum. Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða, uppkveðnum, 2. nóvember 2015, hafi dómfellda verið gert að sæta fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir hegningarlagabrot. Með brotum þeim sem dómfelldi sé sakfelldur fyrir í máli nr. S-846/2016 hafi hann rofið skilorð þess dóms. Hafi því borið að dæma skilorðsdóminn upp og dómfellda dæmd refsing í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með hliðsjón af sakarefni málsins og ákvæðum 77. gr. sömu laga, þótti refsing dómfellda hæfilega ákveðin fangelsi í fimm mánuði og fimmtán daga, en refsingin skilorðsbundin að hluta, á þann veg að tveir mánuðir refsingarinnar skyldu falla niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu, héldi dómfelldi almennt skilorð 57. gr. sömu laga en þrír mánuðir og fimmtán dagar óskilorðsbundnir eins og áður gat.

III. Grundvöllur beiðni

Í erindi ríkissaksóknara frá 18. ágúst 2017 kemur fram að ríkissaksóknari hafi orðið þess áskynja að dómfellda í máli nr. S-846/2016 hafi verið gerð refsing í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 57. gr. a. almennra hegningarlaga. Dómfelldi var dæmdur til að sæta fangelsi í fimm mánuði og fimmtán daga, en frestað var fullnustu tveggja mánaða af refsingunni. Óskilorðsbundið fangelsi var því ákveðið þrír mánuðir og fimmtán dagar en samkvæmt 1. mgr. 57. gr. a. er að hámarki heimilt að ákveða að þrír mánuðir fangelsisrefsingar verði óskilorðsbundnir sem er skilorðsbundin að öðru leyti.

Með vísan til 4. mgr., sbr. d-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála setur ríkissaksóknari fram þá beiðni að heimiluð verði endurupptaka máls nr. S-846/2016.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í 4. mgr. 211. gr. laganna segir að ríkissaksóknari geti beiðst endurupptöku máls, til meðferðar og dómsuppsögu að nýju, til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur atvik vera með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 211. gr.

Í 1. mgr. 211. gr. laganna er kveðið á um að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt.

Skilyrði stafliða a-d 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála eru svohljóðandi:

  1. fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk,

  2. ætla má að lögregla, ákærandi, dómari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða háttsemi í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef vitni eða aðrir hafa vísvitandi borið ranglega fyrir dómi eða fölsuð skjöl verið lögð fram og það hefur valdið rangri niðurstöðu málsins,

  3. verulegar líkur eru leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í máli hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess,

  4. verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.

Fyrir liggur að dómfellda var gerð refsing með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-846/2016, sem kveðinn var upp 7. desember 2016. Sem fyrr greinir var dómfelldi dæmdur til að sæta fangelsi í fimm mánuði og fimmtán daga, en frestað var fullnustu tveggja mánaða af refsingunni. Óskilorðsbundið fangelsi var því ákveðið þrír mánuðir og fimmtán dagar. Í ákvæði 1. mgr. 57. gr. a. almennra hegningarlaga er kveðið á um að í dómi sé heimilt að ákveða að allt að þrír mánuðir fangelsisrefsingar verði óskilorðsbundnir, en aðrir hlutar skilorðsbundnir. Ljóst er að dómfellda var gerð refsing í andstöðu við fyrrgreint lagaákvæði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Á málsmeðferð héraðsdóms var því verulegur galli í skilningi d-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála sem hafði áhrif á niðurstöðu málsins.

Með vísan til framangreinds eru skilyrði til að verða við beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku á máli nr. S-846/2016 uppfyllt, og er endurupptökubeiðnin því samþykkt.

 Úrskurðarorð

Beiðni ríkissaksóknara um endurupptöku máls nr. S-846/2016, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. desember 2016, er samþykkt.

 

 Björn L. Bergsson formaður

  

Haukur Örn Birgisson

  

Þórdís Ingadóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta