Mál nr. 163/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 163/2019
Þriðjudaginn 23. júní 2020
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 26. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2020, um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur og að innheimta ofgreiddar bætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 15. janúar 2020 og var umsóknin samþykkt. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2020, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt fyrir mistök. Þar sem kærandi stundaði nám við B væri umsókn hans hafnað með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Þá bæri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir janúarmánuð að fjárhæð 112.031 kr., án álags.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 26. mars 2020. Með bréfi, dags. 3. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 27. maí 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að […] með þeim afleiðingum að […] og hann því misst vinnu sem C. […]. Fyrirtæki kæranda hafi verið tilkynnt til Vinnumálastofnunar og allir starfsmenn þess farið á atvinnuleysisbætur frá og með 15. janúar 2020. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt 28. febrúar 2020 og sama dag hafi verið greiddar inn á reikning kæranda 112.031 kr. Þann 16. mars 2020 hafi kærandi fengið annað bréf þar sem honum hafi verið tilkynnt að honum sé synjað um greiðslu atvinnuleysisbóta af því að kærandi sé í námi og honum gert að skila þeirri greiðslu sem hann hafi verið búinn að fá.
Undanfarin ár hafi kærandi stundað lotunám við B með fullri vinnu sem C. Í vetur sé kærandi í lotubundnu námi í D sem sé sérstaklega sniðið fyrir fólk sem sé í fullri vinnu og einungis kennt um kvöld og helgar og hann sé í fjarnámi. B og nokkrir aðrir framhaldsskólar á landsbyggðinni hafi boðið fullorðnu fólki upp á slíkt nám. Þeir sem stundi lotunám geri það samhliða fullri vinnu. Þeir eigi ekki rétt á námslánum þar sem tekjur þeirra séu oftast of háar eða þeir séu ekki að sækjast eftir láni.
Verði niðurstaðan sú að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysibótum á þeim forsendum að kærandi sé í lotunámi muni skapast fordæmi. Fólk sem hyggist sækja um nám með vinnu og/eða sé á atvinnuleysisbótum muni þá að óbreyttu missa atvinnuleysisbætur og það sé veruleg hindrun fyrir fólk til að nýta sér þessi mikilvægu námstækifæri. Það sé sérstaklega mikilvægt að þessu verði breytt í ljósi núverandi aðstæðna.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi með umsókn um atvinnuleysisbætur upplýst Vinnumálastofnun um að hann væri að stunda nám. Kæranda hafi verið tjáð að hann gæti ekki þegið atvinnuleysisbætur á meðan hann stundaði nám. Fyrir mistök hafi umsókn hans verið samþykkt en það hafi ekki komið í ljós fyrr en eftir að hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir janúarmánuð.
Mál þetta lúti meðal annars að 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram komi að hver sá sem stundi nám í skilningi c-liðar 3. gr. laganna teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum. Fram komi í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari skilyrðum uppfylltum. Í máli kæranda hafi ekki verið um að ræða nám á háskólastigi og eigi undanþágur 2. og 3. mgr. laganna því ekki við. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi verið skráður í nám í D á framhaldsskólastigi. Af þessu verði að álykta að meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við í tilviki kæranda.
Ljóst sé af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar árið 2006 sé í umfjöllum um 52. gr. frumvarpsins tiltekið að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dagskóla, kvöldskóla eða fjarnám. Auk þessa sé það eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Samkvæmt undanþáguheimild 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 geti sá sem stundi nám talist tryggður sé námið hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1224/2015 sé fjallað um námssamninga. Vinnumálastofnun sé með 4. gr. reglugerðarinnar veitt heimild til að gera námssamning við atvinnuleitendur. Samkvæmt framangreindu sé það skilyrði fyrir því að geta sótt nám samhliða greiðslu atvinnuleysistrygginga að atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óski eftir samningi. Ef um sé að ræða 75% nám eða meira skuli viðkomandi atvinnuleitandi hafa verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti tólf mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óski eftir samningi samkvæmt ákvæðinu. Kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 15. janúar og verið skráður í nám á þeim tímapunkti. Vinnumálastofnun sé því ekki heimilt að gera námssamning vegna náms kæranda.
Þar sem kærandi uppfylli ekki almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á meðan hann stundi nám beri stofnuninni að innheimta þær atvinnuleysisbætur sem honum hafi verið greiddar á meðan hann hafi verið skráður í nám, enda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði laganna til slíkra greiðslna.
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir janúar 2020, samtals að upphæð 112.031 kr. Þar sem ofgreiðsla hafi komið til sökum mistaka hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi ekki verið krafinn um álag.
IV. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur og að innheimta ofgreiddar bætur.
Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám en þar segir:
„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.“
Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:
„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“
Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.
Óumdeilt er að kærandi var skráður í og stundaði nám við B þegar hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta og að hann hafi upplýst stofnunina um námið. Þá er óumdeilt að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Úrskurðarnefndin telur að nám kæranda falli undir skilgreiningu c-liðar 3. gr. laganna, enda er um að ræða nám á framhaldsskólastigi. Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hann stundaði nám í skilningi laganna. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma ekki til skoðunar þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hann var skráður í námið og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun.
Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:
„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.
Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“
Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. mars 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur og að innheimta ofgreiddar bætur er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson