Vegna umræðu um sauðfjársamning Bændasamtaka og ríkis
Vegna umræðu síðustu vikna um búvörusamninga um starfsskilyrði sauðfjárræktar vill matvælaráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri.
Í núgildandi sauðfjársamningi, sem gerður var árið 2016 var m.a. samið um að svokallað greiðslumark myndi falla niður í áföngum á samningstímanum, eða til ársloka 2026. Í kjölfar samþykktar samningsins í atkvæðagreiðslu meðal bænda, í lok mars 2016, voru gerðar viðeigandi lagabreytingar. Þar á meðal um að 1. janúar 2026 falli greiðslumark úr gildi. Á samningstímanum yrði það fjármagn sem afmarkað er í samningnum til greiðslu út á greiðslumark fært yfir á önnur verkefni samningsins. Ákvæði voru um að niðurtröppunin skyldi endurskoðuð við fyrri endurskoðun samingsins árið 2019 ef afurðaverð til bænda þróaðist ekki með ákveðnum hætti á fyrstu árum samningsins. Á þetta ákvæði reyndi og við endurskoðunina var ákveðið að seinka upphafi niðurtröppunar til 1. janúar 2023. Niðurstaða endurskoðunarinnar fór í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda og var samþykkt með 68% atkvæða. Samkvæmt samningnum er síðari endurskoðun á næsta ári. Samningurinn kveður á um að horfa skuli til sömu atriða við seinni endurskoðun og við þá fyrri.
Bændasamtökin hafa í tvígang farið fram á við matvælaráðherra að vikið verði frá gildandi samningi um samningsbundna niðurtröppun greiðslumarks á árinu 2023. Matvælaráðuneytið taldi slíkt fara gegn ákvæðum samningsins og gildandi búvörulögum og féllst því ekki á beiðnirnar. Þá var bent á að samningsbundin endurskoðun væri á dagskrá á árinu 2023.
Því hefur verið haldið fram í opinberri umræðu að niðurtröppun sú sem samið var um árið 2016 og aftur 2019 komi til með að hafa áhrif á opinberar greiðslur til sauðfjárbænda. Matvælaráðuneytið leggur áherslu á að við niðurtröppunina verða engar breytingar á heildarfjárhæðum opinbers stuðnings við sauðfjárrækt. Hins vegar færist um 1,9,% af stuðningi milli framleiðenda. Stuðningur skv. fjárlögum næsta árs er ríflega 6,2 milljarðar króna, samanborið við 5,5 milljarða á yfirstandandi ári. Um það bil 2,3 milljarðar renna þar af til beingreiðslna. Hækkun fjárhæða skýrist af verðlagsuppfærslum.
Þeir fjármunir sem flytjast af beingreiðslum á næsta ári munu hækka framlög til býlisstuðnings, ullarnýtingar og fjárfestingastuðnings. Það hefur í för með sér að stuðningur hækkar hjá 784 framleiðendum en lækkar á móti hjá 907. Almennt má segja að þeir hækki sem eiga lítið greiðslumark og öfugt. Meðalásetningshlutfall fyrri hópsins er 1,7 og munu framlög til hans hækka. Hjá seinni hópnum er hlutfallið 0,8 og munu framlög til hans lækka. Heilt yfir dreifist stuðningurinn því jafnar á framleiðendur. Ekki er aldursmunur milli hópanna tveggja.
Ráðuneytið vill taka fram að taka fram áhrif fyrrgreindra breytinga voru fengin með útreikningi áætlaðra stuðningsgreiðslna skv. ákvæðum gildandi sauðfjársamnings fyrir árin 2022 og 2023. Gert var ráð fyrir óbreyttum framleiðsluforsendum bæði árin, þ.e. fjölda fjár, kjöt- og ullarframleiðslu og fjölda ærgilda. Greiðslurnar eru bornar saman á föstu verðlagi. Áhrifum breytinga á greiðslum sem sækja þarf sérstaklega um, þ.e. fjárfestingastuðnings eða sem ganga til sérstakra verkefna vegna aukins virði afurða er sleppt.