Hoppa yfir valmynd
11. maí 2021 Dómsmálaráðuneytið

Uppbygging og endurnýjun fangelsisins á Litla Hrauni

Dómsmálaráðherra lagði fram tillögu um endurnýjun og uppbyggingu fangelsisins á Litla-Hrauni á ríkisstjórnarfundi í morgun. Ríkisstjórnin samþykkti að leita leiða til að tryggja fjármögnun aðgerða í fjármálaáætlun 2022-2026. Stefnt er að því að undirbúningur geti hafist nú þegar og framkvæmdum verði að fullu lokið um mitt ár 2023.

Fangelsið á Litla-Hrauni hýsir um helming allra fangelsisrýma í landinu en það uppfyllir ekki lengur þær kröfur sem gera verður til slíkrar starfsemi. Að mati Framkvæmdasýslu ríkisins er kostnaður við nauðsynlegar endurbætur áætlaður um 1,6 milljarður króna. Þessum fjármunum verður varið m.a. til að byggja upp öfluga heilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu fyrir fangelsiskerfið í heild og einnig til að lagfæra aðstöðu bæði fanga og fangavarða. Auðveldara verður að skilja að hinar ýmsu deildir fangelsisins og bæta aðbúnað aðstandenda til heimsókna.

Árin 2019 og 2020 fór fram úttekt nefndar Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndarinnar) hér á landi. Gerði nefndin m.a. athugasemdir vegna fangelsisins á Litla-Hrauni. Lutu þær m.a. að því hve illa hefur gengið að stemma stigu við útbreiðslu fíkniefna í fangelsinu. Þá gerði nefndin einnig athugasemdir við aðgengi að heilbrigðisþjónustu, einkum geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga. Þá hefur Vinnueftirlitið gert athugasemdir við starfsaðstöðu fangavarða og fanga á Litla-Hrauni.

Í kjölfar úttektar CPT nefndarinnar var gerð aðgerðaráætlun um að efla heilbrigðisþjónustu við fanga, skilgreina verklag og ábyrgð í innri starfsemi fangelsanna og vinna að þarfagreiningu til að sporna gegn dreifingu og neyslu vímuefna á Litla-Hrauni. Framkvæmdasýsla ríkisins vann þarfagreininguna ásamt Fangelsismálastofnun. Í dag sinna um 10 til 15 heilbrigðisstarfsmenn föngum fangelsisins. Undanfarin misseri hefur loks náðst góður árangur við uppbyggingu geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga með góðri samvinnu við heilbrigðisráðuneytið og önnur heilbrigðisyfirvöld. Er starfinu sinnt  í gömlum aflögðum fangaklefum. Brýnt er að bæta aðbúnað þessarar þýðingarmiklu starfsemi og einnig er aðkallandi að tryggja betur öryggismál fangelsisins og bæta starfsumhverfi fangavarða.

Litla-Hraun er stærsta fangelsi landsins og því eðlilegt að horfa til þess við uppbyggingu á öflugri heilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu fyrir fangelsiskerfið. Lengi hefur legið fyrir að húsnæði og aðstaða er ófullnægjandi. Með framkvæmdum þeim sem nú verður ráðist í er stefnt að því að vandamál fangelsisins verði færð í fullnægjandi horf.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta