Hoppa yfir valmynd
18. október 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 154/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 154/2017

Miðvikudaginn 18. október 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. apríl 2017, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2017, um upphafstíma örorkumats sem var ákveðinn frá 1. desember 2014.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 1. desember 2016, og óskaði eftir greiðslum aftur í tímann. Með örorkumati, dags. 6. janúar 2017, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. desember 2014.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2017. Með bréfi, dags. 19. apríl, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 16. maí 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júní 2017. Athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 14. júní 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann krefjist afturvirkra greiðslna örorkulífeyris frá því að hann hafi fyrst verið metinn með 100% örorku.

Í kæru segir að kærandi hafi lent í alvarlegu slysi X [...] í C. Frá því hafi hann verið með greiningu til 100% örorku en þó ekki innan Tryggingastofnunar ríkisins því þar inni sé bréf ritað af D um að kærandi sé einungis 20% öryrki. Bréfið sé inn á milli annarra vottorða um örorku hans og eina sem komi frá D. Hvergi sé beðið um þetta vottorð og kærandi hafi aldrei hitt D.

Kærandi hafi ekki fengið örorku frá stofnuninni fyrr en árið 2017 þegar hann hafi verið metinn 100% öryrki á grundvelli X ára gamalla læknisvottorða. Örorkumatið gildi tvö ár aftur í tímann. Það sé undarlegt að á innan við einum mánuði frá því að umsókn sé skilað, dags. 9. desember 2016, sé komin niðurstaða í málinu.

Kærandi sé ósáttur við að hann skuli ekki fá rétt sinn metinn frá því að fyrsta vottorð sé ritað. Þá komi inn þessi svokallaða fyrning á réttindum. Aftur á móti sé spurt hvernig það geti orðið fyrning á réttindum samkvæmt stjórnarskrá. Einnig sé spurt hvernig það hafi getað gerst að innan stofnunarinnar sé bara til eitt vottorð en ekki öll hin sem fylgi með kærunni og séu öll rituð og gefin út af stofnuninni. Það séu ansi mörg réttindi sem kærandi hafi verið sviptur á síðustu X árum, t.d. bifreiðagjöld, bifreiðastyrkur og ýmis annar kostnaður.

Sé ekki kominn tími til að viðkomandi mál verði leiðrétt og kærandi fái sinn raunverulega rétt líkt og hann hafi átt samkvæmt mati stofnunarinnar þar sem hann var metinn 100% með X ára gömlum læknisvottorðum og viðurkennt verði um leið að læknisvottorð eða örorkumat D sé einfaldlega falsað skjal sem hann hafi aldrei verið beðinn um að gera.

Hvernig geti stofnunin borið fyrir sig fyrningu þegar komin er sönnun um að starfsmaður stofnunarinnar hafi falsað skjal sem hafi þær afleiðingar í för með sér að brotið hafi verið á réttindum kæranda samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindum í X ár. Þar sem brotin séu samfelld sé erfitt að tala um gamalt mál, enda sé málið bæði nýtt og gamalt.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar segir að kæranda finnist vanta með greinargerð stofnunarinnar gögn sem matið sé byggt á. Spurt sé hvers vegna stofnunin geri ekki grein fyrir því af hverju ekki hafi verið farið fram á að ný gögn yrðu notuð sem undirstaða í matinu. Í staðinn séu notuð gögn sem kærandi hafi sent nefndinni.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylli tiltekin skilyrði. Í ákvæðinu segi að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem hafi verið búsettir Íslandi, sbr. I kafli, séu 18 ára eða eldri en hafi ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr. og:

„a) hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef starfsorka var óskert við er þeir tóku hér búsetu,

b) eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þar segi einnig að stofnunin meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur svo og að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Þeir eigi rétt á örorkustyrk sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar, sbr. 19. gr. almannatryggingalaga. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í [4. mgr.] 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 1. desember 2016. Í umsókn sé óskað eftir greiðslum frá 1. desember 2014 eða tvö ár aftur í tímann. Með örorkumati, dags. 6. janúar 2017, og bréfi, dags. 10. janúar 2017, hafi umsókn kæranda um greiðslu örorkulífeyris verið samþykkt tvö ár aftur í tímann eða frá 1. desember 2014.

Réttindin og skilyrði greiðslna örorkulífeyris séu bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og [4. mgr.] 53. gr. almannatryggingalaga komi fram að það þurfi að sækja um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.

Samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi [4. mgr.] 53. gr. almannatryggingalaga skuli bætur, aðrar en slysalífeyrir og sjúkradagpeningar, aldrei úrskurðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berist stofnuninni. Kærandi hafi fyrst sótt um greiðslu örorkulífeyris með umsókn, dags. 1. desember 2016. Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu örorkulífeyris telji Tryggingastofnun að komið hafi verið eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeim kröfum kæranda sem settar séu fram í kæru hans um greiðslu örorkulífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið. Benda megi á að í úrskurðum úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 360/2015, 312/2015 og 286/2015 hafi nefndin komist að sömu niðurstöðu varðandi upphafstíma barnalífeyris.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2017, um upphafstíma örorkumats kæranda frá 1. desember 2014. Kærandi óskar eftir afturvirkum greiðslum örorkulífeyris frá því hann hafi fyrst verið metinn með 100% örorku.

Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Bætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. sömu greinar skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Kærandi sótti um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris með umsókn, dags. 1. desember 2016. Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að í fyrrnefndri 1. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um að sækja skuli um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum. Örorkulífeyrir er því ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun ríkisins heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur.

Kærandi var talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati 6. janúar 2017 og var gildistími örorkumatsins ákvarðaður varanlegur frá 1. desember 2014. Samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laganna er Tryggingastofnun ekki heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast. Úrskurðarnefnd telur ljóst af skýru orðalagi 1. mgr. 52. gr. og 4. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga að ekki sé heimilt að ákvarða greiðslur örorkulífeyris lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast. Þegar af þeirri ástæðu er það niðurstaða úrskurðarnefndar að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um upphafstíma örorkumats.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2017, að upphafstími örorkumats skuli vera 1. desember 2014.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. janúar 2017 þess efnis að A, skuli fá greiddan örorkulífeyri frá 1. desember 2014, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta